Valdimar Þór Svavarsson svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem er í basli með maka sinn.
Sæll
Ég er í yndislegu sambandi við konu sem er frábær í alla staði - nema eitt... hún er að mér finnst afbrýðisöm og stjórnsöm við mig. Ég er í vinnu þar sem ég hitti mikið af kvenfólki og vinn með því (sem yfirmaður). Hún hefur komið með mér á vinnustaðaskemmtanir og verið með mér í vinnunni og talar þá um að ég tali á annan hátt við konur en karla. Að ég horfi í augun á öllum konum og að ég daðri við konur sem ég hitti. Hún hefur bannað mér að tala við fyrrverandi kærustu og ég hef gert það þó ég hefði síður valið það sjálfur - og hún er með aðfinnslur ef ég tala vingjarnlega við fyrrverandi konu mína en við erum enn þá góðir vinir (þá í kringum börnin). Hún vill líka tala mikið við mig í síma og ég er sama sinnis því ég elska að heyra í henni - en stundum þarf ég að einbeita mér að flóknum málum eða sofa (þegar ég er í vinnuferðum) og get ekki alltaf talað í símann marga klukkutíma á dag.
Þó að ég elski hana af öllu hjarta finn ég oft fyrir innilokunarkennd eða ég veit ekki hvernig ég á að koma fram. Ég hef aldrei haldið fram hjá í sambandi og í fyrra sambandi var ég aldrei sakaður um daður né annað sem leitt gæti af sér ótryggð. Ég treysti sjálfum mér fullkomnlega til að setja mörkin í þeim efnum en hún virðist bara alls ekki skilja það - finnst það frekar vera lausn að hætta samkiptum við konur - sem ég hvorki vil né sé ástæðu til.
Getur þú hjálpað mér að leysa þetta því mig langar mikið til að vera með þessari konu til æviloka en við þetta finn ég að ég get ekki búið.
Kveðja, GG
Góðan daginn og takk fyrir þessa einlægu hugleiðingu.
Það sem þú ert að lýsa er algengt viðfangsefni í vinnu með pörum. Það er fallegt að sjá hvernig þú talar um konuna þína og löngun þín til að vera skuldbundin sambandinu er mjög jákvæð. Í raun ertu að einhverju leyti að lýsa ferli sem ég hef skrifað um áður hér á Smartland og þú getur séð með því að smella HÉR.
Nú er ég engan veginn að halda því fram að ástandið sé jafn alvarlegt og teiknað er upp í ofangreindri grein en það er margt sem hringir bjöllum. Þessi þörf hennar fyrir að fá vissu fyrir því að hún sé örugglega efst í huga þínum og tilfinning þín um að vera með innilokunarkennd eru merki um að þessi dínamík gæti verið til staðar. Að því sögðu tel ég ráðlegt að tala við aðila sem þekkir til slíkra mála og getur aðstoðað við að sjá hvort þetta ferli er til staðar og hvað veldur. Aðalvandamálið í flestum svona málum er að ef fólk er óöruggt og afbrýðisamt, þá er ekkert sem maki þess getur gert til þess að lagfæra það, jafnvel þótt hann hætti alveg að eiga samskipti við aðila af hinu kyninu (sem er engan veginn raunhæft). Viðkomandi aðili þarf sjálfur að vinna úr óörygginu í staðinn fyrir að reyna að upplifa það ekki með því að stjórna ytri aðstæðum.
Góðu fréttirnar eru að það er vel hægt að vinna með svona mál þó að það geti vissulega tekið á og tekið einhvern tíma. Ráðlegging mín til þín er að halda þig við það sem þú telur eðlileg mörk, að taka ekki ábyrgð hennar á því að þurfa að takast á við þennan ótta sjálf, með því að einangra þig. Það er sjálfsagt og eðlilegt að styðja maka sinn, sýna honum virðingu, hlusta á hann og leyfa honum að hafa áhrif á sig þegar það á við. Það er engu að síður ekki gott að bregðast við óöryggi annarra með því að draga sjálfan sig í hlé, þannig erum við að reyna að komast hjá einhverju sem mun óhjákvæmilega koma upp, fyrr eða síðar.
Með bestu kveðju,
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR.