Varð fyrir áfalli eftir hefndarklám

Valkyrja Sandra Á. Bjarkadóttir.
Valkyrja Sandra Á. Bjarkadóttir. mbl.is/Haraldur Jónasson

Valkyrja Sandra Ásdísardóttir Bjarkadóttir er tæplega þrítug, gift tveggja barna móðir. Fyrir rúmlega tveimur árum fóru persónulegar myndir af henni í dreifingu og hefur líf hennar ekki verið samt eftir það. Hún ákvað strax að kæra gerandann fyrir hefndarklám en þann 5. apríl var mál hennar loksins tekið fyrir í Héraðsdómi Vesturlands. Valkyrja hefur verið í endurhæfingu undafarin misseri en hún var greind með áfallastreituröskun, kvíða og þunglyndi í kjölfar atviksins.  

„Ég hélt að tilfinningarnar myndu ganga frá mér. Ég var svo kvíðin að ég var með æluna í hálsinum og nötraði öll og skalf. Hugsanirnar voru úti um allt. Um leið og ég var að reyna að muna allt sem ég þurfti að koma frá mér var ég alveg „out“. Ég man að ég labbaði inn í salinn og andaði djúpt að mér og hugsaði bara að þetta væri eina tækifærið mitt og ég yrði að standa mig. Ég var líka ofboðslega hrædd við að lögfræðingurinn hans myndi bara grilla mig á staðnum en ég leyfði honum aldrei að ná til mín. Ég fékk mjög furðulegar spurningar frá honum sem tengdust málinu ekki neitt svo það var alveg pínu erfitt að missa ekki kúlið,“ segir Valkyrja við blaðamann nokkrum klukkutímum eftir að málið var tekið fyrir.

Valkyrja segir að þinghaldið hafi verið lokað og hún hafi farið fram á að gerandinn væri ekki með henni inni í salnum. „Ég get ekki hugsað mér að vera nálægt honum. Ég hins vegar mætti honum á leiðinni á staðinn. Hjartað barðist ansi hratt og skelfingin heltók mig um stund,“ segir Valkyrja um það þegar hún mætti geranda sínum.

Valkyrja segir það aldrei hafa verið spurning hvort hún ætti að kæra eða ekki og gerði það samdægurs. Þó ferlið sjálft hafi ekki verið flókið veit hún um einstaklinga sem kærðu ekki auk þess sem hún veit um einstaklinga sem hafa séð eftir því alla ævi að kæra ekki fyrir brot af þessu tagi og finnst henni afar mikilvægt að opna umræðuna.

Valkyrja segir mikilvægt að muna að kenna sjálfum sér ekki …
Valkyrja segir mikilvægt að muna að kenna sjálfum sér ekki um. mbl.is/Haraldur Jónasson

Þegar blaðamaður spyr hvort hún telji hefndarklám vera algengara en fólk heldur segir hún svo vera. „Ég held líka að það séu ekki allir sem geri sér endilega grein fyrir því hvað hefndarklám er í raun og veru. Dæmin eru óteljandi. Það er líka mjög auðvelt að detta í að kenna sjálfum sér um að hafa sent þessar myndir, að hafa treyst viðkomandi og fleira. Það er mikilvægt að muna að ekkert af þessu er manni sjálfum að kenna. Það er aldrei í lagi að einhver dreifi myndum af þér og það hefur enginn rétt á að brjóta svona á þér. Sama hvað.“

Mikið áfall

„Þetta hefur haft mjög djúpstæð áhrif á mig bæði andlega og líkamlega. Þetta var rosalegt áfall og í kjölfarið var ég greind með áfallastreituröskun, kvíða og þunglyndi. Ég er í endurhæfingu og er hægt og rólega að læra að lifa með þessu. En það þarf ofboðslega lítið að fara úrskeiðis svo ég sé komin aftur á núll. Skrokkurinn á mér hrundi í kjölfarið af andlegum veikindum og ég er í dag mjög illa stödd verkjalega séð í líkamanum öllum.“

Seinagangur í dómskerfinu hefur ekki hjálpað Valkyrju en rúm tvö ár eru síðan hún lagði fram kæru.

„Biðin er hræðileg. Líklega það hræðilegasta sem ég hef þurft að upplifa á minni ævi. Þetta er stanslaus barátta fyrir sálina. Þér er bara stillt upp við vegg og þú þarft að gjöra svo vel og takast á við þetta allt saman. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hvað þetta er erfitt. Þetta er auðvitað gríðarlegt brot, niðurlæging, skömm og bara í alla staði hræðilegt fyrir þolandann. Ég hef reynt að tileinka mér að lifa einn dag í einu og einbeita mér að því að vera þakklát fyrir það sem ég hef. Það þarf ofboðslega lítið til til þess að stuða mig eða koma mér úr jafnvægi, svo mér er pakkað inn í bómull þessa dagana,“ segir Valkyrja sem tekur fram að hún eigi besta bakland sem til er og það hjálpi mikið.

Hefur haft áhrif á hvern einasta dag í rúm tvö ár

Samfélagið hefur breyst töluvert síðan í janúar 2017 með til dæmis metoo-byltingunni. Finnst þér það hafa hjálpað í málinu?

„Já Metoo hjálpaði mér, að vita að maður er ekki einn skiptir gríðarlega miklu máli í svona ferli. Eins ömurlegt og það er að segja það að þá er gott þegar einhver skilur mann. Það er erfitt fyrir manneskju sem hefur aldrei lent í neinu svona að skilja mann eða setja sig í sporin okkar. Síðan hefur Erna á Ernulandi hjálpað mér óendanlega mikið í sjálfsástarbyltingunni sinni. Að læra að elska sjálfan sig sama hvað er mikilvægt og um leið svo ofboðslega erfitt. Í mínu tilfelli þá er ég alltaf verst við sjálfa mig og mjög dugleg að brjóta sjálfa mig niður. Hvað þá eftir svona ömurlega reynslu. Í dag er ég staðráðin í því að elska sjálfa mig alltaf og taka valdið til baka yfir lífi mínu, því ég á það skilið.“

Biðin hefur tekið á Valkyrju.
Biðin hefur tekið á Valkyrju. mbl.is/Haraldur Jónasson

Valkyrja segir að nú taki við enn meiri bið en dómarinn tekur sér átta vikur í að koma með niðurstöðu og svo er áfrýjunarfrestur eftir það. Hún er þó staðráðin í því að halda áfram.

„Núna tekur við enn meiri sjálfsvinna og að reyna að komast í jafnvægi. Læra að lifa með þessu og opna umræðuna enn þá meira. Ég er búin að fara mjög opið í gegnum allt ferlið á snapchataðganginum mínum og ég kem til með að halda því áfram þar sem þetta er ekki búið. 

Mér finnst ofboðslega lítil umræða um hefndarklám á yfirborðinu. Þegar ég lenti í þessu vissi ég ekkert. Sama hversu mikið ég leitaði, ég fann ekkert eða engan sem hafði deilt sögunni sinni.  Það er mér hjartans mál að fólk skilji hvaðan ég er að koma með þetta. Ef ég get hjálpað bara einni manneskju með því að opna mig um mitt mál þá er markmiði mínu náð. Eins og ég sagði áðan, þetta varðar líf. Þetta hefur markað hvern einasta dag í mínu lífi í meira en tvö ár. Ég er búin að fara í gegnum allan skalann, frá því að langa að deyja og yfir í að vera tilbúin að berjast fyrir betra lífi fyrir sjálfa mig. Nú er kominn tími til að skila skömminni þangað sem hún á heima. Ofbeldi á aldrei rétt á sér og við eigum að hafa hátt.“

Þeir sem vilja fylgjast nánar með Valkyrju geta gert það á Snpachatreikningnum hennar, adalprinsessan. Þar ræðir hún sína nálgun, tilfinningar og upplifun. „Það á enginn að burðast með svona einn, aldrei,“ segir Valkyrja ákveðin að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál