Hvers vegna þarf fyrrverandi að vera með?

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem er í sambúð með manni. 

Sæll. 

Ég hef verið í sambúð í nokkur ár með manni sem var áður giftur. Við eigum bæði fyrrverandi maka. Sambýlismaður minn er í messages-hóp með börnum sínum og fyrrverandi eiginkonu. Þar inná póstar hann myndum, öllu sem honum finnst merkilegt og þar á meðal ferðalögum okkar innanlands og utan. Mér finnst ekkert að því að börnin hans fylgist með ferðum okkar og merkisatburðum sem snerta okkur og svo öfugt en ég hef engan áhuga á því að fyrri eiginkona sé með allt á hreinu sem gerist í okkar lífi. Ég er ekki inni í þessum hóp og mér stendur það ekki til boða, sé því aldrei neitt sem þarna fer á milli en veit af þessu í gegnum aðra. Er þetta eitthvað sem ég á að sætta mig við eða hvað?

Kveðja, ein pirruð. 

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn og takk fyrir þessa einlægu spurningu. Spurningin er einföld og svarið líka. Hvað finnst þér?

Það er svo algengt að við erum að velkjast með spurningar við hinu og þessu og vitum ekki hvaða svar er rétt. Einhvern tímann heyrði ég setninguna, „If there is a question, there is no question“. Ég get ekki fullyrt að ég hafi rétt fyrir mér en minn skilningur á setningunni þegar ég heyrði hana var að þegar við erum að velkjast í vafa um eitthvað sem við erum ekki alveg sátt við, þá er það ekki nokkur spurning, við ættum ekki að sætta okkur við það. Það er í það minnsta eðlilegt að þið ræðið þetta vel og þú útskýrir þína hlið á málinu. Sjáðu hvort maki þinn skilji þína afstöðu og sé tilbúinn til að virða það við þig að annað hvort breyta þessari grúppu þannig að hún innihaldi bara hann og börnin hans, eða bæti þér inn á hana. Þið eruð saman í dag og sjálfsagt mál að þið deilið ekki ykkar persónulegu stundum með fyrrverandi konu hans. Að sama skapi er sjálfsagt mál að hann geti óhindrað verið í góðum samskiptum við börnin sín og þau við hann.

Best er að börnin í stjúpfjölskyldum finni fyrir öryggi og að foreldrar þeirra geti átt gott samband, þrátt fyrir að vera skilin. Það þarf bara stundum að ræða það hvaða lína er eðlileg og hversu mikið fyrrum makar eru inn í þeim samböndum sem verða til síðar. Mörgum þykir best að hafa þau tengsl ekki meiri en það sem þarf til þess að sinna þörfum barna og þeim sameiginlegu ákvörðunum sem þarf að taka. Meiri samskipti en það geta auðveldlega valdið erfiðleikum, eins og lítur út fyrir að sé að gerast í þínu tilviki. Merkilega oft kemur það fyrir að það eina sem vantar upp á til þess að leysa málin, er að ræða þau. Það er best að gera af yfirvegun og muna að þegar um samskipti er að ræða þar sem börnin eiga í hlut, geta tilfinningar farið á flug og mikilvægt að aðgreina samskipti við börnin frá öðrum samskiptum þegar þetta er rætt.

Vonandi getið þið rætt málin og leyst þau á þennan einfalda máta.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda