Alma Hafsteinsdóttir er fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með sérhæfingu í spilafíkn. Hér sendir kona inn fyrirspurn er varðar tengdaföður sinn. Hana grunar að hann sé að spila í spilakössum og fái til þess lánaðan pening hjá syni sínum.
Sæl Alma
Mig langar að spyrja þig varðandi tengdaföður minn. Þannig er að við hjónin erum mjög ábyrg í fjármálum og fjárhagslega sjálfstæð. Ég hef staðið manninn minn að því að vera lána föður sínum peninga og oftar en ekki skila þessir peningar sér ekki. Ég hef reynt að ræða þetta við hann og alltaf segist hann sammála mér og hann ætli að hætta þessu en svo næsta sem ég veit að þá er hann búinn að lána honum meira. Ég skil að hann eigi erfitt með að segja nei við pabba sinn en á sama tíma er hann að taka af fjármunum heimilisins og það veldur mér áhyggjum.
Peninga upphæðin skiptir ekki þannig máli en ef þetta fer ekki að hætta þá kemur þetta til með að verða vandamál fyrir okkur. En það sem reitir mig til reiði er að hann skuli fela þetta fyrir mér og ekki ræða við mig áður en hann ákveður að lána honum. Mig grunar að tengdapabbi sé í spilakössum. Við vitum til þess að í mörg ár hafi hann stundað þessa spilasali en hann segist alltaf vera hættur. Ég vil taka fram að það væri ekkert mál að hjálpa tengdapabba ef þetta væri eitthvað sem raunverulega hjálpaði en ég upplifi að við séum að lána pening í tóma tunnu. Alltaf koma ný og ný vandamál eða nýjar ástæður sem krefjast meiri peninga frá okkur sem ég held að séu bara afsakanir til að fá meiri pening og hann tapi þessu bara í spilakössum.
Er mögulegt að hann sé ekki hættur og hvað get ég gert til að fá manninn minn til að hætta að lána honum?
Kveðja,
B
Sæl B
Takk fyrir fyrirspurnina þína. Margir aðstandendur spilafíkla eru einmitt í þessum sporum. Eru allir af vilja gerðir að aðstoða og reyna að skilja hvað sé í gangi. Oftar en ekki eru útskýringarnar mjög eðlilegar og vissulega getur fólk - tímabundið - lent í fjárhagserfiðleikum. En þegar ástandið er orðið viðvarandi og loforð svikinn er sennilega eitthvað annað að en fjárhagserfiðleikar. Eitt af einkennum spilafíknar er einmitt þetta að peningarnir virðast gufa upp. Annað er að fólk er með allskonar útskýringar og afsakanir varðandi fjármál sín. Ótrúlegustu hlutir virðast koma upp hjá spilafíklum og sennilega ekki hægt að hitta óheppnara fólk þegar kemur að fjármálum. Þegar fólk gefst upp og leitar sér aðstoðar við spilafíkn kemur oftar en ekki í ljós að allir þessir peningar fóru í fjárhættuspil. Ef tengdapabbi þinn á sér langa sögu um spilafíkn þ.e. að spila i spilakössum eru allar líkur á að hann sé enn virkur spilafíkill. Vandinn við spilafíkn er að hún hverfur ekki og ef fólk leitar sér ekki aðstoðar þá er nánast ómögulegt fyrir fólk að ná tökum á þessu sjálft. Varðandi manninn þinn er mjög sennilegt að hann sé mjög meðvirkur pabba sínum og eins og þú segir sjálf þá virðist hann eiga erfitt með að segja nei við pabba sinn. Flest okkar eiga erfitt með að sjá okkar nánustu í vanda og viljum hjálpa. Einstaklingar sem eru meðvirkir eru engu að síður oft að valda meiri skaða en hjálp, því miður. Í þessu tilfelli er maðurinn þinn ekki að krefja hann um endurgreiðslu eða standa við skuldbindingar sínar þ.e. að taka ábyrgð og þar að auki er hann farinn að fela þetta fyrir þér.
Ef allt færi eðlilegt þá væri þetta rætt allra á milli og allt uppá borðunum.
Ég ráðlegg ykkur að setja niður og þú getur útskýrt fyrir manninum þínum að í raun er hann að hjálpa pabba sinum við að halda áfram að spila og ef hann vill raunverulegar hjálpa honum að setja honum mörk og einnig að leita hjálpar við spilafíkn. Einnig gæti verið gott fyrir ykkur að kynna ykkur meðvirkni og fylgist endilega með inn á spilavandi.is þar sem reglulega eru haldinn fjölskyldunámskeið fyrir aðstandendur spilafíkla. Fíknisjúkdómar eins og spilafíkn hafa áhrif á allt umhverfi einstaklingsins og er því ekki einkamál og oft talað um fjölskyldusjúkdóm, eins og í þínu tilfelli þá ert þú sennilega að verða fyrir áhrifum spilafíknar tengdapabba þíns.
Gangi ykkur vel
Kær kveðja,
Alma Hafsteinsdóttir.