Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem er að reyna að vinna í hjónabandi sínu.
Sæll Valdimar,
Ég er að reyna að vinna í sambandi mínu við eiginmann minn eftir framhjáhald hans. Við höfum farið í ráðgjöf sem ég taldi vera gott en hann telur ekki þörf á frekari vinnu með ráðgjafa sem ég er alls ekki sammála. Ég tek ákvörðun um að vinna í þessu sambandi en ég er enn ekki að treysta honum og að hann sé heiðarlegur í tilfinningum sínum bæði gagnvart sjálfum sér og mér. Hann hefur ekki sagt einn jákvæðan hlut eða hrósað mér frá því hann viðurkenndi framhjáhaldið og við tókum aftur saman þó svo að ég hafi sagt að ég þyrfti á því að halda.
Hann stundar áhugamál sem ég tek ekki þátt í (og mun ekki geta gert) sem tekur mikinn tíma hjá honum. Ég fer stundum að hugsa hvort hann sé að fara aftur á sömu braut sem myndi þýða að ég myndi skilja við hann. Ég komst að því að hann er mjög reglulega í samskiptum við kvenmann sem er að æfa með honum, senda skilaboð og broskalla. Málið er að ég laumaðist inn á samskiptamiðil hans án þess að hann viti. Hvað skal gera?
Kveðja, SD
Góðan daginn og takk fyrir þessa fyrirspurn.
Það má segja að fyrsta setningin hjá þér leggi svolítið línurnar varðandi það sem ég vil benda þér á í þessu máli. „Ég er að reyna að vinna í sambandi mínu við eiginmann minn...“ Maður vinnur ekki einn í tveggja manna verki.
Ef maðurinn þinn er ekki að vinna þessa vinnu með þér, er ekki að sýna það í verki að hann kunni að meta sambandið ykkar og er í óheiðarlegum samskiptum við aðra konu, þá mæli ég með því að þú skoðir þína stöðu af alvöru. Af hverju ert þú að leggja á þig að byggja upp samband við aðila sem virðist ekki hafa áhuga á því? Ég geri mér grein fyrir því að ég hef aðeins hluta af sögunni, ég veit til dæmis ekki hvort þið eruð gift, eigið börn eða hvort aðrir þættir hafa áhrif á að það sé þess virði að reyna að bæta sambandið. Það breytir því samt ekki að ef aðili í parasambandi er ekki tilbúinn að sýna maka sínum sjálfsagða virðingu og traust, þá er það dýru verði keypt að viðhalda slíku sambandi. Það kemur illa niður á þinni eigin sjálfsvirðingu, vekur upp ótta og hefur slæmar afleiðingar að venjast því að þetta sé framkoma sem hann kemst upp með og þú sættir þig við.
Ég mæli með því að þú hugleiðir vel hvað það er sem þú vilt. Skrifaðu niður hvaða línu þú vilt draga, hvar þú setur mörkin og haltu þig við þau. Segðu maka þínum hvað þér finnst og hvað þú vilt og biddu hann um að segja þér nákvæmlega hvað hann vill og hvað honum finnst. Ef þessi atriði passa ekki saman hjá ykkur þá þarftu að ákveða fyrir þig hvað þú vilt gera í sambandi við það. Viltu sætta þig við að fara hans leið eða standa með sjálfri þér og gera það sem þér þykir rétt, jafnvel ef það þýðir að sambandinu ljúki? Ef þið eru sammála um hvað ykkur finnst og hvað þið viljið, þá er mikilvægt að halda tryggð við þau mörk sem sett eru og vera tilbúin að taka ákvarðanir ef þau eru brotin. Þessi mörk gætu til dæmis verið að fara í nokkra tíma til pararáðgjafa, að það sé ekki verið að stunda óheiðarleg samskipti við annað fólk og að þið takið bæði frá tíma í hverri viku sem þið nýtið til þess að tala saman og byggja upp sambandið ykkar. Þá eru komin mælanleg og tímasett markmið sem auðvelt er að sjá hvort það er vilji til að fylgja.
Vonandi hjálpa þessar hugleiðingar þér eitthvað.
Með bestu kveðju,
Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR.