Valið snerist um að lifa eða deyja

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„„Tilvera okkar er undarlegt ferðalag“ orti Tómas Guðmundsson. Að eiga afmæli er mælikvarði dagatalsins á hve lengi ég hef fengið að taka þátt í ferðalagi lífsins. Töluvert síðan ég áttaði mig á að dagatalið er ekki mælikvarði á þroska, getu eða yfirhöfuð lífsviðhorf mín og gildi. Ég er eins gamall eða ungur og mér líður hverju sinni,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli á Smartlandi: 

Já bættist við ár í gær (23. maí) samkvæmt dagatalinu. Ég er bæði miklu yngri og eldri en sú tala. Orð Tómasar komu upp í hugann því líf mit hefur verið litríkt líkt og regnbogi og ég dansað tilfinningaskalann fram og til baka. Í eilífri leit að sjálfum mér og því sem má kalla andlegt jafnvægi.

Þeir sem hafa fylgst með mér vita að ég hef glímt við að ná mér til baka eftir hræðilegan harkalegan árekstur á lífsins vegg haustið 2015. Ég hef sagt frá stöðu minni þá í lífinu. Orkulaus. Taugakerfið lamað. Gat ekki varið mig. Var nánast ekkert. Að auki fárveikur af röskun sem ég hafði barist við í 2-3 ár að íslenskum karlmannssið. Barðist í gegnum hræðileg ofsakvíða- og panikköst þar sem ég endurupplifði sársauka. Köstin náðu orðið saman og ég komst ekki út úr húsi. Harka. Aldrei vantað hörku og dugnað í mig. Í þessum slag átti ég ekki séns. Þetta hafði ekkert með hörku og dugnað að gera. Ekkert. Hefði betur fyrr sýnt auðmýkt og viðurkennt vanmátt.

Nenni ekki að telja upp allt það veraldlega sem „brann“ á tveimur árum og ég botnaði ekkert í en auðvitað viðbrigði að hefja batagöngu í þessu ástandi og þakka fyrir að geta leigt herbergisholu úti í bæ. Eftir að hafa lifað veraldlega ágætu lífi í fjöldamörg ár.

Þetta var mín staða. Staðreynd. Gat engu breytt. Ekki gert neitt af mér til að verðskulda þessa stöðu. 

Ég hef alltaf sagt: Í lífinu áttu val. Kannski þekkir þú stöðuna sem ég var í haustið 2015 en reyndu að ímynda þér að vera þar. Hvaða val heldurðu að þú getir átt í þeirri stöðu? Það var myrkur og þótt ég vissi hvar átti að kveikja ljósið hafði ég ekki getu eða orku að kveikja það. Engar ýkjur.

Mér þykir ekki létt að segja frá hvert var mitt fyrsta val. Það snerist ekki um að rigga mig á fætur og dúndra til dæmis fjárhagnum í lag. Nei. Valið snerist um að lifa eða deyja. Að deyja var á þeim tímapunkti auðveldari kosturinn og allt mælti með því vali. Ég viðurkenni að það var mitt val. Örlögin sáu til þess að leyfa mér það ekki. Ég breytti um skoðun. Valdi að lifa. Logandi hræddur við dauðann. Vildi aldrei deyja. Hef sagt og segi enn: Eina sem ég átti eftir var auðmýkt. Hafði ekki orku í að vera með hroka.

Ætla ekki að útlista alla batasöguna mína. Hún er efni í bók. Vonandi sjálfshjálparbók. Veit ég hef margt til brunns að bera fyrir utan reynslu til að hjálpa fólki. Batagangan hefur verið löng og ströng með alls kyns hindrunum á veginum. Alltaf hef ég náð að halda í auðmýktina og vanmáttinn og komist í gegnum hverja þrautina á eftir annarri sem hið æðra lét mig glíma við.

Kyngja stolti. Jú það var fyrst erfitt. Skrimta á endurhæfingarlífeyri. Ég tel mig vera heppinn að karaktereinkennin mín komu þá í ljós. Ég er kamelljón. Ég kann að aðlagast aðstæðum. Ég kyngdi öllu stolti. Af stolti. Engin skömm. Sá fram á leik sem færi örugglega í nokkrar framlengingar og kannski vítakeppni. En aðeins eitt kom til greina. Sigur. Trú og von. Það hefur ómeðvitað haldið mér gangandi. Ég kann ekki að gefast upp. Fengið mörg tækifæri til þess. Þótt ég reyndi að gefast upp myndi mér mistakast.

Nei hvorki mont né merki um hetjuskap. Merki um vilja minn til að öðlast á ný betra líf. Betri heilsu. Betri manneskja. Betri faðir. Betri maki. Betri. Það var einmitt stóra tækifærið sem ég fékk og tók mína bestu ákvörðun. Nýta þennan tíma til að vinna í mér og mínu lífshlaupi, eins erfitt og það gat verið, líka gleðilegt, og gera mig að þroskaðri manneskju.

Það voru stór orð sem ég sagði í upphafi batans: Ef ég stend uppi sem betri manneskja þá er það sársaukans virði. Við erum að tala um sársauka sem er verri en helvíti. Þótt ég vildi drepa mann myndi ég hlífa honum við þessum sársauka. Stend enn við þetta í dag.

Það ánægjulega er að ég finn og veit að ég er orðinn betri manneskja. Ekkert veraldlegt í lífinu hefur breyst. Ég hef breyst. Ég er að ná heilsu. Ég finn að minn tími er kominn. Nú er komið að verðlaunaafhendingu. Allt gott í lífinu kemur á þeim tíma sem maður er tilbúinn og ef maður hefur unnið fyrir því. Það er mín reynsla. Það er að gerast í dag.

Afmælisdagurinn minn var stórkostlegur. Ég get ekki lýst tilfinningunum sem hrísluðust um mig liggja í ylheitum læk smíðuðum af náttúrunni í íslenskri náttúru. Í sólskini og yndislegu veðri. Opinbera það hér. Mér leið eins og sigurvegara. Hafði gengið 3 km upp í móti að þessum stað. Það var eitthvað táknrænt við það. Heilinn baðaður í náttúrulegum vímuefnum og ég, eins og alltaf, að upplifa stund og stað, fékk þessa yndislegu tilfinningu og um leið hugboð:

Einar. Þú hefur unnið fyrir þessu. Nú er tími kominn til að fara út á flugvöll og fá góðan vin til að hjálpa mér að taka á loft út í nýtt líf sem bíður mín. Það verður gott líf.

Mín erfiðasta upplifun í lífinu í gegnum veikindin og að klessukeyra er að breytast í mestu blessun mína.

Ég er ekki í keppni. Þótt ég gæti þá hugsa ég ekki illa til neins. Laus við reiði, gremju og hatur. Truflar mig ekkert og hef sl. vikur ef ekki mánuði aldrei verið í betra andlegra jafnvægi í lífinu. Aldrei.

„Mín bíður eitt það besta ...“ er tilvitnun í annan skáldskap. Á það trúi ég.

Ég er þakklátur. Ekkert sjálfsagt í lífinu. Er með eðlilegt sjálfstraust og sjálfsmynd. Heilbrigður á líkama og sál. Jú, verð að gæta mín á að eyða ekki orkubirgðum og missa mig ekki í hraða sem dæmi. En get byggt mér upp yndislegt líf. Að vita það og finna er besta „útskriftargjöf“ sem hægt er að fá.

Hvað get ég sagt meira? Jú. Aftur: Takk elskuleg sem hafið stutt mig og veit þið haldið því áfram. Ég get ekki allt einn. Reyni það ekki lengur. Bið um hjálp þegar þarf. Það er breyting.

Sýnum hvert öðru umburðarlyndi og kærleik.

Kærar kveðjur, Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda