Alma Hafsteinsdóttir fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með sérhæfingu í spilafíkn svarar spurningum lesenda Smartlands.
Sæl Alma
Þannig er mál að ég er spilafíkill í bata og hef ekki spilað í þó nokkurn tíma. Ég hef verið að lesa spurningarnar sem þér eru að berast og finnst það frábært hvað fólk er orðið opnara með að tala um spilafíkn og þau vandamál sem fylgja. Hef unnið sporin og það gengur vel hjá mér að spila ekki. Ég er í sambúð og konunni minni líkar betur við mig verandi ekki að spila en það sem veldur mér pirring er að hún vill ekki ræða neitt tengdu spilafíkn. Ég upplifi að henni finnist ég eigi bara að vera hættur og ekki ræða það meir. Ég get ekki rætt við hana hluti sem koma upp hjá mér varðandi spilafíkn mína, hvorki litla sigra né þegar mér líður illa.
Það er eins og þetta sé bara búið og tilheyri fortíðinni. Einnig upplifi ég mikla skömm og það hljóti að vera ástæðan fyrir því að hún vilji ekki ræða þetta. Hún talar jafnvel um að við eigum ekki að vera segja fólki frá þessu og fólki komi þetta ekki við. Ég sjálfur skammast mín ekki fyrir að vera spilafíkill og er mjög stoltur af mér og þeim árangri sem ég hef náð og stunda mína fundi og er mjög þakklátur. Hvað get ég gert til að fá konuna mína til að vilja ræða þessa hluti því þetta er stór hluti af mér og ég vil að við getum verið opinská með þetta, bæði okkar á milli og við okkar nánasta umhverfi?
Bestu kveðjur
P
Sæll P
Mig langar að byrja á að óska þér til hamingju með að vera hættur og vera í bata. Að lifa í bata og prógrammi þ.e. stunda fundi og 12 sporin eru grundvöllur þess að ná tökum á spilafíkn sinni og lífi. Hvað varðar konuna þína þá upplifa margir spilafíklar þetta með maka sína og jafnvel fjölskyldur. Því miður upplifa margir sem verða fyrir áhrifum spilafíknar skömm og finnst eins og þeir eigi að geta höndlað þetta sjálfir, þetta sé eitthvað sem enginn má frétta og líklegast hefur hún áhyggjur af að verða fyrir fordómum. Það er mjög stutt síðan fólk fór að viðurkenna opinberlega að það væri að kljást við spilafíkn og einnig að fólk talaði um þetta sem sjúkdóm.
Eitt að því sem margir aðstandendur upplifa þegar þeir opna sig við sína nánustu er að nánast allir þekkja til eða hafa heyrt af fólki í vanda með fjárhættuspil. Þetta tekur tíma og mjög mikilvægt að þú gefir henni tíma og reynir að tala um þetta við hana þegar tækifæri gefst til. Einnig getur það hjálpað til að finna upplýsingar og fræðslu á netinu og leyfa henni að lesa. Með tímanum mun umræða og fræðsla um spilafíkn aukast.
Við sjáum til dæmis fleiri koma fram opinberlega sem segja sögu sína og einmitt til þess að auka vitund fólks um spilafíkn og við erum nú þegar með nokkra einstaklinga úr öllum stigum þjóðfélagsins. Til dæmis komu nýlega fram kona sem starfar sem leiksskólakennari og ungur maður sem starfaði sem atvinnumaður í fótbolta og sögðu sögu sína.
Haltu þínu striki og gefðu konunni þinni tíma. Þú getur líka boðið henni að koma með þér á opna fundi og þar getur hún tekið þátt með þér og fengið að sjá og upplifa hvað það er sem þú ert að gera og hvernig fundirnir eru. Svo er alltaf í boði fyrir ykkur að fara í fjölskylduráðgjöf og jafnvel á fjölskyldunámskeið.
Gangi þér vel og mundu að þú ert að gera góða hluti og hefur ekkert til að skammast þín fyrir. Vonandi fær konan þín fræðslu og upplýsingar og áttar sig á að spilafíkn er sjúkdómur en ekki hegðunarvandamál sem hún þarf að skammast sín fyrir.
Kær kveðja,
Alma Hafsteinsdóttir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ölmu spurningu HÉR.