Starfsmaðurinn er alltaf að fá fyrirfram

Alma Haf­steins­dótt­ir, fíkni- og fjöl­skyldu­markþjálfi, sér­hæf­ir sig í spilafíkn. Hún svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. 

Sæl Alma

Ég er með verktakafyrirtæki og hjá mér starfa erlendir menn. Á síðustu mánuðum hefur verið vesen með einn af starfsmönnum mínum þegar kemur að fyrirfram. Starfsmenn mínir eru að fá mjög vel greidd og eru fá mörg hundraðþúsund greidd um hver mánaðarmót. En þessi eini virðist alltaf vera blankur og í síðasta mánuði fékk hann fyrirfram fjórum sinnum. Ég er búinn að vera velta vöngum yfir hvað sé eiginlega í gangi og var orðinn alveg viss um að hann væri í eiturlyfjaneyslu. Nema um daginn tók ég mig til og eftir vinnu þegar hann var meðal annars nýbúinn að fá mánaðarlaunin og bað um fyrirfram sem ég varð við þá elti ég hann. Hann fór beinustu leið á búllu sem er með spilakassa og næsta sem ég sé er að hann er að dæla pening í spilakassa. Ég, óséður, án þess að tala við hann því ég vissi ekki alveg hvað ég átti að segja eða gera. Hans nánasta fjölskylda hefur haft samband við mig þar sem þau eru búsett erlendis og þau hafa verulegar áhyggjur af honum. Þau vita af spilafíkn hans. Hann er einn af mínum bestu mönnum í vinnu og vil ég alls ekki missa hann og þar að auki þá vil ég bara að hann fái þá hjálp sem hann þarf og ef ég get hjálpað honum með það væri það frábært. Hvernig er best að snúa fyrir mig að snúa mér í þessu og hvaða hjálp er í boði fyrir hann? Hann talar ekki íslensku en talar og skilur ensku mjög vel.

Takk, J

Alma Hafsteinsdóttir fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi leggur áherslu á spilafíkn.
Alma Hafsteinsdóttir fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi leggur áherslu á spilafíkn.

Sæll J

Takk fyrir þessa fyrirspurn þar sem allir sem eru í samskiptum við spilafíkla verða fyrir áhrifum hennar, atvinnurekendur líka. Mjög margir vinnuveitendur standa einmitt í þessum sporum. Þeir skynja að eitthvað er ekki ganga upp en geta ekki komið auga á hvað raunverulega er að. Að fá fyrirfram í vinnunni er eitthvað sem spilafíklar þekkja sennilega óþægilega mikið. Fyrst til að byrja með þegar einstaklingur byrjar að missa tökin á spilafíkn sinni duga mánaðarlaunin en svo þurfa spilafíklar meira. Þeir spila meira, lengur og fyrir  hærri upphæðir. Það er enginn sjáanleg einkenni á flestum spilafíklum sérstaklega ef fólk hefur ekki þekkingu eða reynslu af spilafíkn. En með tímanum fara þó að koma önnur einkenni en fjárhagsleg. Einkenni eins og streita, erfitt með svefn, álag og fólk verður mjög sveiflukennt í skapi. Stundum er talað um útborgunar spilafíkla þ.e. fólk sem spilar í kringum mánaðarmót og kemur það til af því að þessir einstaklingar fá útborgað einu sinni í mánuði. Yfirleitt enda slíkir spilafíklar á að eyða öllum mánaðarlaunum sínum á fyrstu 1-5 dögunum eftir útborgun og hefst þá örvæntingin í að útvega pening fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Það sem einkennir þennan hóp spilafíkla er að nokkrum dögum fyrir útborgun verða þeir ofsa glaðir og fullir af bjartsýni. Því miður rennur þessi ofsa gleði af mönnum í kringum 1-5 hvers mánaðar þegar allt er búið. Þetta hegðunarmunstur getur svo endurtekið sig all oft. Vandinn við þetta er þó að ástandið versnar alltaf – ýmist hægt eða hratt. Fólk verður þyngra og þyngra andlega og það tekur lengri og lengri tíma að ná sér á strik andlega og svo eftir einhvern tíma hættir fólk að finna gleði eða tilhlökkun og þá tekur við tímabil þar sem einstaklingar spila í algjörri kvöl.

Það sem ég get ráðlagt þér er að setjast niður með honum og segja honum frá þegar þú eltir hann. Ég ráðlegg fólki yfirleitt að tala við viðkomandi þegar menn sjá viðkomandi spila, þá getur viðkomandi ekki neitað. Ef hann neitar þá er mjög lítið sem þú getur gert annað en að láta hann vita að þú teljir hann eiga við vanda og þú viljir hjálpa honum að fá viðeigandi aðstoð en hann verði að vilja hjálpina. Annað þá getur þú sett mjög skýrar reglur hvað varðar fyrirfram greiðslur og standa við það. Það setur það skýr mörk.  Varðandi úrræðir þá er hægt að fá samtals meðferð á ensku en ég veit ekki til að boðið sé uppá GA fundi á ensku hérlendis en þú getur mögulega fundið GA fundi á netinu sem fara fram á ensku og eins mæli ég með að þú bendir honum á http://www.gamblersanonymous.org. Þar er að finna upplýsingar um GA samtökin á ensku.

Gangi þér vel og vonandi þiggur hann hjálpina og nær að stoppa. Mundu bara að setja skýr mörk og þú getur ekki lagað þetta fyrir hann en þú getur hjálpað honum að leita sér aðstoðar.

Kveðja,
Alma Hafsteinsdóttir spilavandi.is 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ölmu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda