„Undanfarið hefur talsvert borið á umræðu í samfélaginu um gæði þess að vera í opnu parsambandi og að ástarsambönd geti auðveldlega innihaldið þrjá eða fleiri einstaklinga. Mér hefur fundist umræða á ákveðnum villigötum og langar að miðla með ykkur nokkrum hugrenningum þar að lútandi,“ segir Theodór Francis, klínískur félagsráðgjafi og fjölskylduráðgjafi, í sínum nýjasta pistli:
Það langar sennilega flesta að líða vel þó svo að ég viti um einstaklinga sem líður hálfilla ef þeim líður ekki illa yfir einhverju. Flesta dreymir um parsamband sem er innihaldsríkt, gefandi og nærandi og sumir ganga jafnvel svo langt að dreyma um fullkominn maka sem við vitum þó öll að fyrirfinnst hvergi. Marga dreymir um annars konar kynlíf en þeir eru að upplifa með makanum og í sorglega mörgum tilfellum er kynlífið ekki upp á marga fiska. Í nýlegri rannsókn kom til dæmis fram að 90% þeirra para sem leita sér hjálpar varðandi samband sitt eiga í erfiðleikum með kynlífið þrátt fyrir að það sé ekki ástæða þess að fólkið leiti sér aðstoðar.
Skilnaðartíðni hér á Íslandi eins og í flestum vestrænum ríkjum er mjög há en sérfræðingar telja að helmingur allra parsambanda endi í skilnaði. Í flestum tilfellum er það vegna væntinga sem ekki voru uppfylltar og sennilega var ekki brugðist við væntingunum af því að málin voru ekki rædd. Það eru síðan talverðar líkur á að eftir sitji börn sem fá að „borga reikninginn“ fyrir deilur foreldranna sem geta staðið árum saman. Auðvitað eru til pör sem skilja á fallegan hátt og það er til mikillar fyrirmyndar en það eru samt sem áður undantekningartilfelli.
Ég hef um margra ára skeið unnið með einstaklingum og fjölskyldum en þó mest með pörum. Fyrst sem prestur en síðar sem klínískur félagsráðgjafi. Ég hef í starfi mínu notið leiðsagnar og fengið kennslu frá sumum af virtust fræðimönnum í heiminum á þessu starfssviði og hef í raun helgað líf mitt og starfsferil vinnu með pörum. Þó að það hljómi ekki sérlega auðmjúkt hjá mér þá er ég því nokkuð vel að mér í þessum efnum, þrátt fyrir að hafa bara verið í einu parsambandi sjálfur. Þegar ég byrjað mitt háskólanám átti ég svolítið erfitt með að kyngja því að það sem ég „vissi“ fyrir víst væri lítils sem einskis virði ef ekki væri hægt að staðfesta það með akademískum rannsóknum.
Með árunum — og núna áratugunum — sem liðnir eru síðan ég hóf kornungur nám í guðfræði vestur í Kanada hefur mér lærst betur og betur að meta þá gagnrýnu hugsun sem háskólasamfélagið innprentar manni. Ég kappkosta sem fagmaður í mínu starfi að hljóma eins lítið „fræðilegur“ og ég get og vera eins „mannlegur“ og ég get. Það er eitt af því sem ég lærði af dr. Sigrúnu Júlíusdóttur, prófessor við Háskóla Íslands, en hún sagði eitt sinn þegar ég sat námskeið sem hún kenndi „góður fagmaður þarf fyrst að verða góður maður“. Ég var svo heppinn þegar ég skrifaði meistararitgerð mína í félagsráðgjöf að fá Sigrúnu sem leiðbeinanda og lærði ég gríðarlega mikið á þeirri samferð okkar.
Þegar par leitar til þerapista og er jafnvel með þá hugmynd að best væri að skilja við maka sinn þá er það nú samt þannig að í fæstum tilfellum vill fólk í rauninni skilja. Fólk langar bara að fá að líða vel. Það skil ég mjög vel því að ég er einn af þeim sem vill fá að líða vel. Ég vildi að allir sem leita sér hjálpar gætu lagað parsambandið sitt en svo er því miður ekki. Það er því óhjákvæmilegt að sum parsambönd nái ekki langlífi. Fáir vísindamenn samtímans hafa rannsakað ástarsambönd meira en dr. John Gottman sem ásamt eiginkonu sinni dr. Julia Gottman stofnaði og rekur The Gottman Institute í Seattle (BNA). Stofnunin hefur áratugum saman stundað rannsóknir á líðan og hegðan einstaklinga í ástarsamböndum og sett fram áhugaverðar kenningar um hverju ástarsamband þarf að búa yfir til að lifa af storma lífsins. Gottman telur að grundvöllurinn sem allt annað í parsambandinu byggir á sé vinátta. Án hennar sé í raun ekki hægt að láta parsamband ganga upp. Að byggja upp og viðhalda vináttusambandi er í öllum tilfellum langtímaverkefni. Það má segja á einfaldan hátt að eina leiðin til að byggja vináttu er að einstaklingar eigi í samskiptum þar sem hjarta snertir hjarta. Án samskipta verður aldrei til vinátta. Það að elska einhvern felur sem sagt í sér að viðkomandi aðili gefur hjarta sitt og vináttu til annars aðila. Til þess þarf að taka meðvitaða ákvörðun og af því má leiða að það að elska einhvern er ekki byggt á tilfinningu líðandi stundar heldur er um hreina ákvörðun að ræða. Ákvörðun sem síðan þarf að framfylgja í verki.
Þegar ég les frásagnir einstaklinga um ágæti þess að eiga fleiri enn einn elskhuga á sama tíma þá efast ég ekki um að tilfinningarnar sem þessir einstaklingar eru að upplifa séu ánægjulegar. Ég vil hins vegar benda á að í raun hefur mjög lítið verið rannsakað hvernig fjölmennari ástarsamböndum en tveggja manna hefur vegnað. Það hafa þó verið gerðar mælingar á ánægju einstaklinga í kynlífi slíkra sambanda. Það kemur oft vel út til skemmri tíma eins og reyndar margs konar önnur skammtímagleði hefur í för með sér. Við skrif þessarar greinar leitaði ég til mér mun fróðari einstaklinga innan fræðasamfélagsins bæði á Íslandi og erlendis. Niðurstaða mín er sú að ég hef ekki fundið eina einustu rannsókn (sem teljast myndi tölfræðilega áreiðanleg) sem bendir til þess að fjölmenn parsambönd lifi af það áreiti sem fylgir því að vera í parsambandi. Það eru hins vegar talvert margar rannsóknir sem benda til þess að slíkt fyrirkomulag reynist fólki mjög dýrkeypt. Rannsóknir hafa til dæmis sýnt að fólk í „tveggja manna“ langtímaparsambandi er hamingjusamasta fólk í heimi og þeir sem eru ánægðastir í kynlífi sínu eru líka þeir sem eru í slíkum fámennum samböndum.
Það er reyndar frekar „íslenskt“ að tjalda til einnar nætur og við höfum komist langt með „þetta reddast“ viðhorfinu. Þegar kemur að öryggi og framtíð fjölskyldunnar má samt ekki kasta til hendinni. Það þarf að vanda sig og við þurfum að sjá langt fram á veginn. Við þurfum að muna að það er ekki sjálfgefið að fá að elska og það þarf að leggja rækt við þá dýrmætu tilfinningu. Slík ræktarsemi kostar vilja og vandvirkni, athygli og áhuga. Athygli gagnvart tilfinningum maka þíns og áhuga á sambandinu. Við þurfum að vilja byggja upp sambandið og það þarf að vanda sig við þá vinnu. Samband verður ekki gott af sjálfu sér, það þarf að gera sambandið gott og það krefst þess að báðir aðilar sambands vandi sig á hverjum einasta degi.
Ef til vill munu rannsóknir komandi ára sýna fram á að fjölmenn parsambönd leiði til mikillar hamingju, vellíðunar og ánægju. En á meðan allar rannsóknir sem við getum notað til að vísa okkur veginn benda til þess að tveggja manna ástarsambönd séu farsælust þá held ég áfram að mæla með því sambandsformi.