Norsku sjónvarpsþættirnir Exit hafa vakið mikla athygli undanfarið og verið til sýningar í ríkissjónvarpinu og eru nú aðgengilegir á sarpinum en aðgangurinn sá hefur einmitt hlotið nokkra gagnrýni þar sem efnið þykir heldur hrottafengið til að mega liggja á slíkum glámbekk eða glápbekk ef það er nýyrði sem hægt er að nota. Allt umtal vekur forvitni manns, það er bara gömul saga og ný, mannleg og skiljanleg. Þess vegna varð ég mér út um þáttaröðina á dögunum þegar ég átti frí og fannst eins og ég hefði ekkert betra við fríið mitt að gera en að hámhorfa á sjónvarpsþætti um heldur ógeðuga viðskiptajöfra með sjálfsupphafningarpersónuröskun eða narcissisma á hæsta stigi og siðblindu í kaupbæti.
Þættirnir eru víst byggðir á viðtölum við menn úr viðskiptalífinu og eru því nokkuð sannverðug mynd af siðspillingu sem þekkist úr ranni þeirra sem eiga allt nema sjálfsvirðingu og samkennd með sjálfum sér og öðrum. Það sem kannski gerir þættina nokkuð vinsæla er fróunin sem fæst með því að sjá forríkt fólk fara illa með lífið. Það getur um stund gefið okkur sem munum aldrei komast í slíkar álnir frið. Kannski er best að vera ekki of ríkur og eiga allt, því þá fer mann að leiðast eins og vinunum í sjónvarpsþáttunum Exit og þá hættara við að upp ljúkist dimmar gáttir sálarinnar í ofbeldi, fíkniefnaneyslu og vændiskaupum. Sennilega er best að vera bara sæmilega skuldsettur og vegmóður af vinnu svo maður haldi sér nú frekar á beinu brautinni.
Ef lífið væri nú bara svona einfalt væri heldur auðvelt að lifa og læra leikreglur til eilífrar farsældar, ef djöfullinn væri nú bara alltaf eldrauður með horn og hala. En sem betur fer, segi ég, er lífið ekki svo svarthvítt að gott fólk sé alltaf gott og vont fólk ætíð vont. Ef það er einhver gagnlegur lærdómur sem ég hef dregið af starfi mínu sem prestur þá er það þetta, að manneskjan er aldrei fyrirsjáanleg og að gott fólk glími við djöfulinn eins og aðrir. Jesús glímdi við djöfulinn í eyðimörkinni forðum svo af hverju ættum við hin ekki að gera það líka?
Mér finnst ekki lengur mjög áhugavert að velta mér upp úr illsku fólks, kannski vegna þess að hún kemur ekki lengur á óvart. Eins og þeir eru ágætlega gerðir þessir norsku þættir um forríku, siðblindu vinina í viðskiptalífinu þá verð ég að segja að annars vegar var ekkert nýtt að sjá, ekkert sem við vissum ekki áður og hins vegar veitir það mér persónulega enga fró að sjá mynd sem dregur upp djöfulinn í lífi þeirra sem séð utan frá eru að lifa draumalífinu.
Það er enginn nýr sannleikur að peningar veita ekki hamingju, ekki síst ef eigandinn er skaddaður af lífsbaráttu sinni. Vinirnir í norsku þáttaröðinni eru skaddaðir og meiddir menn þótt það afsaki auðvitað ekki gjörðir þeirra. Margur verður af aurum api segir málshátturinn en ég held að það sé nú ekki nema menn hafi annaðhvort verið getnir af öpum eða mótast af öpum á viðkvæmum tíma. Með öðrum orðum þá verður enginn siðlaus af því að verða ríkur eða vera í viðskiptum enda á siðblinda og narcisissmi sér stað í öllum stéttum og störfum samfélagsins. Margar fjölskyldur þjást til að mynda undan narcissískum fjölskyldumeðlimum og er það í raun mun algengara en fólk grunar og reynist einmitt oft myglusveppurinn í fjölskyldubústaðnum, myglan sem veldur veikindum og vanlíðan. Það þýðir ekki að sá fjölskyldumeðlimur geti ekki átt sér góðar hliðar, það þýðir bara að hann er með persónuleikaröskun sem meiðir og skemmir út frá sér.
Mér finnst ekki áhugavert lengur að skoða birtingarmyndir illskunnar þótt ég geti vissulega haft gaman af spennu og glæpamyndum á góðum degi, svona til að gleyma stað og stund. Nei í dag finnst mér uppruni illskunnar mun áhugaverðari vegna þess að þar liggja forvarnirnar og leiðin að kærleiksríkari og öruggari veröld. Af hverju er sumt fólk siðblint? Af hverju klúðrar fólk lífi sínu? Af hverju meiðir fólk? Þetta eru spurningar sem mér finnst endalaust áhugaverðar. Ástæður er auðvitað margar og raunar er hættulegt að einfalda svörin. Eitt veit ég þó og það er að einsemd og afskiptaleysi laðar ekki fram það góða.
Samfélagið okkar í dag er á margan hátt meiðandi og vitum við öll að meitt fólk er líklegra til að meiða. Einstaklingshyggja nútímans, sjálfsupphafning samfélagsmiðla og dómharka án andlits og ábyrgðar eru ekki góð meðul við sársaukanum sem elur af sér grimmd og skeytingarleysi. Við berum ábyrgð sem einstaklingar en við berum líka mikla ábyrgð sem samfélag og þar getum við ekki vikið okkur undan því að skoða orsök og afleiðingar.
Það er gott þegar sjónvarpsþættir vekja umræðu og enn betra ef þeir fá okkur til að hlúa betur að mannlífinu. Kirkjan er eitt af þessum fyrirbærum sem getur og kann að hlúa að mannlífinu. Kirkjan býður upp á alls konar mannræktarstarf sem er til þess fallið að rjúfa einangrun og líkna einsemd og gefa fólki annað tækifæri og von. Kirkjan hefur það hlutverk með höndum að segja fólki að það borgi sig að elska frekar en að hata, gefa frekar en að þiggja, þjóna frekar en að vera þjónað. Og enginn þarf að skila inn prófskírteini eða launaseðli eða sakavottorði til að mega þiggja náðarmeðul kirkjunnar. Er það ekki eitthvað? Er ekki ágætt að einhvers staðar megi allir vera?
Ég veit ekki með þig en fyrir beyglaða manneskju eins og mig er freistingarfrásagan af Jesú, sagan af samskiptum hans við djöfulinn í eyðimörkinni, einhver mikilvægasta frásögn Biblíunnar. Djöfullinn var að reyna að láta Jesú verða narcissista af því að djöfullinn vissi að þannig myndi fólk fljótlega hætta að fylgja honum og forðast hann. Þar hitti djöfullinn ofjarl sinn í Jesú, sem hrakti hann á brott með takmarkalausri elsku sinni. Það er nefnilega ekkert sem hræðir djöfulinn meira en skilyrðislaus, botnlaus ást. Því meiri ást, því hræddari verður djöfullinn. Sjálfsupphafning eða narcissismi er afleiðing ástleysis, verum meðvituð um það þegar við ölum upp börnin okkar og annarra, skítt með afrek í námi og íþróttum, elskum af öllu afli, því allar manneskjur geta batnað ef þær eru elskaðar nógu mikið, þær verða kannski ekki fullkomnar en betri.