„Þetta eru súrrealískir tímar sem við erum að ganga í gegnum núna, svo til nánast óháð því í hvaða landi við erum stödd. Í Danmörku er búið að vera „lockdown“ í rúmlega þrjár vikur þar sem öll börn eru heima við og ekkert aðgengi að neinni afþreyingu líkt og líkamsrækt, veitingastöðum, börum, verslunarkjörnum eða öðru slíku,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og heilsumarkþjálfi í sínum nýjasta pistli:
Vinkona mín á Íslandi hafði orð á því að hún hefði aldrei séð jafn mikið af fólki í ÁTVR á þriðjudegi auk þess sem sala líkamsræktatækja hefur stóraukist. Hér í Danmörku var flutt frétt þess efnis að Danir væru ekki einungis að hamstra mat heldur hafa þeir einnig verið að hamstra hjálpartæki ástalífsins. Sala víbratora og annarra tækja hefur stóraukist en kynlífsfræðingar eru ekki hissa vegna félagslegra takmarkana.
Það sem er einnig áhugavert er að einstaklingar eru að nýta tímann í sóttkví til að vinna í sér, bæði hér í Danmörku og á Íslandi. Að fresta því að vinna í sjálfum sér er mjög algengt og einstaklingar bera oft afsakanir á borð líkt og tíma- eða peningaleysi. Nú hafa margir meiri tíma á höndum sér og eru ósjálfsrátt að spara peninga sem að öðru leyti hefðu farið í ræktina, veitingastaðina, bíó eða aðra afþreyingu. Því er upplagt að grípa tækifærið núna og líta inn á við.
Unga fólkið hefur verið að nýta tímann og vinna í ástarsamböndum sínum, taka líkamlega heilsu í gegn, námið eða vinna í fjármálunum. Á meðan er eldri kynslóðin frekar að setja athyglina á óuppgerð áföll. Um það er ekkert nema gott að segja.
Ef þú ert ein/n af þeim sem vilja nýta tækifærið þá er tíminn núna. Gildir einu hvort það er að styrkja félagslegu tengslin (stafrænt), byrja að hugsa um heilsuna, fá stjórn á neikvæðum hugsunum í gegnum hugleiðslu eða bóka tíma hjá sálfræðingi.
Byrjaðu á einhverju einu litlu daglega sem færir þig nær takmarki þínu. Það eru litlu skrefin sem skapa stóru breytingarnar.
Það er hægt að senda Þóreyju Kristínu fyrirspurn HÉR. Og svo getur þú fylgt henni á Instagram: