„Ég elska að vinna með ungu fólki. Þau veita mér virkilega innblástur varðandi þroska og vilja til að vinna í hlutunum og sjálfinu. Þar að auki talar ungt fólk opinskátt um að það er að vinna í sér og leita sér aðstoðar, ekkert tabú á þeim bæ,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur í sínum nýjasta pistli:
Þrátt fyrir að ungt fólk í dag er yfir það heila meira að hugsa um líkamlega heilsu en áður fyrr, passa betur upp á mataræði sitt og hreyfa sig meira þá er samt hærri tíðni andlegra veikinda meðal ungs fólks í dag en áður. Hvað veldur er ekki enn vitað þrátt fyrir ýmsar kenningar líkt og aukin pressa frá samfélagsmiðlum, háar aðgangskröfur í nám, of mikið námsval eða hærri skilnaðartíðni meðal foreldra eru allt hugsanlegar ástæður.
Ástarsambönd eru þar að auki mikið þema í vinnu minni með ungt fólk og það sem kemur oftast upp er að einstaklingar týna sér oft í samböndum. Hegðun annars einstaklingsins fer að breytast til að gagnast og þóknast hinum aðilanum en er ekki endilega nærandi fyrir þann sem er alltaf að hagræða sér. Þegar kemur að samböndum þá gerum við öll auðvitað málamiðlanir. Koma ósjaldan upp tilfelli þar sem að annar aðilinn hefur ekki jafn mikinn brennandi áhuga á að gera eitthvað sem hinn vill, en lætur sig hafa það vegna samverunnar.
Það er eðlilegur hluti af því að vera í ástarsambandi og jafnvel vinasambandi, málamiðlanir.
Hins vegar, þegar að þú byrjar að fórna þér fyrir hinn aðilann og gera hluti sem einungis veita honum ánægju þá snýst þetta ekki lengur um málamiðlanir og getur farið að vera óheilbrigt. Á endanum fer það að bitna á þínum lífsgildum. Við höfum öll einhver lífsgildi sem eru mikilvæg fyrir okkur og sum meira en önnur.
Þegar að þú hættir að lifa þínu lífi í samræmi við þín gildi þá glatar þú sjálfum þér og depurð getur fylgt í kjölfarið. Ef þú sérð sjálfa/n sig í þessum aðstæðum þá er vert að fara í smá sjálfsskoðun og spyrja sjálfan þig af hverju? Af hverju ættir þú að þurfa breyta þér fyrir aðra manneskju? Efast þú um sjálfan þig? Að vera hræddur við höfnun er mjög algengt vandamál, sérstaklega í ástarsamböndum. Mun hinn aðilinn hafna þér ef þú breytir þér ekki? Hræðir það þig?
Í staðinn fyrir að líta á það sem persónulega höfnun er hægt að líta á það þannig að það sé einhver annar þarna úti sem hentar þér betur. Það er eflaust einhver þarna úti sem er að leita að nákvæmlega því sem þú hefur upp á að bjóða, alla þína styrkleika og veikleika. Breytingar geta verið af hinu góða, en ekki ef að þú ert farin að deyfa eða breyta persónuleikaeinkennum þínum og fórna gildum fyrir aðra manneskju. Þú vilt eflaust vera metin af þínum verðleikum og af réttum ástæðum heldur en af einhverju sem þú ert ekki. Til langtíma er það ekki hollt fyrir neinn.
Hver sem rótin er að þínum vanda þá þarftu að vera opin/n fyrir að fara í smá sjálfsskoðun og finna svarið. Ef þú ert að glíma við lágt sjálfsmat þá er það eitthvað sem er hægt að vinna í. Þú ert nógu góð/ur eins og þú ert og ef hinn aðilinn kann ekki að meta þig eins og þú ert þá ertu hugsanlega ekki í réttu sambandi.
Þú getur sent Þóreyju fyrirspurn HÉR.