Inga varð fyrir heimilisofbeldi að hálfu maka

Inga Henriksen er búsett í Svíþjóð ásamt fjórum börnum sínum.
Inga Henriksen er búsett í Svíþjóð ásamt fjórum börnum sínum.

Inga Henriksen er fjögurra barna móðir sem er búsett í Svíþjóð. Í apríl var eiginmaður hennar handtekinn og settur í gæsluvarðhald eftir að hann réðst á Ingu og börnin. Hún segir að enginn eigi að sætta sig við slíkar aðstæður og konur eigi að gefa rauðu flöggunum gaum. Ekki hundsa þau eins og hún gerði. 

Inga kynntist manninum sínum fyrir þremur og hálfu ári. Þau voru búin að sjá hvort annað í gegnum sameiginlega vini á samfélagsmiðlum. Inga segir að hann hafi verið mjög sjarmerandi og gríðarlega sætur. Þegar þau kynntust átti hún þrjú börn frá fyrra sambandi en saman eiga þau 19 mánaða gamalt barn. Hún segir að fljótlega hafi hún farið að vinna fyrir því að ekki væri allt með felldu. 

Hvenær varstu fyrst vör við ofbeldi?

„Það voru alls konar rauð flögg sem ég hunsaði. Ef einhver svínaði eða gleymdi stefnuljósum í umferðinni brunaði hann upp í rassgatið á bílnum og flautaði eða blikkaði ljósum eða tók fram úr bílnum og snarstoppaði. Mitt skipti alltaf minna máli. Ég komst ekki í próf í háskólanum því hann gat ekki tekið sér tíma til að koma og vera með litlu meðan ég mætti í próf. En hann gat fengið frí til að fara með son sinn til tannlæknis. Orðalag eins og þegar hann sagði „ég get ekki sagt nei við fjölskylduna mína“ þegar hann vissi að ég væri með barn hangandi á brjóstinu á mér og með lokaskil á verkefni í háskólanum. Í eitt sinn bauð hann samt fólki í heimsókn þannig að ég gat því ekki unnið í skólaverkefninu né skilað og missti því prófrétt. Það situr í mér,“ segir hún. 

Þegar Inga er spurð að því hvernig sambandið var framan af segir hún að það hafi verið alls konar. 

„Að hans sögn var hann í erfiðu sambandi fyrir. Hann var indæll og sjarmerandi. Var afbrýðisamur út í börnin mín og fór í fýlu,“ segir hún.

Fyrir um ári flutti fjölskyldan til Svíþjóðar. Planið var að Inga kláraði fæðingarorlofið í Svíþjóð en færi svo í afbrotafræði í háskólanum. Móðir Ingu kom með þeim út til að byrja með og segir Inga að sambandið hafi snarversnað eftir að mamma hennar fór aftur til Íslands. 

„Fyrst þegar við komum hérna út snarversnaði þetta eða um leið og mamma mín fór heim. Þá komu reiðiköst og alltaf bar ég ábyrgð á öllu og allri hans líðan. Þegar upp komst um framhjáhöldin hans kenndi hann börnunum mínum um. Að hann þyrfti þetta til að flýja ástandið, undir miklu álagi, liði ekki vel hérna, allt vonlaust og allt var þetta mér eða börnunum mínum að kenna,“ segir hún.

Allan tímann sem þau voru saman þurfti allt að vera eftir hans höfði. Hún segir að hann hafi haft lítinn skilning á þörfum barnanna þeirra. 

„Hann skildi ekki að börn væru börn og það þurfi að segja þeim hluti aftur og aftur og með endalausri þolinmæði. Mín börn sættu annarri reglu en hans. Hann leyfði sér að taka í mín og vera harkalegur við þau,“ segir hún. 

Í apríl gekk hann í skrokk á Ingu og börnunum og í kjölfarið kom lögreglan og fjarlægði hann af heimilinu. Þegar hún er spurð að því hvort það hafi verið einhver aðdragandi segir hún að mánuðirnir á undan hafi verið erfiðir. 

„Hann hafði rokið upp kvöldið áður og hrætt mig. Á nánast hverjum einasta degi í tvo mánuði ógnaði hann mér. Í febrúar varð atvik í þvottahúsinu hér. Sonur minn hafði átt erfiðan dag og það var ekkert svigrúm fyrir hans líðan. Hann vildi ekki sýna honum hvernig hann ætti að kveikja á þvottavélinni heldur sat og glotti meðan sonur minn reyndi að fikra sig áfram. Hann ýtti á eitthvað vitlaust og þá hreytir hann einhverju í hann svo sonur minn grátandi sagði honum að þegja. Þetta varð nóg til að hann skellti honum upp við vegg og á gólfið og var allur í klórförum eftir þetta,“ segir Inga. 

Hún segist hafa orðið mjög reið eftir þetta atvik. 

„Við þetta atvik í febrúar varð ég fokreið og sagði að nú þyrfti hann að leita sér aðstoðar sem hann fann allar afsakanir fyrir að gera síðan ekki. Þetta umrædda kvöld upplifðum við öll að hann var ekki búinn. Það var eins og hann væri ekki á staðnum og það gerir mann hættulegan,“ segir hún. 

Inga segir að allan þann tíma sem þau bjuggu í Svíþjóð hefði hann otað að henni fingri og öskrað á hana nánast daglega. 

„Dagarnir sem ég grét mig ekki í svefn eru færri enn góðu dagarnir. Eða alla vega falla þeir í skugga. Þetta að elta mann út um allt er óþægilegt, ég frýs, stama og fer bara að gráta. Það þýðir ekkert að öskra á mig því ég heyri ekki,“ segir hún. 

Kvöldið örlagaríka í apríl er þannig að hann ræðst á Ingu og börnin. Lætin voru það mikil að nágrannarnir koma og hringdu á lögregluna eftir að dóttir hennar gat látið vita. 

„Þann 17. apríl 2020 var maðurinn minn handtekinn og settur í 72 tíma einangrun. Saksóknari setti á nálgunarbann og bað um tvær vikur í viðbót í fangelsi en því var hafnað. Hann er ákærður fyrir þrefalda líkamsárás. Hann kom heim úr vinnu eins og vanalega og angaði af áfengislykt. Hann virtist pirraður svo ég ákvað að halda áfram að horfa á þáttinn sem ég var nýbúin að kveikja á og leyfa honum að vera í friði,“ sagði Inga á Facebook-síðu sinni í gær.


Hvað gerðist svo í framhaldinu?

„Nágrannarnir labba inn. Hann sest í sófann og ætlar að bíða inni þangað til lögreglan kemur en það er vinnumaður sem var að vinna hér í húsinu sem tók hann og hélt á honum fram og stóð hjá honum þangað til löggan kom. Nágrannakonan niðri tók mig í fangið þar sem ég grét meðan hjónin hér á sömu hæð voru inni í barnaherbergi með börnunum og héldu utan um þau. Lögreglan kom, tók skýrslu af börnunum meðan teknar voru myndir af mér og áverkunum. Svo var tekin skýrsla af mér. Á laugardeginum sat ég í þriggja tíma í yfirheyrslu þar sem mér var þvælt fram og til baka og á sunnudeginum mættu tvö barnanna í samtals sex tíma og dóttir mín sem hljóp og sótti hjálp var svo yfirheyrð sem vitni í þjá tíma á mánudeginum. Hann sat í einangrun og svo er nálgunarbann á honum núna og réttarhöld í haust,“ segir hún. 

Hvernig hefur þú náð að hlúa að þér og börnunum eftir þetta áfall?

„Við erum öll illa sofin og með endalausar martraðir. Við eldum saman, förum í göngutúra, höfum verið að pakka í kassa og klessum okkur saman í sófa og horfum á eitthvað skemmtilegt til að slökkva á heilanum. Ég er glöð að þau komi til mín og biðji um knús. Stundum held ég að ég þurfi það meira en þau.“

Hvernig muntu jafna þig á þessu?

„Ég er í viðtalstímum í kvennaathvarfinu hér í Svíþjóð og hitti ráðgjafa áfallateymis í heimilisofbeldi þar sem gerðar eru alls konar ráðstafanir. Núna líður mér eins og ég sé aftengd því sem gerðist og bara almennt að við hefðum verið saman. Eins og það sé fjarlægt. Ég verð „ok“. Hlakka til að mæta aftur í háskólann og klára námið mitt til að geta hjálpað konum í minni stöðu,“ segir Inga sem hyggst læra afbrotafræði. 

Spurð um næstu skref segir hún að það sé að koma heim til Íslands. 

„Ég er komin með íbúð en ég lendi í kerfislegu gapi. Get ekkert sótt um hjálp eða beðið um undirbúning fyrr en ég er búin að færa lögheimili og þegar ég geri það þá missi ég réttindin hér í Svíþjóð. Ég hef trú á því að þetta muni reddast. Svo næstu skrefin eru að lenda. Þau hafa áhyggjur af því að ég „crashi“ um leið og ég kem heim í öryggið þar sem það er búið að vera endalaus dagskrá, fundir, yfirheyrslur og reddingar og svo þarf maður að vera sterkur fyrir börnin sín.“

Er eitthvað í lífinu sem getur undirbúið fólk fyrir það sem þú upplifðir? 

„Það held ég ekki. Ég held að ef við undirbúum börnin okkar og byggjum þau upp andlega og brjótum þennan vítahring meðvirkni yrði samfélagið betur statt. Ég held að undir niðri sé fólk sem beitir ofbeldi brotið. Það þarf að hafa stjórn á öllu og á erfitt með það þegar það missir stjórn. Léleg sjálfsímynd, stundum uppeldi þar sem þetta telst þá norm fyrir ofbeldismanninn. Ef þú ert í þessari stöðu, ekki hunsa rauðu flöggin og treystu innsæinu, sama hversu mikið þér þykir vænt um og elskar manneskjuna, þá þarf maður stundum bara að gera það í fjarlægð,“ segir Inga.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda