„Meðvirknissambönd geta verið andlega íþyngjandi og ekki að síður skaðleg fyrir báða aðila. Meðvirkni tengjum við oftast við fíkn, til dæmis þegar maki eða ástvinur er fíkill. Hugtakið er í dag orðið miklu breiðara en það og fíkn þarf ekki alltaf að vera til staðar þegar um meðvirkni er að ræða. En hvað er meðvirkni?
Meðvirkni er í stuttu máli, þegar líðan þín, hamingja eða jafnvel sjálfsmynd er skilgreind eða háð annarri manneskju,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og heilsumarkþjálfi í sínum nýjasta pistli:
Hér eru helstu einkenni þess að þú gætir verið í meðvirknissambandi:
Ef maki þinn eða ástvinur er fíkill þá er okkur eðlislægt að vilja gera allt til að hjálpa og styðja við viðkomandi. Ef að hjálpin þróast svo yfir í meðvirkni eða þráhyggju að „bjarga“ viðkomanda getur þú fests í eigin eymd og kvíði og þunglyndi getur fylgt í kjölfarið. Þegar við finnum fyrir of mikilli ábyrgðartilfinningu í sambandi við maka eða ástvin getum við misst tenginguna við okkur sjálf. Þá eigum við það til að þjást í annarra manna nafni af því að einhver nátengdur okkur á erfitt og það getur vakið upp erfiðar tilfinningar hjá okkur.
Þegar meðvirknissamband inniheldur einhvers konar fíkn þá er það sérstaklega slæmt ef að manneskjan sem er meðvirk þróar einnig með sér fíkn til að þóknast maka sínum eða ástvin eða forðast höfnun af þeirra hendi. Þessir einstaklingar styðja þá við fíknina hjá þeim sem þeir eru í sambandi með, í stað þess að hjálpa.
Ég las eitt mjög gott dæmi um meðvirkni um daginn sem mig langar að deila. Konan var heimavinnandi og gift alkahólista. Hann var búinn að koma þeim illa fyrir fjárhagslega með drykkju sinni og festist illa í vinnu. Hann bað þá eiginkonu sína sem var þá heimavinnandi að fara út á vinnumarkaðinn til að reyna ná endum saman. Hann kenndi fjárhagsáhyggjum sínum um drykkjuna. Hún vildi gera allt til þess að lina þessar fjárhagsáhyggjur hans og koma þannig í veg fyrir að hann drykki. Hún hafði engan áhuga á að fara út að vinna frá börnunum og heimilinu og varð mjög reið og bitur út í manninn sinn þegar meðan hún var að leita að vinnu.
Hún vildi helst vera heima með börnin og til að geta vaktað manninn sinn og komið þannig í veg fyrir að hann drykki. Því í hennar huga þá drakk hann minna ef hún væri að passa upp á hann. Þegar hún fór svo út á vinnumarkaðinn fann hún fyrir smá ró og gleði. Henni fannst gott að komast frá heimilinu og hugsa um eitthvað annað en manninn sinn. Hún var allt í einu komin með félagslíf sem hún hafði ekki átt fyrir og fann nú fyrir öðrum tilgangi í lífinu. Hún var fljót að vinna sig upp í fyrirtækinu. Meðvirkt fólk á oft á tíðum erfitt með að segja nei og setja mörk. Þar af leiðandi varð hún mjög vinsæl í fyrirtækinu vegna dugnaðar síns.
Einn daginn fékk hún svo símtal um að maðurinn hennar hafði ekki sótt börnin í leikskólann, hún vissi samstundis að hann væri fallinn. Það lék enginn vafi á því í hennar huga að þetta væri henni að kenna því hún var útivinnandi og ekki að hugsa um hann. Hún hætti samstundis í vinnunni til að vera heima að hugsa um hann og halda honum frá drykkjunni.
Það er okkur eðlislægt að tengja meðvirkni við vímuefni, en það sem hefur verið að færast í aukana síðastliðin ár er meðvirkni foreldra hjá börnum með skjáfíkn og ekki endilega bara foreldrar heldur hafa einnig ömmur og afar sem hafa komið til mín og rætt um þetta. Þá eru þau að eyða miklum tíma og orku í að reyna stjórna skjátíma barnabarna sinna og finna fyrir mikilli reiði og gremju vegna skjánotkunarinnar.
En hvað er hægt að gera?
Ef þú hefur séð þig í þessum einkennum og vilt breytingar þá er það fyrsta og stærsta skrefið að fá þessar ómeðvituðu hugsanir sem valda vanlíðan upp á yfirborðið. Allt of margir átta sig ekki á að þeir eru meðvirkir og þegar maður hefur ekki vitneskju um það þá geta breytingar ekki átt sér stað. Annað skref er aftenging. Þú ert ekki ábyrg fyrir líðan annarra, þú getur verið ábyrg fyrir þinni eigin líðan og það er það mikilvægasta sem þú getur gert.
Ég er ekki að segja þér að hætta hafa samvisku, en að líða illa yfir hegðun og vali annarra hjálpar ekki einstaklingnum og ekki þér heldur. Ef að áhyggjur og samviskubit myndi hjálpa viðkomandi þá myndi ég styðja það heilshugar en því miður gerir það ekkert fyrir þann sem á við vandamál að stríða. Hugsaðu um þig og farðu að setja sjálfan þig í fyrsta sæti. Ef að þú getur hugsað um þig og þína líðan hefur þú meira til að gefa. Með því móti getur þú verið til staðar fyrir viðkomandi þegar hann þarf á stuðningi þínum að halda.
Ef þér liggur eitthvað á hjarta þá getur sent Þóreyju póst HÉR.