Áhrifavaldurinn Lína Birgitta Sigurðardóttir fór fögrum orðum um kærasta sinn, Guðmund Birki Pálmason, í sinni nýjustu færslu á Instagram. Þar greinir Lína einnig frá því að Guðmundur, sem oftast er kallaður Gummi Kíró, hafi sent henni fyrstu skilaboðin sem voru kveikjan að ástarsambandi þeirra.
„Orð fá því ekki lýst hvað ég er þakklát fyrir að þessi maður hafi sent mér skilaboð á instagram og sagt að hann gæti ekki hætt að hugsa um mig og vildi endilega bjóða mér á deit,“ skrifar Lína.
Lína og Gummi fóru fyrst að sýna frá hvort öðru á samfélagsmiðlum í febrúar á þessu ári þegar þau skelltu sér til London saman. Síðan þá hefur ástin blómstrað hjá Línu og Gumma.
„Fyrir ykkur sem þekkið Gumma ekki neitt þá er hann algjör andstæða við það hvernig „hann lítur út & klæðir sig“ ef ég má orða það þannig. Hann er skólabókadæmi um að það á aldrei að dæma bók eftir kápunni. Fólk á það nefnilega til að halda að hann sé „svona & svona“ útaf hann er með mörg flúr & klæðir sig pínu örðuvísi. Oftar en ekki þá segir fólk við mig „vá hann er allt örðuvísi en ég hélt“ sem mér persónulega finnst frábært.
Gummi er án gríns ein besta sál sem ég hef kynnst 🤍 Hann er jarðtengdur, hann er hugulsamur, hann kann að hlusta, hann er einn sá þolinmóðasti & án efa einn sá góðasti (ef það er orð),“ segir Lína.