Skuldar 10 milljónir og getur ekki borgað

Kelly Sikkerma/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem spyr hvort hægt sé að gera hann gjaldþrota vegna skulda. 

Góðan dag Sævar

Ég skulda sirka 10 milljónir sem tengist allt námi mínu fyrir einhverjum árum. Skiptist á banka og LÍN.

Ég hef enga greiðslugetu nema kannski 500-1.000 kr. á hverjum mánuði. Er hægt að gera sig gjaldþrota þar sem greiðslugeta mín hefur ekki breyst til margra ára og sé ekki fram á að hún breytist á næstunni? Er hægt að skipta greiðslu hjá sýslumanni til að lýsa sig gjaldþrota (ég fæ ekkert lán eða yfirdrátt hjá bönkum)?

Kveðja, Jón 

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæll,

Skuldari getur sjálfur krafist þess að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Skilyrði þess eru að hann geti ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að þessir greiðsluörðugleikar líði hjá innan skamms tíma.

Þannig er ekki nægilegt að skuldarinn sé í vanskilum heldur verður að vera svo ásatt að ekki verði talið að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma. Kröfu um gjaldþrotaskipti þurfa að fylgja gögn sem sýna fram á að skuldari uppfylli framangreind skilyrði. 

Skuldari beinir svo kröfunni til þess héraðsdóms þar sem hann á skráð lögheimili og/eða dvalarstað. Samtímis ber skuldara að leggja fram skiptatryggingu að fjárhæð kr. 250.000 sem er til að standa undir kostnaði við meðferð kröfunnar. Ef sú trygging er ekki sett verður krafan afturkölluð, sbr. 2. mgr. 67. gr. gjaldþrotalaga.

Af fyrirspurn þinni má ráða að þú uppfyllir skilyrði 64. gr. gjaldþrotalaga til að krefjast gjaldþrotaskipta. Til að forðast allan vafa mæli ég þó eindregið með að þú leitir aðstoðar lögmanns.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson, lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari spurningu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda