Er klám vandamál í íslensku samfélagi? Í Smartlandsblaðinu, sem fylgir Morgunblaðinu í fyrramálið, er að finna viðtal við íslenskan karlmann sem barðist við klámfíkn en hefur náð bata. Hann líkir klámfíkninni við vímuefnaneyslu því fíknin stýrði för í hans lífi.
„Sjálfur hef ég notað klám óhóflega í gegnum tíðina. Ég kynntist klámi sem barn og unglingur og þótti það strax óheyrilega spennandi. En það sem í fyrstu var spennandi og skemmtileg dægradvöl stöku sinnum varð smátt og smátt að óstjórnlegri þörf sem ég réð á
endanum ekkert við. Í mörg ár komst ég varla í gegnum daginn án þess að skoða klám. Síðustu árin mátti kalla mig bæði dagdrykkjumann og túramann á þessu sviði. Klámið sem ég skoðaði þróaðist líka. Ég þurfti stöðugt sterkara stöff til að vekja upp gömlu góðu áhrifin. Að skoða klám hafði hugbreytandi áhrif á mig svipað eins og vímuefni. Fyrir mér var klám bæði vímu- og fíkniefni. Klámneyslan einangraði mig líka, frá sjálfum mér og eigin tilfinningum, alveg eins og hvert annað vímuefni gerir. Það truflaði mig líka stórkostlega frá því að taka þátt í lífinu. Stundum var ég nánast óstarfhæfur í vinnu og kaus fremur klámið en félagsleg samskipti. Konur sem ég hitti voru í mínum huga upprennandi leikkonur í klámórunum sem höfðu skotið rótum í huganum. Mig dreymdi stöðugt um að konan sem ég
var með myndi vera eða gera svona eða hinsegin eftir því sem órarnir kölluðu á. Þegar ég svo reyndi að fá hana til þess þá meiddi það hana. Auðvitað áttaði ég mig á því að þetta væri
hvorki gott né æskilegt fyrir mig og reyndi að venja mig af klámi. Mörgum sinnum. Þá uppgötvaði ég það skelfilega að ég réð ekkert við það. Ég gat ekki hætt heldur dróst endalaust aftur og aftur af stað, alveg sama hvað ég reyndi,“ segir íslenskur karl í viðtali við Smartlandsblaðið sem kemur út á morgun með Morgunblaðinu.