Hætti að drekka með hjálp SMART

Jóhann hætti sjálfur að drekka áfengi fyrir tveimur árum með …
Jóhann hætti sjálfur að drekka áfengi fyrir tveimur árum með aðstoð SMART leiðarinnar.

Jóhann Karl Hallsson er 26 ára smiður búsettur í Reykjanesbæ. Fyrir tveimur árum ákvað hann að hætta að drekka með því að fara á SMART Recovery-fundi. 

Smart Recovery er kerfi þróað af lækninum Joe Gerstein sem starfað hefur lengi við læknadeild Harvard. Árið 2016 fékk Gerstein mannúðarverðlaun Harvard fyrir SMART Recovery (e. Harvard Humanist of the Year Award) en hann hefur í áratugi hjálpað fólki út úr vanda og verkjum. 

Jóhann Karl segir þessa leið hafa virkað vel fyrir sig og hann hefur nú hlotið þjálfun sem gerir honum kleift að halda SMART-fundi á Islandi. Hann leitar nú allra leiða til að koma þessari leið til almennings enda segir hann SMART-fundi frábæra fyrir fólk sem vill ekki skilgreina sig eða aðgreina sig frá öðru fólki þótt það upplifi stjórnleysi í lífinu. 

„Ég er ekki menntaður á sviði heilbrigðisvísinda en hef sérstakan áhuga á þessum málum, og finnst vægast sagt óeðlilegt hversu marga einstaklinga við missum á Íslandi vegna geðheilsuvandamála.“

Hvernig fannstu SMART fyrst?

„Ég heyrði af SMART fyrst fyrir þremur árum. Þá vissi ég reyndar ekkert um hvað þetta snerist, nema bara að það væru sjálfshjálparsamtök til að hjálpa fólki að verða edrú.

Fyrir rúmlega tveimur árum ákvað ég svo að skella mér á minn fyrsta SMART-fund, eftir það varð ekki aftur snúið.“

Hefur þú sjálfur náð tökum á einhverju stjórnleysi í lífi þínu með þessari leið?

„Heldur betur, ég hætti að drekka fyrir tveimur árum og hef náð að halda mig frá áfengi með SMART. Ég hef líka náð að framkalla jafnvægi og vellíðan með SMART og sjaldan afrekað jafn mikið í lífinu.

Ég er líka búinn að stofna fyrirtæki og á lítið eftir áður en ég klára sveinspróf í húsasmíði.“

Hver er munurinn á þessu og hefðbundnu 12 spora kerfi?

„Í SMART er svokallað fjögurra punkta kerfi, en ekki 12 spor. Í AA eru sporin tekin í röð, en í SMART má fólk taka punktana í hvaða röð sem er, og jafnvel bæta einhverjum punktum við ef það vill það. Við kennum hvernig á að efla og viðhalda hvatningu, hvernig á að „kóa“ með hvötum, hvernig á að sjá um hugsanir, tilfinningar og hegðun og koma skammtíma- og langtímaánægju í jafnvægi. Það eru líka vinnublöð inni á síðunni sem er hægt að prenta út ókeypis.“

Er þetta leið til að takast á við fjölþætta fíkn í stað þess að fólk er stundum í mörgum 12 spora samtökum?

„Þetta er fyrir einstaklinga sem þjást af hvaða fíkn eða hegðun sem er; unglinga, háskólanema, unga, fullorðið fólk, hermenn sem hafa barist í stríði og eru með áfallaröskun, fólk sem er með lágar tekjur og þarf stuðning í bata, sjúklinga sem eru í meðferð á meðferðarstofnun og á spítölum. Þetta er fyrir fanga í fangelsum og erum við með sérstakt prógramm sem kallast „Inside Out“. Það er þróað með einnar milljónar dollara styrk frá samtökum sem kallast „NIDA“. Það er fyrir fjölskyldumeðlimi og ástvini þeirra sem eru með fíkn sem þurfa sjálfir stuðning til þess að takast á við reiði, kvíða, gremju og pirring sem þeir upplifa, og til að hjálpa ástvini sínum að fara í meðferð.“

Markmið Jóhanns er að setja SMART í gang hér á landi. Hann hefur nýlega þýtt bókina sem notuð er til viðmiðunar en vonast til að fleira fólk komi að verkefninu og taki við keflinu. 

„Ég sótti um styrk fyrir þýðingu fyrir tæpum þremur árum, hjá borgarráði og hjá heilbrigðisráðuneytinu. Ég var á kafi í vinnu þá svo núna í kórónuveirunni losnaði tími sem ég nýtti í þetta. Ég notaði þennan pirring út í þá staðreynd, að það var ekki peningur í að þýða þessa bók en það voru til nokkrar milljónir til þess að prenta út bæklinga um „umhverfisáætlun“ Reykjavíkurborgar. Þessi bók getur og mun bjarga lífi fólks. Það er verið að tala um að það vanti úrræði, fólk er að svipta sig lífi, hérna er allavega mjög öflugt úrræði sem hægt er að fá á SMART-vefsíðunni og jafnvel þótt fólk eigi ekki pening fyrir bókinni er hægt að prenta út vinnublöð af SMART-vefsíðunni ókeypis alltaf.“

Jóhann segir 3.500 SMART-hópa til út um allan heim sem hittast í raunheimum eða á netinu. 

Hver er niðurstaða rannsókna tengdra SMART?

„SMART eru jafn áhrifarík og önnur sjálfshjálparsamtök miðað við þær rannsóknir sem til eru.“

Nú eru til alls konar leiðir til að hætta að nota sem dæmi áfengi og vímuefni; 12 spora samtök og meðferðarleiðir. Hvers vegna vildirðu bæta einni leið við það sem til er?

„Mér finnst ekkert vera til sérstaklega margar leiðir hérna á Íslandi. Það eru auðvitað 12 spora samtök og SÁÁ. Það sem ég kann að meta við SMART er að það setur litla pressu á þig varðandi það að skilgreina hvað þú ert. SMART notar ekki merkimiða eins og „alkóhólisti“ eða „fíkill“. Það tekur heldur ekki afstöðu til þess hvort fíkn sé sjúkdómur eða ekki. Þetta er tilvalið fyrir fjölskyldupabbann til dæmis í einhverju úthverfi sem vill ekki viðurkenna að hann sé með vandamál og er ekki að fara viðurkenna það. Þú getur nefnilega farið á SMART-fund á netinu, alveg nafnlaust, og þess vegna kallað þig „daddysober65“, og það mun enginn komast að því hver þú ert. Það ættu allir að prófa SMART því það mun breyta lífinu!“

Þeir sem vilja hlusta á hlaðvarp um hvernig má komast í gegnum hátíðina með SMART-verkfærum geta hlustað á Gerstein hér. Jólin hafa oft verið erfiður tími fyrir þá sem kljást við stjórnleysi og annan vanda sem er ástæðan fyrir því að Jóhann vill koma efninu á framfæri í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda