Kolbrún Karlsdóttir er talskona umhyggjuríkra samskipta. Hún upplifði erfitt tímabil í lífinu þar sem hún fór að vinna í sér og samskiptunum sínum. Hana dreymir nú um að koma umhyggjuríkjum samskiptum inn í skólakerfið á Íslandi. Þeir sem hafa verið í eitruðum samskiptum þekkja það af eigin raun hvernig slíkt getur haft áhrif á heilsuna. Kolbrún er á því að umhyggjurík samskipti eða Non Violent Communication (NVC) geti bjargað mannslífum, en hugmyndafræðinni kynntist hún árið 2013.
„Ég var búin að ganga á ótal veggi, fara í kulnun og endurhæfingu vegna þess að gamlir draugar voru að stjórna hvernig sjálfstýringin mín virkaði. Ég rambaði inn í tólfsporasamtök þegar engin leið virtist lengur fær. Þaðan var ég síðan leidd inn á þessa hugmyndafræði. Ég sökkti mér algerlega í að læra þetta, fann að lífið fékk svo mikið meiri dýpt. Ég fór á löng námskeið í fjölmörgum löndum og varði sem dæmi hálfu ári í Afríku að miðla og læra, sem var mjög lærdómsríkt.“
Hún er í viðurkenningaferli til þjálfararéttinda í faginu í dag og hefur farið á fjölmörg námskeið víða um heiminn því tengt.
„Við fórum til Úganda í lok árs 2016 til að kynna NVC í litlu frumkvöðlasamfélagi en einnig í sendiráði Íslands í Kampala við góðar undirtektir.
Þá lá leiðin til Cape Town þar sem ég hélt utan um námskeið fyrir starfsfólk heilsuhælis í þrjá mánuði.“
Hér heima hefur hún skipulagt námskeið með erlendum þjálfurum, haldið námskeið í Bjarkarhlíð ásamt Evu Dís ráðgjafa hjá Stígamótum og nú síðast verið með námskeið á netinu með Ragnhildi Birnu fjölskylduráðgjafa með meiru sem var vel heppnuð frumraun og kallar á framhald að hennar sögn.
Hún er þó á því að lífið sé allaf stærsti kennarinn.
„Í vetur prófaði ég í fyrsta sinn að vera með námskeið á netinu sem gekk mun betur en ég hefði getað ímyndað mér, vinnan fór mun dýpra en mig hefði getað órað fyrir. Áður hef ég verið í samstarfi við Bjarkarhlíð og boðið upp á námskeið þar með góðum árangri en einnig opin námskeið. Það hafa líka komið til mín einstaklingar í ráðgjöf. Nú er ég einnig að skipuleggja vikulangt ferðalag fyrir íslenskar konur í lok maí með dásamlegum konum sem búa í Rínardalnum. Við ætlum að eiga gæðastundir með fræðslu og sjálfstyrkingu í undurfögru umhverfi þegar vorið er komið í dalinn, en fyrst og fremst að njóta þess að vera og vaxa saman.“
Hvernig eru Umhyggjurík samskipti skilgreind?
„Stutt skilgreining er að leitast við að tengja fremur en að fara í mótstöðu þar sem valið er samkennd fremur en sundrung og skilning fremur en átök.
Grunnurinn er meðvitund um sammannlegar þarfir okkar sem við erum alltaf að uppfylla með mismunandi afleiðingum og læra markvissar aðferðir til að uppfylla þær.“
Kolbrún segir magnað að sjá fólk breytast með breyttum leiðum í samskiptum.
„Það er magnað að horfa á einstakling sem er fastur í mynstrunum sínum rétta úr sér og tala um sjálfan sig í fyrstu persónu í ferlinu. Þá fer einstaklingurinn að skína. Að fá að vera með í þannig ferli er stærsta gjöfin.“
Kolbrún segir grunninn að því að vera til staðar fyrir annað fólk að vera vel nærður sjálfur. Þá myndist orka til að gefa eitthvað áfram.
Kolbrúnu dreymir um að fara með aðferðafræði umhyggjusamra samskipta inn í skólana.
„Ég hef trú á að valdefling og tenging geti breytt ástandinu í skólunum verulega. Þessa dagana er ég að vinna í að koma námsefni á íslensku í þannig form að það sé aðgengilegt fyrir alla aldurshópa.
Þetta er svo einfalt, þótt það sé flókið að skipta út hugarfarinu. Ég líki þessu við að læra nýtt tungumál.
Ég hef þá trú að með því að innleiða þessa hugmyndafræði í skólana muni einelti minnka og meiri samkennd skapast.
Sjálf hef ég horft upp á og heyrt reynslusögur frá mínum starfsfélögum erlendis sem hafa setið á ansi heitum fundum í Afríku með stríðandi fylkingum, með bókstaflega hríðskotabyssur undir stólum. Þar sem hefur tekist að koma á varanlegum friði með gagnkvæmri hlustun og skilningi.
Þessi hugmyndafræði er notuð í friðarviðræðum um allan heim en vinir mínir og kollegar eru ansi ötulir á spennusvæðum eins og Palestínu/Ísrael þar sem fólk úr mismunandi aðstæðum fær innsýn í líf hvert annars. Það sem ég er kannski að reyna að koma á framfæri er að þetta er ótrúlega magnað tól til að tengja fólk án þess að nokkur málamiðlun sé gerð, en allir fá sitt og öll mörk eru virt.“
Hver er þín trú á tengslum samskipta og heilsu?
„Ég hef reynslu af hversu samtvinnuð andleg heilsa er líkamlegri heilsu. Áföllin okkar sitja í beinunum okkar. Meira að segja áföll fyrri kynslóða sitja í okkar líkömum að einhverju leyti og stýra okkur í meðvitundarleysi eða sjálfstýringunni okkar. Það er frekar lítið mál að vinda ofan af þessu, það eina sem þarf er einbeittur vilji, þor og stuðningur frá aðilum sem hafa tekið til í eigin tilveru og hafa kunnáttu og innra rými til að halda utan um ferli viðkomandi.“
Kolbrún segir að áherslan sé á tengingu við hinn aðilann og sjálfan sig og síðan gagnkvæman skilning.
„Grunnurinn sem aðferðin er byggð á eru sammannlegar þarfir sem við erum alltaf að uppfylla. Allt sem við gerum eru leiðir til að uppfylla þarfir. Sumir skilgreina þær sem gildi, en listinn er langur og það sem ég vinn með telur 70-100 þarfir eins og öryggi, tengsl, samfélag, gleði, léttleika og ást svo eitthvað sé nefnt. Ég tek að mér hlutverk túlks og hlusta eftir þörfum sem hvor um sig er að uppfylla með hegðun sem er mögulega meiðandi fyrir annan aðilann eða báða. Þetta er gert í tvennu lagi eða saman. Það fer eftir því hversu harður hnúturinn er.“
Hún segir að þegar gagnkvæmur skilningur sé kominn fari spennan og opnast á lausnir.
„Við höfum öll þörf fyrir að styðja hvert annað og vera í samhljómi. Ég get sagt sögu af pabbanum sem kom heim dauðþreyttur. Dóttir hans sem var níu ára tók á móti honum og langaði í badminton. Hann nennti ekki en svaraði með tón að hann gæti leikið við hana. Hún alin upp í anda NVC heyrði á raddbeitingunni hvernig stemmingin á honum var og nefndi að það væri ekki gaman fyrir hana að leika við hann í þessum ham. Svo bauð hún honum að tjá þarfirnar sínar, sem voru hvíld en að sama skapi samvera og tengsl við hana. Hún stakk þá upp á að hann myndi leggja sig, hún myndi föndra og lita og hann myndi bara hrósa henni af og til. Hann var meira en til í það svo allir fengu það sem þeir voru að leitast eftir.
Þetta er það sem NVC gengur út á. Að fara af stað í ferðalag og skoða hvaðan við erum að koma og finna leiðir til að uppfylla þarfir allra án afsláttar. Hver þörf á 1.001 leið til að verða uppfyllt.“
Áttu góð ráð fyrir þá sem eru í erfiðum samskiptum?
„Að vanda orð sín og ásetning og vera meðvituð/aður um hvaða orku maður/kona er að gefa frá sér. Við erum speglar svo allt sem við gefum frá okkur kemur til baka til okkar. Eins að hlusta til að heyra og einbeita sér að þörfunum á bak við orðin en ekki hlusta til að bregðast við. Það er ástæða fyrir að við erum með einn munn en tvö eyru. Svo að gefa sér rými í amstri dagsins til að fara í leikinn: Hvað kann ég mest að meta við þig? Sem sagt taka tíma til að setjast niður og íhuga og tjá sig um hvað hinn aðilinn gerir sem bætir tilveru mína og öfugt. Ráð sem ég fékk frá afleggjaranum mínum, oft kennir eggið hænunni ef við hlustum. Ég mæli með að fólk setjist andspænis hvort öðru og hvor fær fjórar til fimm mínútur til að tala út frá eigin brjósti til skiptis. Þetta tekur í kringum fjörutíu mínútur. Eins að undirbúa stundina með því að útiloka allt áreiti og hægja á sér. Það er hjálplegt að hafa opnar spurningar til hugvekju. Það er mikilvægt að stoppa ekki flæðið og hvorki trufla þann sem er að tala né tala á milli, bara skipta á fimm mínútna fresti og ræða síðan eftir hvernig upplifunin var. Ég hef líka mælt með að fólk setjist niður og aðili tali í fimm mínútur ótruflað, ef hann/hún þegir í þrjár, þá er tíminn samt sem áður hans/hennar og ekki má trufla. Næst eru fimm mínútur þar sem hinn aðilinn fær að endursegja hans/hennar skilning á því sem talað var um. Það skýrir það sem er óskýrt í fimm mínútur þar til kominn er gagnkvæmur skilningur. Svo snýst dæmið við. Mikilvægt er að gefa þennan tíma ótruflaðan.“