„Ég hef ritað tugi pistla og birt opinberlega. Farið í nokkur fjölmiðlaviðtöl þ.m.t. helgarviðtal í DV, sem vakti mikla athygli, og ritað óteljandi statusa hér. Um hvað er ég að rita? Jú um mína reynslu að kljást við lífshættulega röskun (Complex Post Traumatic Stress Disorder) þar sem aðaleinkennin voru ofsakvíða-og panikköst með endurupplifunum á sársauka áfalla,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli:
Þessi ófögnuður kom óvænt og óvelkominn í mitt líf sumarið 2013. Einkennin stigversnuðu en ég vissi ekki hvað eða hvort eitthvað væri að. Þrátt fyrir margar svefnlausar nætur þá líklegast var afneitunin svo sterk. Spilaði inn í að ég sagði sumarið 2013 að ég myndi tækla þetta sem annað. Þrjóskan í mér sem og ótti við höfnun (meðvirkni og ótti við höfnun blossðu upp líka) urðu til þess að ég barðist alla daga í 2 ár. Var á þessum tíma í erfiðri og streituvaldandi vinnu og svo vera virkur á heimilinu. Líklegast er ástæða afneitunarinnar að ég var á fullu allan daginn og gaf mér engan tíma til að hugsa um eitt eða neitt. Hljómar kannski skringilega en þannig var þetta.
Svo kom að reikningsskilum. Ég er manneskja og þoli ekki svona álag endalaust. Skellurinn kom í byrjun hausts 2015. Þá lá ég ósjálfbjarga vegna ofsakvíða- og panikkasta með mig og mitt líf í rúst. Hef alltaf haft nóg að bíta og brenna og staðið í skilum alla tíð. Þarna sat ég uppi með allt niðrum mig. Peningamál, bíllaus, húsnæðislaus og atvinnulaus. Fyrir utan að vera útbrunninn á líkama og sál. Dagarnir fóru í að berjast við þessi hræðilega ofsakvíða- og panikköst. Ég barðist þar til ég átti ekkert hálmstrá eftir. Þannig var ég. Átti ekkert eftir. Lýg því. Jú börnin mín og það eina sem var eftir í mér og heitir auðmýkt. Það var vopnið mitt í upphafi.
Skil ekki hvernig mér tókst að standa mína plikt í vinnu og heimavið þessi 2 ár. Að glíma svona lengi við lífshættulega röskun er ekki til eftirbreytni. Þó ég hafi bjargast á ögurstundu er mín veikindasaga ekki til eftirbreytni og ég kem ekki sem hetja út úr henni.
Við tók erfið bataganga. Taugakerfið í rúst sem og varnarkerfið. Með auðmýktina að vopni var ég tilbúinn að gera allt til að ná bata. Engin skömm. Enginn feluleikur. Ég hafði undir lok veikindanna skrifað undir rós statusa sem fékk fólk til að hafa áhyggjur af mér. Ég var líklega að gera tilraun til að biðja um hjálp. Ég kunni ekki að biðja um hjálp. Ég hefði aldrei náð þessu svona fljótt hefði ég ekki verið svo illa á mig kominn. Það er kaldhæðnin í þessu bataferli.
Ég er ekki eins opin persóna og fólk heldur þó ég hafið barið í mig kjark að segja frá því sem ég er að glíma við. Ég lærði og bjó mér til aðferðir að hjálpa mér sjálfur og að skrifa er ein af þeim.Tjái mig við sjálfan mig af eins mikilli einlægni og ég kann. Kem hugsunum í orð og líður líkt ég sé að tjá mig við aðra manneskju. Sé atburði þá í öðru ljósi.
Upp úr þessum skrifum fæddist fyrsti pistillinn. Ég þurfti mikið hugrekki og kjark að leyfa birtingu en það var mikið pressað á mig.
Viðbrögðin voru gígantísk. Það rigndi yfir mig skeytum og blaðamenn vildu búa til fréttir um pistilinn. Man hvað mér brá er ég opnaði dv.is einn daginn og sá flennistóra mynd af mér og frétt um þennan pistil! Mér brá svo mikið því ég gerði mér enga grein fyrir hve lítið var um skrif af þessu tagi. Ég fór ekki djúpt í neitt en var einlægur og fólk tengdi við það sem ég ritaði.
Sem betur fer voru viðbrögðin jákvæð og flestir að þakka mér fyrir. Það var gefandi að upplifa að hafa gefið öðrum. Þegar ég jafnaði mig af sjokkinu sat sú tilfinning eftir. Var ég virkilega að hjálpa öðrum?
Ég er ákveðinn karakter og ákvað í upphafi að fela mig ekki og vera opinn um mig og veikindin. Er ég að nærast á athygli sem ég fæ? Nei. Það bjargaði lífi mínu að opna mig opinberlega og þetta er hluti af mínu bataprógrammi.
Ég áttaði mig á að fyrst ég gat ritað pistla og upplifði að það gæfi mèr að gefa öðrum, þá fannst mér það nánast skylda mín! Getur ekki ímyndað þér hve margir eru þarna úti að þjást og þiggja t.d. mín skrif.
Ég hef lítið áttað mig eða spáð í hve margir viti hver ég er út af t.d. pistlaskrifunum. Þó ég skammist mín ekkert fyrir að opinbera hvað ég er að kljást við þá vildi ég nú frekar fá athygli fyrir allt annað en þetta.
Vissulega hef ég spurt mig hvort arhyglisþörf sé að stjórna mér. Segi aftur nei.
Settu þetta í samhengi. Ég er að bjarga mínu lífi og byggja það upp á ný. Þetta er ekkert gamanmál sem snýst um mitt egó. Tek enga greiðslu fyrir þetta. Ef ég gerði það þá væru forsendur brostnar.
Ég er einfaldlega að leggja mig fram við að gefa af mér til fólks. Um leið fæ ég sjálfur gjafir á móti. Bara að einn láti mig vita og þakki fyrir er nóg. Þetta tvennt er drifkrafturinn ásamt þriðja atriðinu sem er að leggja mitt af mörkum til að opna umræðu um andleg veikindi sem því miður er enn tabú. Búum enn við fordóma vegna vanþekkingar. Það er sorglegt árið 2021.
Ég er kominn á þann stað í lífinu að mér gæti ekki verið meira sama þó einhverjum finnist ég fyrirferðarmikill í opinberri tjáningu.
Ég held að mínir pistlar hafi fengið mikla athygli af því fáir aðrir ef einhverjir væru að gera hið slíkt sama. Þetta hef ég heyrt frá birtingaraðilum og fólki. Þykir það sorglegt.
Mín bataganga hófst um leið og átakið #égerekkitaboo hófst með opnum facebook hópsins Geðsjúk. Tilgangur hans átti m.a.að vera að opna umræðu um andleg veikindi. Því miður hefur þeim tilgangi ekki verið náð. Veit að stór ástæða er skömm og ótti við fordóma það mikill að flestir treysta sér ekki. Ég skil það vel.
Bæti við að eftir 6 ára baráttu (veikindaferlið og batagangan) þá varð ég útskrifaður eftir 3 viðtöl hjá sálfræðingi í áfallateymi Lsh í júní 2019. Tók mig mánuð að melta þetta. Vil ekki monta mig en er gríðarlega stoltur því 99% af árangrinum er mér og mínu sjálfshjálparprógrammi að þakka. Var í 2 ár hjá Virk og fékk aldrei viðeigandi hjálp. Hefði þurft að komast strax í áfallateymið en hvað vissi ég? Enginn hjá Virk kveikti á þeirri peru þó ég hafi marg oft farið yfir einkenni minna veikinda. En þetta er að baki og afgreitt í mínum huga.
Því miður þá varð ég fyrir 3 stórum áföllum í sömu vikunni í byrjun september 2019. Það var mikið högg. Sérstaklega eitt atvikið. Það hélt mér í heljargreipum í á annað ár! Ég upplifði í desember 2019 hvers vegna complex áfallastreituröskun er kölluð krónísk. Þá heltust yfir mig flest einkenni svo sem ofsakvíði- og ótti, paranoja, sjálfsniðurrif o.fl. Lungan úr árinu 2020 fór í að fara í gegnum þetta og koma mér á batabraut á ný. Það tókst. Ég er enn stoltari að hafa tekist það.
Ég fagna 2021. Það er yndisleg tilfinning að upplifa migí besta jafnvægi lífsins hingað til.
Verkefnið mitt fram að vori er að klára að rita sjálfshjálparbók sem ég hef oft minnst á. Að 99% af mínum bata sé mínum eigin aðferðum að þakka þýðir að ég hef eitthvað fram að færa.
Samhliða ætla ég að skipuleggja hvað ég vil gera vinnutengt í framtíðinni.
Svo er aldrei að vita að lífreynslusagan verði að bók að auki.
Takk fyrir þið öll sem lesið sem ég skrifa og ekki síst fyrir að gefa af ykkur á móti. Það er yndislegt. Það er mér ómetanlegt.
Minni mig daglega á að ég er með króníska röskun. Röskun sem hefur allt of háa dánartíðni. Fólks gefst upp í sársaukanum. Samkvæmt minni reynslu skil ég það vel. Mín bataganga var engin heppni en samt er ég heppinn vitandi um þann fjölda fólks sem hefur látist vegna röskunarinnar.
Fullyrði að ef ég hefði þagað út í horni væri ég ekki hér í dag. Því er ég endalaust þakklátur mér að náð að vera opinskár um mín veikindi.
Góðar stundir elsku vinir.