Hvernig skiptast eigur við andlát ef hjón eiga ekki börn saman?

Hvernig skiptast eignirnar eftir andlát maka?
Hvernig skiptast eignirnar eftir andlát maka? Esther Ann/Unsplash

Þyrí Steingrímsdóttir, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem veltir fyrir sér erfðarétti þar sem hún og eiginmaður hennar eigi ekki börn saman heldur börn af fyrra hjónabandi. 

Sæl. 

Ég hef spurningu varðandi erfðarétt. Við hjónin eigum engin börn saman en eigum bæði börn af fyrra hjónabandi. Eignir okkar hafa komið til vegna vinnu okkar beggja. Mér sýnist að falli maki minn frá á undan mér þá eigi ég eingöngu rétt á 1/3 af eigum okkar, er það rétt skilið hjá mér? Að börnin hans erfi 2/3 af eignum okkar og ég eingöngu 1/3, þrátt fyrir að við eigum þessar eignir jafnt?  

Ég er hér að ganga út frá því að ekki væri búið að gera erfðaskrá þar sem leyfi er gefið fyrir óskiptu búi. Ég gæti trúað að margir hefðu þessa sömu spurningu enda orðið ansi algengt að samsettar fjölskyldur geri upp bú. 

Kærar þakkir fyrir svörin.

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Sæl.

Það er rétt að maki erfir 1/3 ef búi er skipt eftir andlát annars og börn erfa 2/3. Það er þó þannig að eignirnar sem koma til skipta eru helmingur af eignum hjónanna, þ.e.a.s. fyrst fara fram fjárskipti á milli hjónanna og komist að niðurstöðu um helmingaskipti þeirra á milli. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir er litið svo á að annar helmingurinn tilheyri dánarbúinu og er það sá hluti sem kemur til arfs, en hinn helmingurinn tilheyrir þeim maka sem er eftirlifandi. Það er þannig einvörðungu helmingur eigna hjónanna sem erfist til maka og barna í fyrrgreindum hlutföllum eftir lát annars maka, en ekki allar eignir hjónanna.

Það er vert að taka fram að ef hjón ákveða að það sem langlífara er hafi heimild til að sitja í óskiptu búi með erfðaskrá þá fellur niður erfðarétturinn á milli hjónanna þegar búi þeirra er skipt eftir dag þeirra beggja. Þannig myndu börn hvors maka um sig erfa helming ef slík erfðaskrá yrði gerð.

Kær kveðja, 

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda