Vala Valtýsdóttir lögmaður á Lögfræðiskrifstofu Reykjavíkur svarar spurningu lesenda Smartlands. Hér fær hún spuringu frá manni sem veltir fyrir sér hvort hann eigi að borga skatta í tveimur löndum.
Sæl.
Ég er að fá lífeyri frá Danmörku en ég bý á Íslandi. Er í vinnu hér á landi og greiði skatta af laununum. Í Danmörku er dregin staðgreiðsla af lífeyristekjunum um 37%. Síðan geri ég skattaskýrslu og þarf alltaf að borga skatta af dönsku tekjunum líka til Íslands. Eru ekki einhverjar reglur sem banna þessa tvöföldu skattlagningu?
Kveðja,
Skattman.
Sæll Skattman.
Þar sem þú ert með svokallað skattalegt heimilisfesti á Íslandi þá greiðir þú skatta hér á landi vegna allra tekna þinna hvar sem þeirra er aflað. Hitt er svo annað mál að Ísland og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa gert með sér samning sem á að koma í veg fyrir tvísköttun sömu tekna. Vegna þessa koma skattlagðar tekjur í Danmörku til frádráttar við álagningu skatta hér á landi. Þannig er ekki um tvískattlagningu á sömu tekjunum að ræða þótt skattprósenta geti valdið því að í raun greiðist viðbótarskattur. Það skal tekið fram að við framtalsgerð verður að fylgja kvittun eða annað sem sýnir að skatturinn hafi verið greiddur.
Kær kveðja,
Vala Valtýsdóttir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur HÉR.