Aðaláhyggjuefnið hvort og hvenær dóttirin kemur

Wes Hicks/Unsplash

Valgerður Halldórsdóttir fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni sem hefur áhyggjur af því hvernig lífið verður eftir að nýtt barn kemur í heiminn. 

Sæl Valgerður.  

Við hjónin eigum von á okkar fyrsta sameignlega barni í júlí og erum mjög spennt. Þetta er hennar fyrsta barn en ég á fyrir tíu ára dóttur.  Aðal áhyggjuefni konunnar minnar eru hvort og þá hvernig hún verði hjá okkur þegar barnið fæðist og fyrst á eftir. Ég skil ekki alveg þessar áhyggjur en mig langar að dóttir mín verði hjá okkur og vil ekki að henni finnist hún vera útundan.

Kveðja,

Hjalti

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi.
Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Komdu sæll Hjalti.

Af bréfi þínu má ráða að þú og konan þín hafið ekki alveg sömu hugmyndirnar um hvernig hlutirnir eigi að vera þegar ykkar sameiginlega barn kemur í heiminn. Þú ert að verða faðir í annað sinn og konan þín móðir í fyrsta sinn, þannig að þið komið dálitið ólíkt að hlutunum og þarfir ykkar mögulega ólíkar. Sumum stjúpforeldrum finnst ekkert mál þó stjúpbörnin séu á heimilinu frá degi eitt meðan aðrir vilja fá tíma út af fyrir sig með nýja barninu og maka. Vert er að hafa í huga að jafnvel foreldar, sem ekki eru stjúpforeldrar, geta líka vel þegið að eiga tíma saman í ró og næði með nýja barninu. Í stað þess að dæma viðkomandi er rétt að skoða málið og sjá hvort og þá hvernig er hægt að koma á móts við þarfir allra aðila.

Það er ákveðin sorg í sumum stjúpforeldrum þegar kemur að barneignum, jafnvel þó parinu hlakki til og þrái ekkert meira en að eignast barn saman. Stjúpforeldrið er að verða foreldri í fyrsta sinn og sumir eru hræddir um að makanum finnst það ekki eins merkilegt og þeim sjálfum, þar sem hann hefur „gert þetta allt áður“.  Það var til að mynda „léttir“ fyrir stjúpmóðurina, sem fólk getur átt  erfitt með að skilja, þegar hún heyrði af því að stjúpbarnið hennar hafi verið tekið með keisaraskurði. Maðurinn hennar hafði aldrei farið í gegnum fæðingu áður, það myndu þau gera bæði í fyrsta skiptið. Já auðvitað,  ef allt gengi eftir. Sumir hafa áhyggjur af því hvort makinn muni elska „þeirra“ barn eins og „sitt“ barn.

Það getur því líka reynt á sumar stjúpmæður ef þeim finnst að þær þurfi að vera í „samkeppni við stjúpbarnið“ um tíma og athygli makans þegar kemur að fæðingunni og þeim dögum sem fylgja á eftir.

Sumar stjúpmæður verða reiðar þegar þær rifja upp fæðingarsögu sína og ástæðan er oft sú að þeim fannst maki þeirra var meira uppteknir af því að stjúpbarnið verði ekki „útundan“ en að veita þeim þann stuðning sem þær þurftu.  Maðurinn minn hefur alltaf sett stjúpdóttur mína í fyrsta sæti, líka þegar ég var í miðri fæðingu! „Mér líður oft eins og einstæðri móður , ég með „okkar“ barn og hann með „sitt“ barn,  strax frá fyrsta degi. Það versta var að reiði mín beindist að stjúpdóttur minni,  en ég vissi í sjálfu sér að hún hafði ekkert með þetta að gera.

Mörgum foreldrum, sérstaklega feðrum finnast þessar aðstæður flóknar. Annars vegar að koma á móts við óskir og þarfir makans og síðan að passa upp á börnin sín úr fyrra sambandi þ.e. að þau upplifi sig ekki útundan.  Barnfaðir eða -móðir „úti í bæ“ getur líka haft áhyggjur af því hvað verði um „hennar“ eða „hans“ barn. Það er mikilvægt að finna út úr því hvernig hlutirnir verða eins og kostur er svo hreiðurgerðin verði ánægjuleg,  en fari ekki öll í óþarfa áhyggjur yfir hlutum sem hægt er að leysa.

Mér sýnist af bréfi þína að dæma að konan þín hafi þörf fyrir að vita hvernig hlutirnir verði í kringum fæðinguna og sé að spyrja þig hvernig „þú“ ætlir að hafa þetta? Réttara væri að spyrja „hvernig eigum „við“ að hafa þetta?“ Góður undirbúningur skiptir máli og mikilvægt að þið reynið að koma til móts við ólíkar þarfir ykkar, líka stjúpbarnsins ef þið ætlið að  byggja upp sterka stjúpfjölskyldu. Dóttir þín þarf líka að vita hvernig „verður þetta?“ Hún þarf að finna að það sé gert ráð fyrir henni og að hún sé örugg um ást þína og umhyggju.  Þú átt hinsvegar ekki að þurfa að velja á milli þess að vera góður faðir og góður maki.

Verið óhrædd við a leita aðstoðar, hún er oftar nær en ykkur grunar. Mögulegt er að vinir og vandamenn, jafnvel barnsmóðir þín geti létt undir með ykkur,  með því að bjóða dóttur þinni í heimsókn, næturgistingu, bæjarferð eða annað þannig að þið fáið þann tíma ein sem konan þín þarfnast. Jafnframt verið konunni þinni stuðningur þann tíma sem þú sinnir dóttur þinni úr fyrra sambandi. Konan þín getur líka gefið dóttur þinni tíma til að styrkja þeirra samband, það er betra að gefa tuttugu mínútur en ekki neitt. Við erum tilbúnari til að sýna sveigjanleika og skilning þeim sem við þekkjum og erum í góðum tengslum við. Þið ættuð að reyna gefa ykkur tíma til að búa til plan  saman sem rúmar ykkur öll, saman og sitt í hvoru lagi.  

Kær kveðja, 

Valgerður Halldórsdóttir fjölskylduráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valgerði spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda