Elínrós Líndal ráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá einstaklingi sem veltir fyrir sér muninum á heilbrigðu sambandi og kynlífi og eitruðu sambandi og kynlífi.
Sæl
Hvernig getur maður vitað hvort maður sé í heilbrigðu sambandi eða eitruðu sambandi? Hvað er heilbrigt kynlíf og hvað er kynlíf sem byggir á fíkn?
Bestu kveðjur, X
Sæl/Sæll
Takk fyrir spurninguna.
Það eru nokkrar leiðir til að finna út hvort samband og náin samskipti séu heilbrigð eða ekki. Þó er mikilvægt að hafa í huga að allir eru að kljást við eitthvað og að í nánum samskiptum getur hluti af því sem er í gangi verið heilbrigður og aðra hluta þurft að laga eða breyta.
Þegar kemur að samböndum er góð regla að skoða hvort sambandið sé opið og hvort það byggi upp einstaklingana inni í því eða brjóti þá niður. Hvort einstaklingar geti verið þeir sjálfir eða þurfa að breyta sér fyrir sambandið.
Meginreglan er sú að fólk byggist upp í heilbrigðum nánum samböndum og það vex og dafnar.
Andstæðan við ást eða fíknisambönd - eru þau sambönd sem eru lokuð, eitruð og draga úr virði manneskjunnar. Í þannig samböndum forðast fólk að berskjalda sig, ræða um framtíðina eða að kynna sambandið opinberlega.
Þegar kemur að kynlífi í sambandi þá er heilbrigt kynlíf það sem byggir á virðingu, ást og nánd. Einstaklingar eiga þá auðvelt með að segja hvað þeir vilja og hvað þeir vilja ekki. Fólk berskjaldar sig og lærir að treysta maka sínum. Í heilbrigðu kynlífi finnur fólk fyrir tilfinningum í líkamanum sínum og það er til staðar og horfir í augu maka síns. Það elskar sjálft sig og ber virðingu fyrir sér og gerir hið sama fyrir maka sinn. Það treystir maka sínum fyrir sér og getur verið afslappað í athöfninni. Heiðarleiki, leikur og fleira kemur inn í kynlíf sem er heilbrigt. Heilbrigt kynlíf þróast og þroskast með árunum.
Óheilbrigt kynlíf byggir á skömm og aðilar þurfa þá stundum að nota áfengi eða önnur efni til að komast í gegnum athöfnina. Fólk er notað eða finnst eins og það hafi verið notað eftir kynlífið. Fólk ruglar spennu og ást saman. Stundum er óheilbrigt kynlíf endurtekning á áfalli sem hefur hent einstaklinga á lífsleiðinni. Það snýst meira um að stjórna og stýra en að elska og upplifa. Í óheilbrigðu kynlífi eru báðar persónur hlutgerðar. það er ekki horft í augu og kynlífið getur verið einstrengingslegt og stundum eins og æfingahringur í ræktinni. Einstaklingar virðast þurfa meiri spennu með tímanum og ákveðinn tómleiki fer að blossa innra með báðum aðilum sem taka þátt í óheilbrigðu kynlífi. Í óheilbrigðu kynlífi er oft mikill valdamunur á milli einstaklinga, getur þá aldur eða efnahagur komið þar inn.
Ást snýst um samþykki og stuðning. Hún felur ekki í sér að fanga einhvern í samband eða byggir á von um eitthvað í framtíðinni. Hún byggir ekki á fantasíu eða að setja fólk undir sig eða yfir sig. Gert er ráð fyrir ákveðinni mennsku í samböndum og ekki er sú krafa á fólk að það sé fullkomið eða einhvern veginn öðruvísi en það er.
Heilbrigðir einstaklingar elska sjálfa sig fyrst og síðan annað fólk. Þeir sýna traust í verki og vita að ást er ákvörðun sem byggir á gagnkvæmu trausti, virðingu og vinsemd. Heilbrigðir einstaklingar stíga ölduna með makanum sínum og fara ekki þótt á móti blási í lífinu. Þeir kynna sig inn í samböndin sín og eiga auðvelt með að biðja um stuðning og hjálp þegar þörf er á. Eins geta þeir verið til staðar þegar það er viðeigandi.
Ástæðan fyrir því að við tölum um að ást sé ákvörðun en ekki tilfinning er sú að það eru óraunhæfar kröfur að gera til sambanda að fólk sé að upplifa einungis eina tilfinningu út sambandið. Heilbrigt er að vita að til eru margar tilfinningar sem munu koma upp í samböndum. Heilbrigð mörk færast til og fólk getur breyst með tímanum. Það á ekki að ógna sambandinu eða tilveru þess í framtíðinni.
Gangi þér alltaf sem best, Elínrós.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR.