Frestaði brúðkaupinu ítrekað vegna foreldra sinna

Helga hefur frestað brúðkaupinu sínu ítrekað vegna foreldra sinna sem …
Helga hefur frestað brúðkaupinu sínu ítrekað vegna foreldra sinna sem skildu fyrir 12 árum. Ljósmynd/Unsplash

Valgerður Halldórsdóttir fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá Helgu sem er að fara að gifta sig og er með nagandi kvíða yfir fráskildum foreldrum sínum. 

Sæl Valgerður.

Ég er að fara að gifta mig í september, sem ætti að vera mikið gleðiefni. Undirbúningurinn gengur vonum framar en eina vandamálið eru foreldrar mínir. Þau skildu fyrir tólf árum og var skilnaðurinn mjög erfiður og sárin virðast aldrei ætla að gróa. Þau eiga bæði nýjan maka og það er nánast ómögulegt að sjá fyrir sér þær aðstæður að þau geti hreinlega hist í brúðkaupinu en þau hafa bæði sagt að þau komi. Það eru hins vegar óteljandi hliðar á því sem valda mér kvíða. Satt að segja hef ég frestað því lengi að gifta mig út af þessu ástandi á þeim, en ætla ekki að gera það lengur. Hvað get ég gert?

Kveðja,

Helga

Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi og fjölskylduráðgjafi rekur fyrirstækið Stjúptengsl.is
Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi og fjölskylduráðgjafi rekur fyrirstækið Stjúptengsl.is mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sæl Helga.

Það er sorgleg staðreynd að sumir virðast ekki ná að vinna úr sínum skilnaði. Sérstaklega í ljósi þess að djúpstæður ágreiningur er ekki einkamál foreldra og hefur áhrif á alla þá sem að þeim standa. Rétt eins og þú segir sjálf þá hefur þú fram til þessa frestað því að gifta þig út af erfiðum samskiptum þeirra.

Jákvæðu fréttirnar eru að foreldrar þínir virðast ætla að mæta í brúðkaupið þitt þótt það muni örugglega valda þeim kvíða og streitu að óbreyttu. Það má gefa þeim plús fyrir það. Mikilvægt er að þú og tilvonandi maki þinn haldið ykkar striki og leyfið þeim ekki að hafa frekari áhrif á áform ykkar varðandi brúðkaup. 

Ég er nokkuð viss um að þau átti sig ekki alveg á því hvaða áhrif þau hafa haft til þessa, það er að þú hafir frestað því að giftast ástinni þinni þar sem þú treystir þeim ekki í sjálfu brúðkaupinu. Þú hefur örugglega þínar ástæður, en mikilvægt er að ræða við þau um líðan þína og hvað hægt sé að gera til að koma á móts við þau, þannig að líðan þeirra hafi sem minnst áhrif. Ég held að því meiri fyrirsjáanleiki sem verður, því betra fyrir ykkur öll. Með því að ákveða hvar hver á að sitja, hver gerir hvað og í hvaða röð og svo framvegis eykst fyrirsjáanleikinn. Vert líka að muna að hvert og eitt par „má og á“ að ákveða sjálft hvernig athöfnin eða veislan verður. Til að mynda er ekki nauðsynlegt að hafa „háborð“ í brúðkaupum, það má allt eins sitja kringum eld og grilla pylsur ef fólki hugnast svo. Það er ekki til „ein rétt leið“ til að lifa lífinu.

Í lokin langar mig að segja við foreldra þína: „Takið ákvörðun um að breyta samskiptunum. Það er vel gerlegt og margir sem hafa gert það á undan ykkur.“ Fyrir suma er nóg að taka ákvörðun með sjálfum sér en öðrum finnst hjálplegt að leita aðstoðar fagfólks, þá hvort í sínu lagi.

Með bestu kveðju,

Valgerður Halldórsdóttir hjá stjuptengsl.is 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valgerði spurningu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda