Hvernig færðu makann til að yfirgefa þig?

Linda Sigríður Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi.
Linda Sigríður Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum svo oft að skoða hvaða leiðir við ættum að fara til að láta sambönd okkar ganga upp en ég held að það geti verið okkur meinhollt að skoða stundum hvað við erum að gera sem gæti orðið banabiti sambandsins,“ segir Linda Sigríður Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi í sínum nýjasta pistli: 

Ég ætla hér að koma með nokkur ráð til þín sem gætu gagnast mjög vel ef ætlun þín er að ljúka sambandinu eða hjónabandinu og ég sá einhverstaðar að 11. desember er víst algengasti dagur skilnaða svo að líklega er talan 11 og lukkan sem við hana tengd tilkomin vegna þessa. (og þú hefur enn nokkra mánuði til athafna). 

Hér koma svo þessi 8 atriði:

  1. Rannsóknir hafa sýnt að númer eitt á sambandsslitalistanum eru framhjáhöld. Svo ef að þér liggur á að losna úr þínu sambandi þá er þetta nokkuð örugg leið til að losna hratt úr aðstæðunum. 
  2. Ekki hlusta á maka þinn og hans þarfir og óskir því að ef þú gerir það áttu það einungis á hættu að hann verði öruggur með sambandið og þig, og fari að líða aðeins of kósý þar. Það er stórhættulegt því að vellíðan og traust er kannski það lím sem heldur flestum samböndum gangandi.
  3. Ekki ræða það sem veldur þér gremju og pirringi eða það sem veldur því að þú vilt út úr sambandinu því að samskipti og lausnarmiðuð nálgun þar gæti leitt til þess að sambandið entist lengur en þú kærðir þig um.
  4. Sýndu hegðun eins og þá að hafa aldrei tíma fyrir makann og svaraðu ekki símtölum hans ásamt því að vera upptekinn öllum stundum með öðru fólki, vinnunni þinni og áhugamálum.
  5. Passaðu upp á það að lofa aldrei almennilega skuldbindingu og komdu með einhverjar ómerkilegar ástæður fyrir því afhverju þú vilt ekki eða getur ekki skuldbundið þig almennilega sambandinu og sjáðu hvort makinn/kæró flýr ekki af hólmi. Flestum tekst vel til með þetta trix nema þar sem hinn aðilinn er haldinn þráhyggju og sækir bara harðar að. Ef svo er þá er ekkert annað en að fara fram á nálgunarbann og leita að næsta hugsanlegu viðhengi sem lætur sér nægja skuldbindingalaust samband.
  6. Dreptu makann úr leiðindum með framkvæmdaleysi og ekki vera til í að framkvæma neitt annað en að fikta við sjónvarpsfjarstýringuna og flakka á milli stöðva. Með tímanum fer hinn aðilinn að leita út fyrir sambandið að skemmtilegheitum og þá er orðið stutt í slitin, þannig að ef þú vilt leitast eftir því að draga slitin aðeins á langinn þá er þetta lausnin.
  7. Vertu egoisti fram í fingurgóma og passaðu upp á að sambandið sé allt á þínum forsendum en ekki makans. Þú ákveður hvenær farið er út að borða, hvenær er ferðast, hvenær er farið í heimsóknir, hvenær þú „mátt“ fá vini í heimsókn og svo framvegis. Svo ef þú bætir dassi af alvarlegri gerðinni af andlegu ofbeldi þá held ég að þetta gæti virkað vel, sérstaklega á sjálfstæðar konur sem láta illa að stjórn og eru fljótar að koma sér frá slíkum aðstæðum.
  8. Að lokum er rétt að taka það fram að við eigum öll okkar ástartungumál sem virka best til að halda okkur í samböndum þannig að ef þú veist að snerting, orð, gjafir, þjónusta eða gæðastundir eru ástartungumál makans þá er mjög einfalt að stroka bara út nándina, tjáninguna, gerast nískupúki, nenna ekki að gera neitt fyrir hinn aðilann og eins og áður er nefnt, ekki gefa þér tíma til að sinna sambandinu og þá held ég að þetta muni takast hjá þér að lokum.

Gangi þér vel með að ljúka sambandinu þínu ef það er ætlun þín, en ef þig langar að gefa því framhaldslíf og gera það betra, þá einfaldlega snýrðu við þeim ráðum sem hér eru gefin, gerist uppreisnargjarn/gjörn og ferð þvert á það sem ég hef skrifað hér (Sem ég vona svosem að þú gerir).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda