„Mikil umræða er um þessar mundir um varnir gegn covid og sitt sýnist hverjum eins og gjarnan er og flestir eru sammála sjálfum sér. Sjálfur á ég unga systurdóttir sem er með bælt ónæmiskerfi og því hafa systir mín og mágur eðlilega farið verulega varlega síðustu 20 mánuðina og mæta sjaldnast þegar við systkinin hittumst til að taka ekki neina áhættu varðandi heilsu litlu telpunnar sinnar.
Þau eins og allir aðrir sem glíma við bælt ónæmiskerfi eiga sér fáar óskir heitari en að ónæmiskerfið virki. Bólusetningar og öll umræða um hvort það sé gagnlegt eða ekki snýst um hvort ónæmiskerfið okkar nær að verjast þeim árásum sem lífið býður okkur upp á. Ég er ekki menntaður í ónæmisfræðum og ætla því ekki að tjá mig um bólusetningar enda myndi það ekki gagnast nokkrum lifandi manni,“ segir Theodór Francis Birgisson klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni í sínum nýjasta pistli:
Rannsóknir undanfarinna ára hafa sýnt að jákvæðni byggir upp ónæmiskerfi líkamans og neikvæðni brýtur niður ónæmiskerfið. Fjöldinn allur af þeim sem veikjast alvarlega og fá sterka lyfjameðferðir sitja uppi með mjög laskað ónæmiskerfi sem oft og tíðum verður banamein viðkomandi. Fyrir mann sem vinnur við félagsvísindi og hefur paravinnu sem aðalstarf tekur það ekki nema örskot að tengja umræðu um ónæmiskerfi líkamans við ónæmiskerfi parsambanda.
Öll parsambönd eru samrunni tveggja lifandi einstaklinga og þar með hefur sú lífvera sitt eigið sjálfstæða ónæmiskerfi. Sum sambönd hafa sterkt ónæmiskerfi og sum hafa veikt kerfi. Í parsamböndum gildir því að jákvæðni í garð sambandsins og þar með talið líf makans og samskipti við upprunafjölskyldu makans hafa mikla þýðingu varðandi ónæmiskerfi sambandsins.
Rannsóknir Gottman Institute í BNA sýna að 80% parsambanda sem slitna gera það vegna slaks ónæmiskerfis sambandsins. Þar hefur parið allt með málið að gera, ólíkt því þegar einstaklingar hafa bælt ónæmiskerfi vegna fyrri veikinda eða eru fædd með bælt ónæmiskerfi eins og litla frænka mín.
Mig langar að gefa lesendum mínum innsýn inn í raunverulegt samtal mitt við raunverulegt par. Þar sem við búum í afar litlu samfélagi og gríðarlega mikilvægt að skjólstæðingar sem leita til fagaðila njóti fulls trúnaðar tek ég mér talsvert skáldaleyfi í frásögninni. Ég læt parið heita Huldu og Stefán en að sjálfsögðu eru það ekki rétt nöfn þeirra og eru ekki endilega gagnkynhneigt par. Ég gríp hér niður í frásögn samtalsins þegar ég hef spurt þau hvort þau ætli sér að vera saman:
Stefán varð hálf pirraður út í spurninguna og fannst það að þau væru komin til mín í samtalsmeðferð besta sönnun þess að þau ætla að vera saman. Ég bað hann að hafa þolinmæði með mér og segja mér af hverju hann vildi verða gamall með Huldu. Hann sagði að bragði það væri vegna þess að hann elskaði hana. Það svar kom mér ekki á óvart en ég átti aðra spurningu fyrir hann. Spurningu sem er gríðarlega mikilvægt að vita svarið við og samt eiga svo margir erfitt með að svara. Ég spyr hann af hverju hann elski hana.
Hann verður vandræðalegur og ég sé á svip Huldu að henni finnst þögnin óþarflega löng. Ég þóttist viss um að hann elskar Huldu sína en átta mig líka á svipstundu á að hann var ekki vanur að koma orðum að þeirri tilfinningu. Hann endaði með að stama upp úr sér „bara, hún er æðisleg“. Þar sem þessi spurning er svo mikilvæg gaf ég honum þetta ekki eftir og spurði „hvað er svona æðislegt við hana?“ Hann svaraði að bragði „bara allt“ og ég greip þann bolta á lofti og sagði „þá er nú ekki erfitt fyrir þig að nefna bara þrjú atriði sem gera hana svona einstaka“.
Auglitið sem hann sendi mér var ekki aðdáun en hann reyndi þó ekki að múta mér til að þurfa ekki að svara eins og ég hef stundum á tilfinningunni að karlmenn vilji gera. Að lokum fékk ég upp úr honum að Hulda er einstök mamma, dugleg og mjög skemmtileg. Þegar við héldum áfram að ræða þetta fór að flæða upp úr honum alls konar hlutir sem gera Huldu einstaka. Andrúmið í viðtalsherberginu hafði stórlega breyst til hins betra og ég enda þennan hluta samtals okkar Stefáns á að spyrja hann hvernig honum liði þegar hann væri að segja mér hvað hann elskar Huldu sína mikið.
Hann er orðinn meir og ég sé að það er talsverð vökvasöfnun í augum hans. Hann horfir á hana með tárvotum augum og segir mér að honum líði ótrúlega vel að segja þetta og ég sé á tárunum sem trítla niður kinnar Huldu að henni finnst líka mjög gott að heyra þetta. Ég sný mér því til hennar og spyr hana „Er hann duglegur að segja þér þetta?“ Svarið kom ekki á óvart „Nei - ég held bara að hann hafi aldrei sagt mér þetta fyrr“. Stefán er núna farinn að brynna músum og segir við sjálfan sig „maður er bara ekki í lagi“. Þegar ég spyr Huldu á hún auðveldara með að segja mér af hverju hún elski Stefán og ég fæ að heyra að hann sé ekki bara útlitið, það sé svo margir þættir sem gera hann frábæran. Hann sé frábær maður, frábær pabbi, traustur og veiti henni svo mikið öryggi. Á þessum tímapunkti er ég sjálfur farinn að tárast, ekki vegna þess að ég sé svona hissa á svörum þeirra, heldur vegna þess að skynja tenginguna sem er að verða á milli þeirra. Óafvitandi hafa þau brúað heilmikla gjá sem var á milli þeirra. Það hafði ekkert breyst hjá þeim annað en að undirliggjandi tilfinningar fengu farveg upp á yfirborðið.
Þessi stutta frásögn er dæmi um par sem er að styrkja ónæmiskerfið sitt. Öll pör lenda í einhverjum vandræðum í ferlinu við að byggja framtíð. Þau pör sem lifa af slíkt áreiti eiga það sameiginlegt að búa við gott ónæmiskerfi. Það er byggt með því að minna sig á kosti og gæði makans og játa þá tilfinningu upphátt fyrir hvort annað. Slík tjáning gerir makann ekki fullkomin(n) heldur breytir afstöðu þinni til makans.
Ekkert okkar veit hvernig covid mun þróast og við getum haft alls konar skoðun á því hvernig við eigum að takast á við veiruna. Ég minni samt á að ekkert okkar veit heldur hvernig sambandið okkar við makann mun þróast en þar höfum við allt um málið að segja. Ég legg því til að allir sem eru svo heppnir að vera í parsambandi keppist að því að styrkja ónæmiskerfi sambandsins.