„Hvar leitar 55 ára kona að manni?“

Að finna sér maka getur verið dágóð skemmtun.
Að finna sér maka getur verið dágóð skemmtun. Ljósmynd/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem hefur áhuga á að kynnast manni sem hæfir henni. Hún er bara óviss um hvar er best er að finna hann. 

Sæl kæra.

Ég er fráskilin og langar loksins að kynnast manni.

Mér er alls ekki sama hvernig hann er og kannski er ég vandlát.

Hvar leitar 55 ára kona að manni á svipuðum aldri  sem er ekki allur í ruglinu eða þegar í sambandi?

Ég er ekki mikil „stefnumótasíðna“ manneskja.

Kær kveðja, X

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sælar og takk fyrir bréfið. 

Til hamingju með þessa ákvörðun í lífinu. Það er mikil sjálfsvirðing fólgin í að eiga skilið að vera í sambandi. Það eru til nokkrar leiðir sem hægt er að fara til að prófa sig áfram á stefnumótum. Ég er mjög hrifin af því að nota tungumálið til að koma sér af stað í svona málum. 

Hvort heldurðu að sé líklegra að kona finni mann ef hún segir: Mig langar að finna mann sem ekki er í ruglinu eða í sambandi. Eða: Ég ætla að finna æðislegan mann til að giftast, sem er með sömu gildi og ég, sem ég laðast að líkamlega og hann að mér, sem gaman er að tala við og gera skemmtilega hluti með.  

Það er mjög algengt að þeir sem hafa gengið í gegnum skilnað eða upplifað erfiðleika í samböndum séu með neikvætt viðhorf til þess að finna sér maka. Sumir nota orðið vandlátir, til að verja það að vera áfram einir. Segja: Ég myndi vilja, í stað þess að segja: Ég ætla. Þetta er kannski fólk sem labbar inn á fateignasölur og segir: Ég ætla að kaupa þessa íbúð! En eru aðeins óvissari þegar kemur að samböndunum í lífinu sínu. Það er allt í lagi, en ef þú ert með marga sterka flotta parta og svo ertu óörugg á þessu svæði, þá getur verið áhugavert að skoða hvað býr þar að baki í dýpri vinnu með sérfræðingi. 

Ég get fullvissað þig um að það er til hellingur af flottum mönnum á þeim aldri sem þú talar um, sem eru á lausu og ef marka má vísindi og rannsóknir, þá beinlínis þurfa þeir á góðum konum að halda til að eiga innihaldsríkt og fallegt líf framundan. En flestar rannsóknir styðja þá niðurstöðu að karlmenn lifa lengur með góða konu sér við hlið. 

Það getur verið gott fyrir þig að vita að karlmenn breytast heldur mikið á þessu aldurskeiði lífsins sem þú ert að tala um, þannig að þeir verða með aðeins minna frumkvæði og testósterón magnið fer eilítið niður hjá mörgum þeirra. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að þú náir þér bara sjálf í draumamanninn þinn, bjóðir honum á stefnumót og leiðir aðeins vegferðina inn í sambandið til að byrja með. 

Ég heyrði eitt sinn að ef konur taka stefnumót föstum tökum, þá í versta falli kynnast þær fullt af góðum veitingastöðum og í besta falli enda þær í góðu hjónabandi eða sambandi. Svo þú hefur að mínu mati engu að tapa. 

Það getur verið flókið að finna sér mann í dag, sökum ástandsins og samkomutakmarkanna, en það sem flestir eru að upplifa í umhverfinu eins og það er núna, er að gott samband byrjar á fínum vinskap og hvet ég alltaf fólk til að kynnast áður en það ákveður hvað það ætlar að gera við vinskapinn. 

Af hverju æfir þú þig ekki bara í að horfa í augun og brosa til allra þeirra manna sem á vegi þínum verða í dag (sem ekki eru með giftingahring)? Þú getur náð augnsambandi við menn út í búð, í sundi, í ræktinni eða bara þegar þú ert úti að borða með vinkonum þínum.

Ég get hiklaust mælt með stefnumótasíðum, en að sniðganga þær þegar konur eru á lausu, er svipað því að vera lítið fyrir lyftur í 50 hæða húsi. Af hverju ættirðu að velja stigana? Þú hefur án efa ekki endalausan tíma og það hafa fjölmargir mjög áhugaverðir einstaklingar fundið ástina á forritum sem sniðin eru til að leiða fólk saman sem par. 

Ég gæti mælt með forritum eins og Tinder, Smitten, Hinge og Bumble, ef þú ert til í að vera í sambandi með einstakling sem býr ekki endilega í sama landi og þú. Svo eru til frábærar stefnumótasíður sem byggja á þeirri hugmynd að fólk kynnist í gegnum viðburði, líkt og My Social Calendar, ef þú ert að ferðast og langar að kynnast skemmtilegu fólki á lausu erlendis. 

Að lokum get ég mælt með því að finna sér sambandsmiðlara, það gæti verið góður vinur eða vinkona sem þekkir mikið af fólki sem er að leita að hinu sama og þú. Stundum er einnig gott að finna bara huggulegt fólk á samfélagsmiðlum og bjóða því á stefnumót. Sú leið er smávegis talnaleikur, því þú ert aldrei að fara að fá jákvætt svar alltaf, en þú ert þó að vinna í því að ná markmiðum þínum og að æfa þig í leiðinni. 

Þær konur sem ég vinn með sem eru að leita að ástinni, og eru með jákvætt viðhorf og að skemmta sér í þessu ferli, eru vanalega með nóg af vonbiðlum og stefnumótum á dagskránni sinni. Ég hef einnig hitt dásamlega fallegar og skemmtilegar konur sem eru hræddar við ferlið sem eru ekki að ramba á eitt einasta stefnumót. Svo ég held að viðhorf, forvitni og léttleiki skipti meira máli en allt annað þegar kemur að makaleit.  

Það eru til fjölmargar konur í landinu sem eru orðnar nokkuð þjálfaðar á þessu sviði, þær myndu ráðleggja þér að sækja samkomur, fara á kvikmyndir og tónleika sem karlmenn kunna að meta líka, til að auka líkurnar á að hitta áhugaverðan mann við þitt hæfi.  

En þú getur verið viss um að það er nóg af mönnum þarna úti fyrir þig. Þú finnur hann eða hann þig, þegar þú ert tilbúin til þess. Þangað til er gott fyrir þig að æfa þig. Mundu bara að þessi vegferð verður eins skemmtileg og þú ert opin fyrir að hún verði. 

Bestu kveðjur, Elínrós Líndal

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda