Elínrós Líndal ráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem langar að vita meira um kynheilbrigði, heilbrigða ást og sanngjörn samskipti.
Hæ.
Við hjónin höfum verið í allskonar vinnu með okkur sjálf og höfum verið lengi saman. Við þekkjum flesta króka og kima áfallavinnu, 12 spora kerfisins og höfum verið svolítið föst og átt erfitt með að vinna úr vandamálum okkar. Það sem ég er aðeins forvitin um núna er þjálfun í kynheilbrigði, heilbrigðum ástum og sanngjörnum samskiptum. Veistu um námskeið, bækur eða ráðgjöf sem fjalla meira um uppbyggingu á heilbrigðum samböndum en að fara ofan í gömul mál?
Kveðja, D
Sælar D og takk fyrir spurninguna þína.
Þessi spurning kemur eins og kölluð inn í umræðuna að undanförnu þar sem fjallað hefur verið um mikið af því sem ég myndi flokka sem andstæðu kynheilbrigðis og ástar.
Það eru til nóg af bókum, námskeiðum og efnisflokkum sem fjalla um óheilbrigð samskipti og eitraða ást og ofbeldi. Blessunarlega eru einnig fjölmargar leiðir fyrir ykkur hjónin að fara áfram í ykkar fallega ferli, þið þurfið að sjálfsögðu bara að meta það hvað er best fyrir ykkur að gera í framhaldinu.
Af því þú nefnir vinnu í 12 spora samtökum og ég er með mjög jákvætt viðhorf fyrir þeim, þá langar mig að benda ykkur á einstaka 12 spora fundi fyrir bæði pör og einstaklinga sem eru lengra komnir í sjálfsvinnu, þegar kemur að samböndunum sínum. Þetta eru það sem heita Sober relationships fundir sem finna má meðal annars í SLAA deild Los Angeles og á fleiri spennandi stöðum sem gaman er að heimsækja núna í gegnum netið.
Líkt og þú nefnir hér að ofan, vaknar oft þessi forvitni og löngun í að halda áfram að vinna með hluti sem eru farnir að ganga vel. Ást, nánd og kynheilbrigði er eitthvað sem ótrúlega gaman er að vinna með handleiðara eða í smærri hópum með fólki sem er á sama stað í bataferlinu sínu.
Það er stundum talað um að sönn ást sé að vinna í fortíðinni, að það sé gert fyrir sambandið en minna talað um árangurinn sem fólk nær með slíkri vinnu. Þú lýsir því svo vel í bréfinu þínu að það er von og bati í boði fyrir alla sem eru tilbúnir að leggja á sig vinnuna.
Þegar fólk með óörugg geðtengsl hefur unnið í málunum, er hætt að upplifa óróleika við innileg samskipti og nánd í nánum samböndum, þá myndast svigrúm til að fara í dýpri vinnu þegar kemur að samskiptum á öllum sviðum lífsins.
Ég myndi alltaf mæla með bókum sem skrifaðar eru af sérfræðingum sem sérhæfa sig í kynheilbrigði, sú sem leiðir þann flokk í dag að mínu mati er Dr. Alex Katehakis. Ég get hæglega mælt með Mirror of Intimacy: Daily Reflections on Emotional and Erotic Intelligence, bókinni sem hún skrifaði. Við sem höfum lært undir hennar handleiðslu höfum varið þriðjungi tímans í þeim hluta sambanda sem þú nefnir hér að ofan.
Þegar fólk er vanmáttugt gagnvart nánum samskiptum, í parasambandi, fer það vanalega í þrennskonar vinnu. Að stoppa það sem ekki er viðeigandi að vera að gera í ástarlífinu, það sem er að veikja sambandið og samskiptin og það sem er að eyðileggja líf einstaklinganna. Allt efni Dr. Patrick Carnes er áhugavert að styðjast við þar. Þá er farið í uppbyggingu á heilbrigðu sambandi og get ég mælt með 12 spora fundum í þeirri viðleitni. Í lokafasanum þar sem fólki langar að upplifa nýja og spennandi, heilbrigða hluti þar er efni Dr. Katehakis að mínu mati til fyrirmyndar. Erotic Intelligence: Igniting Hot, Healthy sex While in Recovery er einnig bók eftir hana sem ég get mælt með. If the Buddha married; Creating Enduring Relationships on a Spiritual Path er eins dásamleg bók sem allir ættu að lesa.
Varðandi þjálfun í kynheilbrigði þá mæli ég með að þið setjið ykkur markmið hvort fyrir sig um leiðir sem þið viljið elska og vera elskuð. Að þið komið svo saman og gerið með ykkur samning sem þið endurskoðið reglulega. Inn í þessa vinnu myndi ég alltaf setja reglulega 12 spora fundi þar sem meginþema er edrú kynlíf (e sober sex). Þeir fundir eru vanalega þannig uppsettir að konur sækja einn fund og karlar aðra. Ég mæli með því og aftur er Los Angeles SLAA deildin þar til fyrirmyndar. Þessir fundir eru ekki til hér.
Grundvallaratriði sem allir ættu að hafa að leiðarljósi er að fólk setur sér mörk í kynlífi og virðir mörk annarra. Heilbrigt kynlíf er þannig að báðir aðilar leitast við að tengjast hvort öðru og ef upp kemur tímabundin aftenging, þar sem fólk verður annarshugar og fjarrænt, þá þarf að fara aðeins ofan í það. Heilbrigt kynlíf skilur eftir sig góða tilfinningu innra með báðum aðilum. Fólk er tengt líkama sínum og líkama maka síns. Fólk talar saman og tengist og getur prófað sig áfram með léttleika, næmni og skilning í huga (e spontant). Fólk berskjaldar sig og talar um langanir og þarfir. Heilbrigt kynlíf er vanalega athöfn þar sem jafnvægi og hófsemi er gætt, forvitni og fylgst er með viðbrögðum beggja aðila af næmni. Þar ríkir traust, skilningur og samtal. Þar ríkir trúverðugleiki og sanngirni.
Þeir sem stunda heilbrigt kynlíf, upplifa aukið magn seretónin í líkamanum, það minnkar streitu, eykur líkamlega vellíðan, veitir frið og ró og eykur hamingju í samböndum. Eins veitir það andlega vellíðan og eykur sjálfstraust hjá fólki.
Mín skoðun er sú að þú ástundar heilbrigða ást í parasambandi með því að setja sjálfa þig í fókus og veltir því reglulega fyrir þér: Hvernig er ég að elska mig í dag? Allt annað er svo afsprengi þess. Þú berð ábyrgð á þér og þinni líðan í ástarsambandi og svo mætist fólk vanalega á þeirri miðju leið. Þá myndast svigrúm til að þú getir verið til staðar fyrir aðra og þú getir leyft öðru fólki að vera til staðar fyrir þig.
Þegar kemur að sanngjörnum samskiptum, þá mæli ég hiklaust með nokkrum tímum hjá sérfræðingi sem afhendir ykkur vel rannsakað plagg um það sem telst til sanngjarna samskipta. Fyrir pör eins og ykkur, ætti að taka öll erfið samtöl undir handleiðslu með svona samning. Það er hreint ótrúlegt hvað sanngjörn samskipti eru vandrataður vegur. Megin stefið í svona samningum er þetta hefðbundna, að við erum sanngjörn í samskiptum ef við gerum ráð fyrir því að maki okkar er ekki eins og við. Að við setjum okkur mörk í tali, hegðun og hugsun. Við erum með jákvætt viðhorf fyrir maka okkar, einnig þegar við verðum ósammála og við leitumst við að útskýra mál okkar í nokkrum setningum í stað þess að halda langa fyrirlestra. Eins má ekki gleyma að við tölum um málin sem dúkka upp í sambandinu út frá: Mér líður og mér finnst, í stað þess að benda á hinn aðilann og ásaka. Svo tökum við það sem kemur upp alvarlega og gerum samninga sem binda undir þau efni og höldum áfram. Það er eins sanngjarnt að vera fljótur til fyrirgefningar.
Þetta er það sem mér dettur helst í hug fyrir ykkur.
Gangi ykkur sem best.
Kveðja, Elínrós Líndal.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR