Maðurinn sefur yfir sjónvarpinu - hvað er til ráða?

Það er hægt að stjórna hlutunum í kringum sig með …
Það er hægt að stjórna hlutunum í kringum sig með því að gera ekki. Stundum verða einstaklingar vanvirkir inn á heimilinu eða á vinnustaðnum vegna veikinda, en stundum er það vegna stjórnunartækni sem felur í sér að loka á annað fólk og hunsa það. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem dreymir um að maðurinn hennar vakni til lífsins og taki þátt í því með henni. 

Sæll  

Ég er með manni sem mér þykir afskaplega vænt um en hann er enginn félagi. Flest kvöld sefur hann  yfir sjónvarpinu, það er frekar erfitt að fá hann eitthvað með mér og það er yfirleitt ég sem tala og hann svarar ekki einu sinni, sem fer frekar í taugarnar á mér. Þegar við erum innan um aðra sem er farið að vera mjög sjaldan segir hann oftast mjög lítið eða jafnvel ekkert. Ég hef líka tekið eftir að vinafólkið kemur sjaldnar til okkar heldur en hinna í vinahópnum og er mikið hætt að bjóða okkur.  Hvað er til ráða með hann? Er þetta þunglyndi?

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sælar og takk fyrir bréfið. 

Það er erfitt að segja hvort um þunglyndi sé að ræða, nema að hann fari til sérfræðings og láti greina sig þar. Hann gæti verið að kljást við allskonar hluti. Mér dettur í hug að svara þér út frá kenningum um vanvirkni í samskiptum eða laumgrimmd (e passive aggressive). Ég hef ekki ennþá fundið gott íslenskt orð yfir hugtakið, en ég tel þig geta komist á aðeins annan stað ef þú skoðar þetta hugmyndakerfi. 

Bókin sem ég mæli með fyrir þig að lesa er: Living with the Passive-Agressive Man, Coping with Hidden Aggression-from the Bedroom to the Boardroom, eftir Scott Wetzler.

Aðferðirnar sem Wetzler mælir með í bókinni eru leiðir til að fara ekki í fórnarlambið, bjargvættinn eða ásakanda í samskiptum við einstaklinga sem eru vanvirkir í samskiptum eða laumgrimmir.

Dæmi um laumgrimman einstakling í sjónvarpi gæti verið Homer Simpson. Hann er ljúfur eins og lamb en tekur litla sem enga ábyrgð heima hjá sér og er á köflum að gera Marge, konuna sína, og börn sturlaða. Öll hegðun fjölskyldunnar í kringum hann verður ýkt á meðan nálin virðist ekki hreyfast í honum.

Wetzler stingur upp á eftirfarandi nálgunum í málum sem þessum.  

Ef þig langar í kvikmyndahús með laumgrimmum einstaklingi þá er best að ákveða kvikmyndina, kvikmyndahúsið og tíma. Láta einstaklinginn vita degi áður að ef hann vill koma með í bíó, þá sért þú að fara og hann er velkominn með. Þú tilkynnir hvenær þú munt leggja af stað í bílnum þínum og býður honum með eða að hitta þig í kvikmyndahúsinu. Þannig verður það að hann komi ekki, mjög áberandi afstaða hans til málanna. Í stað þess að þú farir í óheilbrigð samskipti áður en lagt er af stað og allt fari í háaloft og spjótin beinist þá að þér, fyrir að vera vandamálið. Sem þú ert svo sannarlega ekki. 

Þú afhjúpar vanalega laumgrimma einstaklinga með því að fara ekki inn í stjórnleysið sem á sér stað inn í þeim. Þú stígur í raun og veru inn í að lifa þínu draumalífi og býður honum að taka þátt í því, en sýnir engin viðbrögð þó hann taki engan þátt. Því það er eitthvað sem þú veist að hann er hvort eð er ekki að gera. 

Til að halda geðheilsunni í svona samskiptum er mikilvægt að vinna með sérfræðingi í að skoða hvort annað foreldrið í æsku þinni hafi verið laumgrimmur líka og þá hvernig barnið lærði að lifa af inn á þannig heimili. Um leið og eitthvað slíkt er fundið, þá er alltaf hægt að taka ábyrgð á því að hafa valist inn í svona samband og taka svo ákvörðun hvort þú viljir halda áfram að vera í því. 

Hjónabönd og sambönd eru ekki refsivist og ef annar aðilinn er orðinn vanvirkur eða veikur, en sýnir ekki vilja til að ræða um það, þá telst slíkt til alvarlegra mála. Sér í lagi þar sem aðstandendur verða oft jafn veikir og sá sem er í vanvirkninni er orðinn. 

Að einangra sig og að vera ekki í samskiptum við annað fólk er ekki heilbrigt, svo síður sé. 

Það eru margir sem lifa góðu lífi inn á heimili með laumgrimmum einstaklingum, því lífið er aldrei svart/hvítt og allir með ákveðna styrkleika þó þetta sé kannski eitthvað sem maðurinn þinn gæti verið að fást við. 

Laumgrimmir missa vanalega grímuna niður og verða mjög reiðir og/eða hræddir eftir að aðferðir Scott Wetzler hafa verið notaðar á heimilinu í tíma. Því laungrimmir upplifa ákveðna ást í hegðun makans þegar allt snýst um þá. Um leið og þú sem dæmi, ferð bara að lifa lífinu, bjóða fólki heim og að fara út eins og þig langar, þá þarf oft sá sem hefur stjórnað með því að gera ekki, að endurskoða leiðirnar sem notaðar eru í lífinu til að fá athygli. 

Hin hliðin á þessu öllu er svo sú staðreynd að laumgrimmir, eru oft einstaklingar sem lifðu af í æsku sem týnda barnið. Þurftu að fela sig í átökum foreldra sinna eða upplifðu sig mjög vanmáttuga inn í kjarnafjölskyldu sinni. Þeir eiga ekki rödd inn í samskiptum og eru með þá grunnhugmynd um sig að ef einhver kynnist þeim alveg, þá verður þeim hafnað. 

Ég held að flest okkar hafi orðið laumgrimm í einhverjum aðstæðum en trúi að hægt sé að komast út úr þannig ástandi með því að vera opinn, forvitinn og að æfa sig í að hafa skoðun og rödd inn í aðstæðum. 

Gangi þér alltaf sem best. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Freysteinn Guðmundur Jónsson: Sefur
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda