Ásgeir var misnotaður alvarlega af konu 13 ára gamall

Ásgeir Ásgeirsson eða Geirix eins og hann er oft kallaður …
Ásgeir Ásgeirsson eða Geirix eins og hann er oft kallaður ætlar ekki að vera inni í skápnum. Ljósmynd/Facebook

Ljósmyndarinn Ásgeir Ásgeirsson, eða Geirix eins og hann er oft kallaður, var misnotaður alvarlega þegar hann var 13 ára af. Hann segir að viðmót Stigamóta hafi verið að skella skuldinni á hann sjálfan.

„Ef ég hefði ekki haft samtökin BDSM á Íslandi til að leita til á 18. aldursári, væri þetta sennilega ekki skrifað þar sem ég sá engan tilgang með að lifa. Tilfinningalega var ekkert sem hélt mér gangandi og þegar ég leitaði til Stígamóta á miðjum þrítugsaldri voru þeirra viðbrögð þau að skella skuldinni á mig, ég hefði verið karlmaðurinn (13 ára gamall nörd) og hefði vel getað stöðvað það sem gerðist. Viðbrögð mín þegar fyrsta brotið átti sér stað, þegar ég var 13 ára gamall, voru þau að ég fraus alveg og varð síðan í framhaldinu aðeins skelin af sjálfum mér. Ég tapaði öllum tilfinningum. Ég setti upp trúðsgrímuna eins og mörg okkar gera þegar við vitum ekki hvernig við eigum að hegða okkur,“ segir Ásgeir í færslu á Facebook.

„Annað brotið átti sér stað þegar ég var 19 ára gamall. Ég var þá á bar með vinum, þegar byrlað var fyrir mér. Klukkan hefur líklega verið um níu að kvöldi. Það litla sem ég man er að fullorðinn karlmaður, með aðstoð annars ungs manns, misnotaði mig svo hrottalega að þegar ég rankaði við mér í strætóskýli við Kringluna klukkan að ganga sex morguninn eftir, þurfti ég í neyð minni að hringja í pabba vinar míns, sem þá starfaði sem leigubílstjóri í heimabænum, til að sækja mig. Þegar hann sá mig sitja þarna í strætóskýlinu snemma morguns með blóðpoll á rassgatinu, áttaði hann sig greinilega á hvað hefði gerst. Hann sagði ekkert, setti teppi í aftursætið og keyrði mig heim, rukkaði mig ekki einu sinni og minntist aldrei á það við mig síðar, blessuð sé minning hans. Það var ekki fyrr en áratugum síðar, þegar Jóhannes Kr, blaðamaður greip manninn glóðvolgan við rannsóknarstörf sín, sem andlit gerandans rifjaðist upp fyrir mér. Um var að ræða dæmdan barnaníðing,“ segir hann jafnframt.

„Þriðja skiptið var ég í kringum 24 ára aldurinn að leita að leikfélaga og endaði með konu sem var ekki bara eldri, heldur mun stærri og sterkari en ég. Hún nýtti sér yfirburðina og hafði fljótt náð að binda mig niður þrátt fyrir að rætt hafði verið um að hlutverkin yrðu á hinn veginn og nauðgaði mér síðan heila nótt svo hrottalega að þegar hún henti mér út á nærfötunum með restina af fötunum í fanginu keyrði ég og lagði hjá bensínstöð nálægt, klæddi mig eins og ég best gat, sat, reykti og hugsaði hvar ég gæti keyrt út í sjó á nægilega mikilli ferð til að rotast örugglega við höggið og drukkna. Fyrst núna um daginn fæ ég svo að vita að þarna var það stundað að „laða“ karlmenn til skyndikynna - undir ýmsum formerkjum, taka allt upp á myndband og fjárkúga þá. Því miður hef ég sennilega verið of lítill fiskur eða eitthvað. Það breytir því ekki að mér nauðgað á svo ofbeldisfullan hátt, að ég var allur marinn og fjólublár á vissum stöðum eftir þetta og gat varla gengið fyrir kvölum. Ásgeir kærði þetta ekki því hann skammaðist þín svo mikið. Ég hugsaði bara um einn hlut, það var að enda líf mitt enda fannst mér ég ekki vera neitt. Ég hefði sennilega endað á að fá bréf um að kæra hefði verið felld niður. Ég skammaðist mín líka svo mikið að hafa stokkið á skyndikynni í BDSM og orðið mér til skammar sem og að mér fannst orðsporið mitt ónýtt. Ég varð aftur skel - vann bara og lokaði minninguna inni í hausnum þangað til á endanum að ég brotnaði saman ekki fyrir löngu síðan - enda hafði ég þá hlustað á manneskju sem hafði lent í ennþá verri hlutum og fannst mér ég þá ennþá meiri aumingi, bara ræfill sem átti þetta skilið og meira til. Fannst ég alveg eins geta gengið um með skilti og auglýst að ég væri aumingi og það væri auðvelt að plata mig og nauðga mér - ég myndi ekki kæra enda viljalaust verkfæri í höndum viðkomandi, myndi sennilega heldur ekki kála mér þar sem ég hræddist dauðann of mikið og orðsporið mitt í ruslinu.“

Ásgeir segist hafa verið svo hræddur um orðspor sitt að hann lét sig hverfa ef fólk fór að ræða BDSM eða eitthvað í þeim dúr.

„Til dæmis, þegar Guðmundur í Byrginu var tekinn við að misnota stúlkur á fullu, þá hálfpartinn dó ég innan í mér. Þarna var maður á ferð sem misnotaði stúlkur sem voru á sínu versta tímabili og notaði nafn BDSM við það. Ég var hreinlega orðin logandi hræddur um að ef fólk kæmist að því að ég væri BDSM hneigður, þá yrði ég stimplaður og síðan útskúfaður sem einhver viðbjóður. Ég skammaðist mín svo eftir þetta allt að ég reyndi einu sinni að fyrirfara mér með því að skera mig. Ljóskúpull hafði brotnað er ég var eitt sinn einn heima og notaði ég eitt brotið til þess ég skar mig „rétt,“ en aldrei þessu vant storknaði blóðið mun hraðar en ég átti að venjast og rankaði ég við mér liggjandi uppi í rúmi, grár eins og gamalmenni af blóðleysi með blóðpoll sem ég hafði aðeins um klukkustund til að þrífa upp áður en kæmist upp um tilraunina. Mér tókst það og sagðist hafa skorið mig á glerbroti.“

Hann segist hafa síðan þá verið með lítið sjálfstraust og fundist hann sjálfur einskis virði.

„Ég hef haft nánast ekkert sjálfsálit, vantreysti sjálfum mér með yfirleitt allt nema eitt, og það er BDSM, þar sem ég lagði allt í sölurnar í að læra allt sem ég gat. Það var mín leið til að vera umkringdur trausti, öryggi og samþykki, sem mér fannst mikilvægara en nokkuð annað. Svo langt gekk þetta að ég hætti í BDSM senunni í 13 ár eftir að ég kynnist Rósu. Hún hafði fulla vitneskju um að ég væri BDSM hneigður, en ég var svo hræddur um að spilla sambandinu við fyrstu manneskjuna sem hafði gert mig hamingjusaman, tekið mér eins og ég var og ekki bara það, heldur sýnt mér ást sem engin hafði gert áður. Ég lokaði af þann hluta af mér þó það væri helvíti fyrir mig. Mér leið illa, ég stundaði nánast ekkert vanillukynlíf, enda ekki alveg mitt „thing“ og því sennilega vonbrigði fyrir Rósu, en hún fyrirgaf mér það, svo góðhjörtuð var hún við mig. Á meðan skammaðist ég mín fyrir það að geta ekki stundað „venjulegt“ kynlíf þar sem ég fékk hreinlega ekkert út úr því, hvorki fullnægingu né nokkuð annað, það æsti mig ekki einu sinni upp. Ég var kominn á fremsta hlunn meira að segja að biðja heimilislækninn minn um Viagra til þess eins að geta „gagnast“ Rósu þrátt fyrir að ég vissi að ég hefði ekkert uppúr því annað en vonandi sáðlát og við gætum eignast drauminn okkar, barn eða börn.“

Ásgeir segist hafa verið í BDSM skápnum í meira en 30 ár.

„Ég hef aldrei þorað út úr honum af ótta við vinnu- og vinamissi. Það sem hræðir mig lang mest núna að einhverjir telji mig bara ofbeldismann og pervert af verstu sort eftir umræður síðustu daga,“ segir Ásgeir.

Hægt er að lesa færsluna í heild sinni hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda