„Stjúpsystir mín fær allt frá minni fjölskyldu en ég og bróðir minn fáum ekkert frá hennar. Hvað áttu við spurði ég? Sko, mamma hefur sífelldar áhyggjur af því hvernig henni líði og gerir allt fyrir hana en pælir ekkert í okkur. Hún lætur stundum eins og hún sé meiri mamma hennar en okkar, kaupir föt, fer á handboltaleiki hjá henni og svo býður hún henni með okkur í allt af því að hún er í fjölskyldunni. Amma og afi gefa henni gjafir eins og okkur, en við fáum ekkert frá hennar fólki, svo er pabbi hennar ekkert að pæla í því hvernig mér eða bróður mínum líður. Hann fer oft eitthvað með stjúpsystur minni án þess að bjóða okkur systkinunum með. Mamma segir að það sé af því að við erum tvö en hún bara ein,“ Valgerður Halldórsdóttir fjölskyldufræðingur rekur fyrirtækið stjúptengsl.is. Hún skoðar samskipti í stjúpfjölskyldum í nýjum pistli:
Það getur verið óþægileg upplifun fyrir börn að finna þegar athyli foreldris fer ekki aðeins á nýjan maka, heldur líka börnin hans. Hvar er það í þessum breytingum? Að sjálfsögðu er gott að leggja sig fram í stjúpforeldrahlutverkinu hinsvegar er mikilvægt að skapa ekki um leið útundantilfinningu hjá sínum eigin börnum og ýta undir þann missi sem þau geta fundið, þegar tími og athygli foreldris dreifist á fleiri einstaklinga en áður. Jafnvel þó börnin séu í sjálfu sér sátt við þá. Ef barni finnst það hafa „tapað foreldri“ og að það fái að auki ekkert í staðinn ýtir það undir óánægju og vanlíðan þess, sem bitnar ekki bara á barninu sjálfu heldur öllum í stjúpfjölskyldunni. Hætta er á að fjölskyldan klofni sífellt upp í fylkingar þegar eitthvað á móti blæs við þessar aðstæður,
Ljóst er að móðirin sem hefur lagt sig fram við að búa til tengsl við stjúpdóttur sína en á kostnað tengsla við sín eigin börn, og faðirinn og sem ræktar tengsl við dóttur sína en leggur sig ekki fram við að búa til tengsl við stjúpbörnin sín, bera sameignlega ábyrgð á þeirri óánægju sem upp er komin hjá börnum konunnar og þeirri spennu sem kann að myndast á heimilinu.
Það er að auki líklegt að konan sjálf finni smá saman fyrir vaxandi vanmætti og gremju, bæði gagnvart nöldrinu í sínum eigin börnum yfir stjúpdóttur hennar og út í maka sinn vegna áhugaleysis hans á að tengjast hennar börnum. Kannski er sanngjarnara að ætla honum athugunarleysi en áhugaleysi á hennar börnum. Óvissan um hvað á og má segja og finnast í stjúpfjölskyldum gerir það oft að verkum að hlutirnir eru ekki ræddir strax.
Til að búa til sterka stjúpfjölskyldu er lykilatriði að rækta hvert og eitt samband í fjölskyldunni. Móðirin þarf stundum að gefa sínum börnum tíma án stjúpdóttur sinnar og faðirinn stjúpbörnum sínum án dóttur hans, en á sama tíma þurfa þau að gefa sínum eigin börnum tíma án stjúpbarna og stjúpforeldri. Við getum kannski ekki alltaf stýrt því sem aðrir gera eða gera ekki, eins og afa og ömmu kynslóðin en við berum ábyrgð á því hvað við gerum eða gerum ekki til að fjölskyldulífið gangi betur. Flest börn verða rólegri og tilbúnari að deila foreldrum sínum með öðrum séu þau örugg um ást þeirra og athygli.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valgerði póst HÉR.