Að fljúga til og frá New York héðan samsvarar því að fólksbíl sé ekið fjóra hringi í kringum Ísland út frá CO2 losun á hvern flugfarþega. Þetta kemur fram í hlaðvarpsþættinum Ekkert rusl sem er í umfjón Margrétar Stefánsdóttur og Lenu Magnúsdóttir.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair er gestur nýjasta þáttarins. Hann er þeirrar skoðunar að stjórnvöld í hverju landi eigi að búa til hvata fyrir fyrirtækin til þess að þau fari í nauðsynlegar aðgerðir í þeim tilgangi minnka kolefnislosun en segir lykilþáttinn í fluggeiranum vera þróun sjálfbærs eldsneytis. Þar liggi mestu áhrifin sem skipt geta máli og fært nálina, eins og Bogi orðar það.
„Markmið okkar hjá Icelandair er að minnka kolefnissporið um 50% fyrir árið 2030 og er viðmiðið þá kolefnislosun Icelandair árið 2019, “segir Bogi.
IATA, alþjóðleg samtök flugfélaga stefni að því að flugbransinn verði kolefnishlutlaus árið 2050.
„Við verðum farin að fljúga á rafmagnsknúnum hreyflum í innanlandsflugi fyrir 2030. Þetta verða minni vélar en við notum í dag en Ísland getur orðið forystuþjóð í þessu,“ segir Bogi.
Hlaðvarpsstjórnendurnir Lena og Margrét eru mjög spenntar fyrir ferðalögum. Þær voru einu sinni flugfreyjur og fengu þá ferðabakteríuna í sig sem þær losna seint við. Lena nefnir hugmyndir um að létta vélarnar eins og að spara bláa klósettvatnið. Hún vísar einnig í hugmynd sem kom fram á starfsmannafundi þegar ein flugfreyjan lagði til að flugþjónustufólk færi í átak og myndi létta sig, hugmynd sem mæltist nú misvel fyrir hjá starfsfólki Icelandair. Svo viðrar Lena það við Margréti að ef hún myndi ferðast léttar þá gæti það fært nálina en Margrét hefur í gegnum tíðina sérhæft sig í að nýta öll leyfilegu 20 kílóin þegar hún ferðast. Bogi leggur áherslu á að Margrét verði að þróa með sér samvisku í þessum efnum.
Icelandair er stöðugt að leita leiða til þess að minnka kolefnissporið og með tilkomu nýju MAX vélunum lækkar það um 20-30%. Einn minni liður í þessari viðleitni er að flugfarþeginn getur pantað sér mat fyrirfram, matseðillinn er sagður fjölbreyttari en sá sem býðst þegar komið er um borð og þetta á að stuðla að minni sóun. Þá er einnig stefnt að því að flokka betur rusl um borð en reglugerðir varðandi smitsjúkdóma hefur reynst flugfélögum fjötur um fót í flokkunarmálum að sögn Boga.
Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is.