Ólafur Garðarsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá ekkju sem situr í óskiptu búi.
Sæll Ólafur.
Ég er ekkja og bý í óskiptu búi. Nú langar mig að greiða út fyrirframgreiddan arf til annars af tveimur afkomendum, ákveðna upphæð. Hvernig fer það fram og er greiddur skattur af því? Ef svo er, þá hvaða prósenta?
Kveðja, SB
Sæl og takk fyrir spurninguna.
Þér er heimilt að fyrirframgreiða arf til annars af tveimur afkomendum en sá arfshluti kemur þá til frádráttar erfðahluta viðkomandi við endanlegt uppgjör á dánarbúi þínu. Um fyrirframgreiddan arf gilda sömu reglur og þegar arfur er greiddur út eftir andlát og framkvæmdin er tiltölulega einföld. Þú fyllir út erfðafjárskýrslu sem nálgast má á netinu og sendir hana útprentaða til viðeigandi sýslumannsembættis. Þar er hún yfirfarin og sé hún í lagi er þér og væntanlegum erfingja send bréfleg tilkynning um greiðslu erfðafjárskatts sem er 10%. Gjalddagi greiðslu er yfirleitt tíu dögum frá dagsetningu bréfsins og eindagi mánuði síðar.
Útfylling erfðafjárskýrslu er ekki mjög flókin en vefst samt stundum eðlilega fyrir fólki sem er að gera þetta í fyrsta skipti. Langflestir lögmenn eru orðnir sjóaðir í þessu og því er auðvelt að leita sér aðstoðar.
Kær kveðja,
Ólafur Garðarsson hrl.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR.