Hann braut upp hurðina og frelsissvipti Björk í sex tíma

Björk Lárusdóttir er gestur hlaðvarpsins Sterk saman.
Björk Lárusdóttir er gestur hlaðvarpsins Sterk saman.

Björk Lárusdóttir er 27 ára kona sem á stóra sögu. Hún er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman. Hún gekkst nýverið undir kynleiðréttingu í Taílandi en hún vissi frá unga aldri að hún hefði fæðst í röngum líkama. 

Hún segir frá því hvernig hún reyndi að þröngva sér inn í box samfélagsins og uppskar mikla vanlíðan.

„Mamma og pabbi leituðu til barnasálfræðings þegar ég var lítil og fóru að ráðum hans. Þau vildu auðvitað að mér liði sem best. Ráðin voru að út á við væri ég klædd eins og strákur og væri í raun strákur en heima mátti ég vera sú sem ég var, í kjólum og því sem mig sjálfa langaði,“ segir Björk og játar hún hafi orðið fyrir aðkasti í skóla, sem flokka megi sem einelti. 

„Ég var svo heppin að tvíburabróðir minn passaði alltaf upp á mig og hans vinahópur en ég var alltaf með mínum vinkonum,“ segir hún og bætir við að þetta hafi í raun ekki orðið erfitt fyrir alvöru fyrr en á kynþroskaskeiðinu.

„Það var erfitt að vera stelpa en fá hár í andlitið, röddin fór að breytast og hárin á fótunum komu.“

Í hlaðvarpsþættinum segir Björk að hana hafi sárlega vantað fyrirmyndir í líf sitt, því enginn hafi verið eins og hún. 

„Ég man vel eftir viðtali í sjónvarpinu við Völu Grand og hugsaði að ég væri eins og hún en svo varð hún brandari ársins, greyið konan. Í alvöru! Þá hugsaði ég bara: Æi, ég er búin að fá nóg af þessu.“

Björk hefur farið í gegnum mörg tímabil, þar sem hún var á flótta undan tilfinningum sínum, vanlíðan og hvernig hún ætti að komast af í þessum flókna veruleika.

„Ég hef flúið í áfengi og vímuefni, svo tekið mig á í því. Ég stundaði á tímabili ákveðna áhættuhegðun sem fólst í að hitta menn á netinu, því ég þráði viðurkenningu,“ segir hún og tekur fram að í dag þurfi hún enga viðurkenningu nema frá sjálfri sér.

Allt síðasta ár var erfitt í lífi Bjarkar. Ekki síst síðasta sumar, þegar hún varð fyrir fólskulegri líkamsárás manns sem kom inn á heimili hennar, nauðgaði henni og frelsissvipti. Björk upplifði mikið áfall og endaði í kjölfarið inni á geðdeild.

„Hann braut upp hurðina heima hjá mér og ég var frelsissvipt í um sex tíma þar sem hann nauðgaði mér oft, læsti mig inni í herbergi, fór fram og kom aftur.“

Í hlaðvarpsþættinum ræðir hún opinskátt um árásina og hvernig það æxlaðist að hún fór til Taílands í kynleiðréttingu. Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþáttinn í heild sinni HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál