Síðasti séns til að giftast ókeypis

Inga Auðbjörg K. Straumland, formaður Siðmenntar, segir Hoppað í hnapphelduna …
Inga Auðbjörg K. Straumland, formaður Siðmenntar, segir Hoppað í hnapphelduna vera húmaníska þjónustu. Ljósmynd/Aðsend

Siðmennt býður upp á ókeypis hjónavígslur á mánudaginn kemur, hinn 22. ágúst. Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, segir félagið vilja vekja athygli á kostum þess að pör séu í hjónabandi þegar eitthvað kemur upp á og einnig vekja athygli á því að nú séu síðustu forvöð fyrir pör að láta gefa sig saman með stuttum fyrirvara. 

„Við tökum eftir því að fólk hefur látið það sitja á hakanum að gifta sig. Það er búið að vera Covid og fólk nennir ekki að skipuleggja margra milljóna króna brúkaup sem það veit ekki hvort það geti haldið,“ segir Inga. 

„Íslendingar eru kannski helst til sein að gifta sig, yfirleitt giftir fólk sig eftir að það eignast börn, sem er ólíkt því sem tíðkast í mörgum öðrum löndum,“ segir Inga og bætir við að það séu skýr lagaleg réttindi sem fylgja því að vera í hjónabandi. 

Hún segir það oft koma fólki í opna skjöldu þegar eitthvað kemur upp á að fólk sem ekki er í hjónabandi hafi ekki sömu réttindi og gift fólk. „Það er kannski áhætta falin í því að gera það ekki ef fólk á börn og fasteign,“ segir Inga. 

„Við lítum á það sem húmaníska þjónustu að bjóða fólki upp á að gifta sig, með engum tilkostnaði okkar megin,“ segir Inga.

Lögin breytast 1. september

Ástæðan fyrir skyndibrúðkaupsdeginum er líka að lög er varða hjónavígslur breytast núna um mánaðarmótin. Þá þarf fólk að fá útgefin könnunargögn hjá sýslumanni sem Inga segir að geti þýtt lengri biðtíma en áður.

„Þá þarf að fara í gegnum sýslumann með helminginn af ferlinu, sem þarf ekki núna,“ segir Inga og bætir við að nú taki það yfirleitt aðeins nokkrar klukkustundir að fá öll tilskilin gögn fyrir hjónavígslu. 

„Þetta hefur lítið verið auglýst hjá bæði sýslumanni og ríkinu og því ákváðum við að drífa í þessu,“ segir Inga.

Ný lög taka gildi um mánaðarmótin er varða hjónavígslur.
Ný lög taka gildi um mánaðarmótin er varða hjónavígslur. mbl.is/Thinkstockphotos

Meira glimmer en hjá sýslumanni

Inga segir hjónavígslurnar næsta mánudag auðvitað ekki verða jafn persónulegar og vanalega er hjá Siðmennt, en að öllu verði þó tjaldað til. „Það verður tónlistarfólk á svæðinu og selfíbox. Þetta verður svona svipað og hjá sýslumanni nema meira glimmer,“ segir Inga. 

Vígslurnar fara fram í Höfuðstöðinni á Rafstöðvarvegi og þurfa áhugasöm pör að skrá sig á vef Siðmenntar

Hoppi pör í hnapphelduna á mánudag hjá Siðmennt sparar það því talsvert, en hjónavígsla hjá félaginu kostar 70 þúsund fyrir þau sem ekki eru skráð í félagið. Fyrir félagsmenn er 22.500 króna afsláttur á mann. Hjá sýslumanni kostar 10 þúsund krónur að láta gefa sig saman. 

Fleiri vígslur en allt árið 2021

Árið 2022 hefur verið mikið brúðkaupsár, enda heimsfaraldurinn í rénun. Það sem af er ári hafa fleiri hjónavígslur farið fram hjá Siðmennt heldur en allt árið 2021. „Árið 2021 var á pari við árið 2019, en það voru auðvitað miklu færri athafnir árið 2020 þegar heimsfaraldurinn hófst,“ segir Inga. 

Hún segir brúðkaupsvertíðina hafa lengst í báða enda síðustu ár og nú séu mun fleiri sem vilja gifta sig að vori eða að hausti. Það séu mörg brúðkaup á dagskrá í september og október. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda