„Hver er búinn að smita þig af kynvillu!?”

Páll Óskar Hjálmtýsson er gestur í hlaðvarpinu Karlmennskan.
Páll Óskar Hjálmtýsson er gestur í hlaðvarpinu Karlmennskan.

Páll Óskar Hjálmtýsson er gestur í hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar og rifjar þar meðal annars upp hvernig hann kom út úr skápnum og viðbrögð foreldra sinna. Pabbi hans komst að því að sonur sinn væri hommi í gegnum helgarblað Þjóðviljans og mamma hans með því að opna brúnt umslag þar sem fréttablað Samtakanna 78 var að finna.

Páll Óskar segir frá því hvernig mamma hans fussaði og sveijaði yfir því að sonur hennar væri hommi.

„[Mamma] leit undan, horfði ekki í augun á mér, labbaði inn í stofu, horfði í gaupnir sér, byrjaði að prjóna og tautaði með sjálfri sér. Ég vissi að eitthvað væri að, fæðingin þín gekk svo erfiðlega fyrir sig [...] svo byrja allar verstu spurningarnar; hvaða fólk ert þú að umgangast, hver er búinn að smita þig af kynvillu, hvernig veistu hvað þú vilt svona ungur,“ segir Páll Óskar og að hún hafi beðið hann um að halda þessu leyndu fyrir pabba hans. Það kom ekki til greina og komst pabbi hans að samkynhneigð sonar síns í gegnum Þjóðviljann sem þá var dreift í allar sjoppur og vinnustaði.

„Pabbi hljóp upp og niður allar hæðir í Útvegsbankanum þar sem hann vann og safnaði saman öllum Þjóðviljanum og setti í tætarann. Pabbi keyrði síðan i allar sjoppur í Vesturbænum og Miðbænum og Reykjavík og nágrenni, keypti allan Þjóðviljann sem hann gat og setti i tætarann.“

Eina sem vantar er kisa

Páll Óskar segir að hann hafi fyrirgefið foreldrum sínum en að það hafi verið erfitt verkefni og hann lifi lífinu sem hann dreymdi um.

„Ég lifi ofsalega góðu lífi. Ég lifi nákvæmlega faggalífinu sem ég vil lífa og það er dásamlegt. [...] Mér hefur aldrei langað til að eignast börn eða eignast fjölskyldu. En ég á svaka fallegt heimili og er að vinna vinnuna sem mig dreymdi um. Allir mínir draumar hafa ræst. Eina sem mig vantar er kisa,“ segir Páll og segist vera þakklátur og stoltur af því að vera hommi og tekur fram að hann reyni markvisst að „passa upp á það að allt sem ég geri í lífinu er alltaf að einhverju leiti faggalegt. Meira að segja þetta viðtal er faggalegt.“

Traumatíserandi að vera í skápnum

„Við sem erum hinsegin þurfum kannski að líta í eigin barm og viðurkenna fyrir okkur sjálfum, að við erum eiginlega undantekningarlaust öll traumuð. Af því ef þú hefur einhverntíman verið í skápnum, þá fylgir því bæði svo mikið andlegt álag og svo öráreitið og allt í umhverfinu að ýta þér í ákveðna átt [...] Eftir svona rembing get ég lofað að þú ert traumaður. Þannig þegar þú kemur út úr skápnum og lokar skápahurðinni, viltu þá labba inn um dyrnar hjá sálfræðingi. Við verðum að heila okkur sjálf.“ 

Páll Óskar segist hafa upplifað mikið öráreiti sérstaklega þegar hann var nýkominn út úr skápnum og finni gjarnan yfirborðsumburðarlyndi.

„Það er búið að sýna mér alveg nógu mikið af allskonar öráreiti og líka það sem ég kalla yfirborðsumburðarlyndi. Það er allt í lagi að ég sé hommi Ef eða á meðan ég er í trúðabúning og pallíettubúning og er ógeðslega glaður og hress [...] en um leið og ég verð sexual, því er afneitað á staðnum,“ segir hann og vísar þar til þess hvernig platan hans Deep inside floppaði kringum aldamótin sem hafi þótt of sexual. 

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda