Ástralskur blaðamaður fer yfir fjölmiðlafárið sem stendur yfir vegna meints framhjáhalds söngvarans Adam Levine. Hún segir fátt veki meiri undrun og umtal en þegar karlmenn halda framhjá fallegri eiginkonu en þykji það skiljanlegra þegar eiginkonan er venjuleg í útliti.
„Það virðist vera óhugsandi að einhver svíkji fallega konu. Dæmin séu hins vegar fjölmörg en stutt er síðan að ofurfyrirsætan Emily Ratajkowski sagði skilið við sinn eiginmann vegna framhjáhalds hans. Sömu sögu er að segja af Shakiru, Jennifer Aniston, Khloé Kardashian, Halle Berry, Söndru Bullock og fleiri. Allar eiga þær sögu um svikula kærasta eða eiginmenn og alltaf eru viðbrögð almennings á sömu leið þ.e. ef þær geta ekki haldið í karlmenn hvaða séns eiga venjulegar konur?“ segir Mary Madigan í pistli sínum fyrir Body & Soul.
„Sannleikurinn er hins vegar sá að þetta snýst ekkert um konuna sem er svikin. Það að karlmaður haldi framhjá sýnir bara það hvernig manneskja hann er. Það kemur útliti konunnar ekkert við.“
„Þrátt fyrir það erum við sem samfélag stöðugt að dæma konur eftir útliti. Eins og það sé á einhvern hátt skiljanlegra að maður haldi framhjá konunni sinni ef hún er bara venjuleg í útliti. Ef hin konan er aðeins „heitari“ þá er þetta skiljanlegt.“
„Um leið og fréttir bárust af framhjáhaldi Levine þá var fólk ekki að hneykslast á því að hann væri að halda framhjá óléttri eiginkonu sinni heldur fyrst og fremst að hann væri að halda fram hjá fallegu óléttu eiginkonunni.“
„Það birtust athugasemdir á samfélagsmiðlum sem allar voru á þessa leið: „Hann hélt framhjá eiginkonunni sem er Victoria Secret fyrirsæta!“
„Þetta er ekkert nýtt af nálinni. Allir virtust skilja að Brad Pitt hætti með Jennifer Aniston fyrir Angelinu Jolie. Ég meina, hvernig gat hann staðist hana?“
„Allt þetta sendir konum hættuleg skilaboð um að samband þeirra hangir á bláþræði og allt velti á hversu huggulegar þær eru. En niðurstaðan er sú að framhjáhöld snúast ekki um útlit. Þetta snýst allt um vandamál og innræti þeirra sem halda framhjá. Sálfræðingar hafa þvert á móti leitt líkur að því að framhjáhald snúist frekar um kvíða, þunglyndi, lágt sjálfsmat og einmanaleika,“ segir Madigan.
„Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem haldi framhjá finnist þeir vanræktir, finni fyrir tómleika eða hafa einfaldlega hætt að vera ástfangnir af makanum.“