Báðar fyrrverandi ljúga upp á nýju konuna

Nata Johnson/Unsplash

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi, ritstjóri stjuptengsl.is svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún bréf frá konu sem veit ekki hvað er til ráða í samskiptum við stjúpbörn. 

Sæl Valgerður

Ég er að hefja samband með manni sem á uppkomin börn með tveimur konum sem ekki eru sáttar við sambandið. Þær ljúga upp á mig, segja mig ömurlega og að ég henti ekki manninum mínum. Börnin vilja hafa samskipti við okkur en geta það ekki út af mæðrum sínum, sem ekki geta sleppt takinu af fortíðinni. Hvað er gott að gera í svona stöðu?

Börnin hans eru alltaf velkomin og mér finnst sjálfsagt að fá þau í heimsókn og langar að kynnast þeim betur en þá eru mæður þeirra farnar að hittast og plotta endalausar skítasprengjur gegn okkur. Maka minn langar að nálgast börnin sín en hreinlega vill ekki þurfa að standa í einhverju stríði og rugli frá sínum fyrrverandi konum. Það er eins og hann megi ekki vera hamingjusamur.

Kveðja, B

Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi og fjölskylduráðgjafi rekur fyrirstækið Stjúptengsl.is.
Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi og fjölskylduráðgjafi rekur fyrirstækið Stjúptengsl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Komdu sæl B. 

Það er ekki sjálfgefið að fyrrverandi mökum núverandi maka þíns líki vel við þig, jafnvel þó þú sért ágætismanneskja og viljir börnum þeirra vel. Ég veit heldur ekki hversu mikið mark þú átt að taka á skoðunum þeirra. Á sínum tíma virðist sem að þær hafi verið þeirrar skoðunar að þær hentuðu honum vel, en svo reyndist nú ekki vera.

Það kemur ekki fram í hvað felst í meintu plotti þeirra og skítasprengjum en auðvitað er það leitt að upplifa ósanngirni og lygi. Hvað þeim finnst um þig eða þitt samband og hvort þú passir fyrrverandi manni þeirra eða ekki, er ekki þitt mál eða maka þíns. Þið getið ekki stjórnað því hvort þær hittist og viðri skoðanir sínar á ykkur, við hvor aðra. Hins vegar getur þú og maki þinn stjórnað því hvernig þið takið á upplýsingum sem besta til ykkar. Auðvelt er að verða sár og reiður og taka góðan tíma í að ræða þær og þá vitleysu sem sem haldið er fram. Hins vegar tekur slík umræða frá ykkur tíma og súrefni úr sambandinu, sem væri betur nýtt til að rækta sambandið.

Vænlegra er að biðja fólk um að miðla ekki þessum upplýsingum til ykkar, þar sem þið hafið ekkert við þær að gera. Börnin eru uppkomin og þið þurfið ekki að vera í meiri samskiptum við þær en þið kærið ykkur um. Að sjálfsögðu þarf að sýna kurteisi í viðburðum sem tengjast börnunum og þeirra fjölskyldum.

Ég held að maki þinn þurfi að sýna frumkvæði að því að hafa samband við uppkomin börn sín sem vilja vera í sambandi við hann. Þau geta upplifað mikla höfnum af hans hálfu og báðir aðilar misst af mikilvægum og oftast gefandi tengslum. Það á líka við um tengda– og barnabörn, séu þau til staðar.

Getur verið að maki þinn sé átakafælinn? Hann þarf mögulega að skoða hvað er í hans valdi til að laga samskiptin við börnin og mæður þeirra ef hann þarf að eiga samskipti við þær. Jafnframt hver hans hlutur er í því að þau ganga ekki vel. Ef tilraunir hans til að bæta samskiptin bera ekki árangur og vandinn virðist vera að aukast má leita aðstoðar hjá fagfólki.

Með bestu kveðju,

Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, ritstjóri stjuptengsl.is. Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valgerði spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda