„Þegar ég var að alast upp þá þótti það hinn eðlilegasti hlutur að vera sendur í sveit á sumrin,“ segir Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi og fyrirlesari hjá Fyrsta skrefinu, ráðgjafaþjónustu sem hann á og rekur ásamt eiginkonu sinni, Berglindi Magnúsdóttur.
„Margir upplifðu áfall í fyrsta skiptið sem þeir fóru í sveit til fólks sem þeir þekktu lítið. En það þótti ekkert óeðlilegt að segja bara: „heyrðu, við sækjum þig bara í haust,““ segir Valdimar sem hefur áratugalanga reynslu af áfalla- og uppeldisfræðum.
Valdimar Þór hefur til fjölda ára aðstoðað einstaklinga við að takast á við ýmsar áskoranir lífsins. Til að mynda samskipti, úrvinnslu á tilfinningum og meðvirkni sem nánast undantekningalaust er hægt að rekja til uppvaxtaráranna.
„Ef maður skoðar uppeldisfræði þá er það mjög mikilvægt að við ölumst upp við það að fá næringu frá foreldrum. Athygli og stuðning frá báðum foreldrum. Ef það er ekki til staðar þá eru líkur á því að börn fari að þróa með sér ákveðna varnarhætti og fara ómeðvitað að hætta að tengja við tilfinningar,“ segir hann.
„Þá komum við að ákveðnum fræðum sem snúa að því og ég aðhyllist mjög. Þegar við erum búin að þróa svona varnarhætti þá höldum við áfram að nota þá. Svo verðum við fullorðin og tengjum ekki á heilbrigðan hátt við tilfinningar.“
Valdimar Þór er gestur Berglindar Guðmundsdóttur í Dagmálum.