Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi, fyrirlesari og meðferðaraðili hjá Fyrsta skrefinu, segir meðvirkni vera alvarlegt og fyrirferðarmikið vandamál sem hrjáir marga. Hann segir meðvirkni vera lærða hegðun sem á rætur sínar að rekja til mótunarára verðandi sjálfstæðra einstaklinga og verður til í uppvexti þeirra.
„Það er mjög mikill misskilningur á því hvað meðvirkni raunverulega er,“ segir Valdimar Þór og vísar í það sem felst í hugtakinu meðvirkni.
„Við í rauninni erum búin að læra þetta meira og minna allt saman fyrir 10 ára aldur,“ útskýrir Valdimar. Hann segir meðvirkni geta haft víðtæk áhrif á sambönd og samskipti og oftar en ekki sé hún undirrót sársaukans sem sumir upplifa í nánum samböndum.
„Við eigum það til að fara inn í sambönd sem eru óheilbrigð því við sjáum ekki merkin sem við ættum að sjá. Því við kunnum á spennuna, lætin og öfgarnar. Þessar flugeldasýningarnar sem koma upp í sambandinu og sprengingar sem fara upp og niður,“ segir Valdimar.
„Við leitum frekar í sársauka sem við þekkjum heldur en óvissuna.“
Valdimar Þór er gestur Berglindar Guðmundsdóttur í Dagmálum. Það ræða þau félagslega sviðið í þaula og hversu miklu máli það skiptir að gera vel á uppvaxtarárum barns. Annars sé hætt við því að tilfinningalegar öfgar í aðra hvora áttina dragi dilk á eftir sér fram á fullorðins ár.