Anna María Bjarnadóttir hlaut hugrekkisviðurkenningu Stígamóta í ár. Hún greindi frá þessu á Instagram í gær. Anna Maria steig fram í maí árið 2021 og greindi frá Me-Too-sögu sinni en hún sagði tvo þekkta menn, annan þjóðþekktan, hafa brotið á sér árið 2010.
„Langir en samt svo stuttir mánuðir og ár að baki. Það krefst hugrekkis að standa með sjálfum sér og berjast á móti ansi hörðum straumi. Ég sé ekki eftir einu einasta skrefi! Takk allir sem hafa stutt við bakið á mér, ykkur verð ég ævinlega þakklát,“ skrifaði Anna María við mynd af sér með viðurkenningu Stígamóta.
„Baráttukonan Anna María hóf baráttu sína fyrir réttlæti í heimi þar sem hugmyndir fólks um hvað er réttlátt er litað af peningum, völdum og skaðlegum viðhorfum í garð kvenna. Hún hefur staðið keik og með hugrekki sínu og staðfestu rutt brautina fyrir aðra,“ segir í viðurkenningarskjalinu og henni þakkað fyrir að að vera baráttukona og fyrirmynd.
Mál mannanna sem Anna María sagði hafa brotið á sér kynferðislega var tekið inn á borð héraðssaksóknara fyrr á þessu ári, en látið niður falla. Hún kærði þann úrskurð.