Theodór Francis Birgisson, klínískur félagsfræðingur hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda Smartlands.
Hæ!
Ég og maðurinn minn erum búin að vera saman í 18 ár núna. Fyrst um sinn var afar mikil nánd í sambandinu en hún hefur horfið smám saman vegna barnauppeldis og skuldasúpu. Það er svo eriftt að vera á bleiku ástarskýi þegar endar ná ekki saman. Nú grunar mig að hann sé farinn að halda framhjá mér. Hann byrjaði í nýrri vinnu í fyrra og skyndilega er honum meira umhugað um útlit sitt. Hann er alltaf að tala um hvað samstarfskona hans er næs og sniðug. Og í raun svolítið að segja við mig óbeint að ég eigi að vera eins og hún. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá finnst mér þessi kona ekkert spennandi og frekar hallærisleg ef það er eitthvað. Hvernig er hægt að rétta kútinn af í sambandinu? Er hægt að snúa til baka? Hvað leggur þú til að ég geri til þess að reyna að muna að ég sé ennþá hrifin af honum og elski hann í raun og veru?
Kveðja, B
Sæl og blessuð B og takk fyrir bréfið.
Þessi staða sem þið eruð í hljómar verulega kunnulega. Það sem skiptir mestu máli í þessum aðstæðum er að vita að það er hægt að snúa þessu við. Það krefst þess hins vegar að þið viljið það bæði. Það er aldrei eins manns verk að laga samband. Það fyrsta sem þarf að gera er því að setjast niður og ræða hvort það sé raunverulegur áhugi hjá honum til að laga sambandið ykkar.
Ef viljinn er gagnkvæmur hjá ykkur báðum eruð þið strax búin að leysa stærsta vandamálið. Næsta spurning væri þá „hvers þarfnast þú frá mér“ og það er spurning sem þið þurfið að geta spurt hvort annað eins lengi og þið eruð í parsambandinu. Eðli allra vandamála í parsambandi eru óuppfylltar væntingar og þessar væntingar geta verið í allar áttir. Þær geta verið kynferðislegar, fjárhagslegar, félagslegar og alls konar. Þið þurfið að ræða þessi mál fram og aftur.
Eina leiðin fyrir einstakling í parsambandi til að geta mætt væntingum maka síns er að vita hver væntingin er. Síðan er hægt að taka afstöðu hvort viðkomandi geti og eða vilji mæta viðkomandi væntingum. Ef hann hins vegar kemst að því að hann vill alls ekki laga sambandið þá verður því aldrei bjargað. Ég vona að þetta hjálpi þér og ég óska þér alls góðs.
Kær kveðja,
Theodór
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent spurningu HÉR.