„Ég man að fyrsta árið sat í mér spurningin; Hvað svo?“

Hér er Karólína Helga með börnin sín.
Hér er Karólína Helga með börnin sín.

Karólína Helga Símonardóttir mannfræðingur varð ekkja 33 ára þegar maður hennar, Daði Garðarsson, varð bráðkvaddur, aðeins 35 ára gamall. Á einu augabragði umturnaðist líf hennar og barnanna fjögurra. Með góðri hjálp hefur hún unnið úr sorginni og er í dag stjórnarformaður Sorgarmiðstöðvar. 

Páskarnir 2017 eru þokukenndir í huga Karólínu. Sambýlismaður hennar og barnsfaðir til 13 ára varð bráðkvaddur. Börnin voru á aldrinum 4-15 ára en Karólína og Daði áttu fjögur börn.

„Það er mikið áfall að vakna einn daginn við það að maðurinn þinn sé látinn, nú sért þú ein með heimilið, ábyrgðina og skyndilega orðin einstætt foreldri. Við Daði vorum mjög sjálfstæð, nýttum ekki mikið stuðningsnetið út fyrir sambandið, stóluðum frekar á hvort annað. Ef ég festist í vinnunni þá sótti hann börnin á leikskólann og öfugt. Það að vera allt í einu í þeirri stöðu að bera ein ábyrgð á öllu reyndi á. Ég kunni ekki að nýta stuðning fjölskyldunnar eða biðja um aðstoð,“ segir Karólína.

Þessi mynd var tekin af Karólínu og börnunum jólin 2017.
Þessi mynd var tekin af Karólínu og börnunum jólin 2017.

Hvernig voru fyrstu dagarnir eftir andlátið?

„Þetta er mjög mikið í móðu. Ég hef haft þá kenningu að líkaminn reyni að verja sig fyrir slíku áfalli með því að deyfa sig og kerfið svo það fari ekki á yfirsnúning. Ég man að fólk sýndi mjög mikla hlýju þegar það spurðist út að Daði hefði orðið bráðkvaddur,“ segir Karólína og heldur áfram:

„Svo bankaði alvaran upp á. Það þarf að sinna kerfinu og þeim reglum sem kerfið og samfélagið hefur sett. Sækja pappíra, undirbúa jarðarför. Það ríkja mjög sterkar hefðir í íslensku samfélagi varðandi jarðarfarir. Fólk á helst að vera jarðað viku eða tíu dögum eftir andlát. Þetta er mjög mikil vinna og það var svo margt sem ég vissi ekki fyrir fram. Til dæmis að það þarf að fá leyfi til þess að geta jarðað ástvin. Ég mátti ekki fá aðgang að bankareikningunum hans en á sama tíma þá varð ég að standa skil á öllum skuldum, þær héldu áfram að safna vöxtum. Ég hélt í alvöru að daginn sem einstaklingurinn dæi þá færi allt sjálfkrafa á frost, það yrði einhver tilkynning í kerfinu, líka á lánum, áskriftum og skuldum. En nei, ég eyddi þó nokkrum klukkutímum í að segja upp hinni og þessari áskrift, og borga það sem hafði ekki verið borgað. Ég bjó að því að mamma var nýbúin að jarða pabba og vissi hvað þurfti að gera. Hún í raun leiddi mig áfram, hvert ég ætti að fara, við hvern ég ætti að tala og þess háttar.“

Hér eru Daði og Karólína í eldhúsinu jólin 2007.
Hér eru Daði og Karólína í eldhúsinu jólin 2007.

Leyfði börnunum að undirbúa jarðarförina

Karólína segir að svo hafi þau farið að undirbúa jarðarför.

„Þarna kom reynslan sterk inn. Við höfðum jarðað tengdapabba árinu áður og pabba í janúar sama ár svo ég vissi nokkurn veginn hvernig væri staðið að því. Strax í upphafi ákvað ég að leyfa krökkunum að stýra mestöllum undirbúningnum fyrir jarðarförina. Þau völdu til dæmis kistuna fyrir pabba sinn og í hverju hann yrði jarðaður. Þau vildu til dæmis að erfidrykkjan yrði á KFC því það var uppáhaldsmaturinn hans. En það hefur verið hefð hjá hans fjölskyldu að hittast í súpu eftir kistulagninguna. Við sættumst á að hittast eftir kistulagninguna og fá okkur KFC saman, yndislegu systurnar á KFC og vaktstjórinn, leyfðu okkur að hafa afnot af neðri hæðinni á staðnum út af fyrir okkur. Það var yndisleg stund og í rauninni mun meira gefandi fyrir krakkana en nokkurn tímann erfidrykkjan. Í öllum þessum undirbúningi, og ákvörðunum, þá fannst mér það auðvelda mikið að leyfa krökkunum að vera með. Ég held það hafi hjálpað þeirra úrvinnslu sem og minni eigin. Mér fannst mikilvægt að það kæmu allir ástvinir hans að undirbúningnum, ég væri ekki ein að kveðja heldur við öll,“ segir hún.

Hér er Daði í eldhúsinu 2010.
Hér er Daði í eldhúsinu 2010.

Líf í þeytivindu

Eftir jarðarförina fóru börnin aftur í skólann og leikskólann og lífið gekk sinn vanagang hjá öllum í kringum Karólínu. Hún var hins vegar föst í þeytivindu. Hún ákvað að nota þessa hræðilegu lífsreynslu til þess að byggja sig upp.

„Ég man að fyrsta árið sat í mér spurningin; Hvað svo? En það er einmitt málið. Við vitum ekkert hvert svarið er við því. Ég tók þá ákvörðun að gera mig að sterkari manneskju. Ég fór í framhaldinu í árs veikindaleyfi. Ég ákvað strax að ég yrði að huga að sjálfri mér til þess að geta stutt börnin og sem betur fer var ég í góðu stéttarfélagi sem greip mig,“ segir hún.

Hvað gerðir þú til að byggja þig upp?

„Fyrstu mánuðina lagði ég áherslu á að hreyfa mig og ég fann að ég fékk útrás við það. Svo leyfði ég mér að hvílast. Ég var með rútínu sem gekk út að hlúa að mér, vaknaði með krökkunum á morgnana, fór í ræktina, til sálfræðings og stundum í nudd. Áður en Daði féll frá var ég hjá sálfræðingi og ég hélt því áfram eftir andlátið. Svo hitti ég prestinn okkar reglulega til að hjálpa mér að styðja mig og krakkana.“

Mömmuhvíld

Þegar fólk upplifir áföll þá getur það fundið fyrir mikilli þreytu. Hvernig fórstu að því að hugsa um öll börnin og halda öllu á floti?

„Ég fór inn í þetta af auðmýkt. Ég var hreinskilin við krakkana og sagði þeim að ég gæti ekki hlaupið alls staðar. Ég sagði þeim jafnframt að ég myndi leggja mig fram og gera eins vel og ég gæti. Ég er líka svo heppin að eiga flott börn. Þau eru sjálfstæð og dugleg. Svo vorum við með hugtakið mömmuhvíld. Við höfðum sameiginlegan skilning á því hvað mömmuhvíld þýddi. Þá þurfti ég að fá að kúpla mig út í 15 mínútur og þau mættu ekki taka því illa og það hjálpaði líka þegar ég fór að fara út að hitta vini. Þá skildu þau svo vel hve mikilvæg mömmuhvíld væri. Börn sem missa foreldri upplifa oft aðskilnaðarkvíða og eiga oft erfitt ef eftirlifandi foreldrið skreppur af bæ,“ segir hún.

Karólína og Daði með börnin sín fjögur; Alexander Mána, Dag …
Karólína og Daði með börnin sín fjögur; Alexander Mána, Dag Mána, Fjólu Huld og Bríeti Ýr.

Fann leyniuppskriftina hans Daða

Talið berst að jólunum. Karólína segist hafa upplifað margar furðulegar tilfinningar þegar þessi árstími nálgaðist. Daði var mikill jólakarl og sá til dæmis alltaf um að elda jólamatinn og setja upp jólaseríur utandyra. Eftir að hann fór vildi hún helst sleppa jólunum.

„Ég er ekkert jólabarn en fyrstu jólin eftir missinn vildi ég fara til Spánar. Ég vildi bara flýja og vera í sól og hafa það notalegt. En börnin tóku það ekki í mál. Jólin áttu að vera venjuleg. Jólin hjá okkur Daða voru alltaf þægileg og ég ákvað að halda í þá hefð. Hann eldaði alltaf hamborgarhrygg á jólunum. Ég varð mjög þakklát þegar ég fann niðurskrifaða uppskrift frá honum og náði að elda hamborgarhrygginn eftir hans leyniuppskrift,“ segir hún og bætir við:

„Ég vildi vera til staðar fyrir krakkana og er þrjósk, ég ætlaði að gera allt 150%, en átti erfitt með að koma mér af stað að setja upp jólin.

Svo fór dóttir mín að spyrja hvenær við myndum byrja að skreyta og setja upp seríur úti. Þá fékk ég mömmusamviskubit og ákvað að koma seríunum upp sjálf. Ég hafði náttúrlega aldrei gert það. Daði hafði alltaf séð um þetta. Ég fór niður í geymslu og fann seríurnar en þá virkuðu þær náttúrlega ekki og ég var heillengi að finna út úr þessu. Þegar ekkert virkaði ákvað ég í gleði minni að fara út í búð og kaupa allt nýtt.

Þetta var alveg hrikalegt. Ég mældi ekki hvað seríurnar þurftu að vera langar áður en ég fór í búðina og þurfti að fara margar ferðir, aftur og aftur, til að kaupa fleiri seríur. Þetta tók næstum heilan dag, en að lokum komust seríurnar upp og krakkarnir voru mjög ánægðir. Svo var ég líka mjög stressuð þegar það kæmi að því að aðstoða þann rauða. Ég hef alltaf verið mjög kvöldsvæf og átti erfitt með að vaka fram eftir til þess að aðstoða við það og hvað þá 13 kvöld í röð, eða ef ég gæti endað á því að gleyma mér, sofa yfir mig eða gleyma að kaupa eitthvað. Allt þetta gerðist, allt þetta sem ég hafði kviðið fyrir í marga mánuði, en ég náði alltaf að redda mér og börnunum varð ekki meint af. Jólin voru alveg jafn gleðileg,“ segir hún og hlær.

Þessi mynd var tekin 2016.
Þessi mynd var tekin 2016. Ljósmynd/Arnþór Birkisson

Jól eftir missi

Jólin geta verið mjög erfiður tími fyrir fólk sem hefur misst ástvin. Ertu með einhver góð ráð fyrir fólk sem er í þeirri stöðu?

„Það skiptir miklu máli að fólk geti talað um tilfinningar sínar og þær hugsanir sem koma upp. Jólin geta valdið fólki miklum kvíða. Það á allt að vera svo frábært og skemmtilegt um jólin og við eigum að vera svo hamingjusöm. Það er enn þá erfiðara fyrir þá sem eru að ganga í gegnum sorg og missi,“ segir Karólína.

Í dag er hún stjórnarformaður Sorgarmiðstöðvar sem hlúir sérstaklega að fólki sem er að ganga í gegnum missi í desember.

„Það skiptir miklu máli að fólk ofgeri sér ekki. Ef fólk treystir sér ekki til að fara á jólahlaðborðið sem var búið að skipuleggja þá er allt í lagi að vera heima. Fólk verður að gæta þess vel að hvíla sig, næra sig og hafa æðruleysi í forgrunni. Ekki búa sér til einhver risastór verkefni og vera með mjög miklar væntingar. Ég mæli eindregið með því við fólk sem er að ganga í gegnum sorg að það sé búið að tala við ástvini sína. Segja þeim hvernig það vilji hafa jólin. Það er ekki síður mikilvægt að aðstandendur dæmi ekki ákvarðanirnar heldur styðji þær. Einnig mæli ég eindregið með erindinu um jólin og sorgina frá Sorgarmiðstöð, bæði fyrir þau sem hafa misst ástvin og aðstandendur þeirra. Sorgarmiðstöð er líka með bækling með helstu bjargráðunum. Mér fannst það hjálpa mér mikið að hafa hann við höndina og leyfa mér að sýna mér mildi.“ Karólína játar að hún hafi upplifað mikinn létti þegar fyrstu jólin án Daða voru afstaðin. Þrátt fyrir það fékk hún líklega bestu jólagjöf sem hægt var að fá.

„Stjúpsonur minn skiptist alltaf á að vera önnur hver jól hjá okkur og jólin á móti hjá móður sinni. Þessi fyrstu jól eftir að Daði dó átti hann að vera hjá móður sinni um jólin. Þegar hann óskaði eftir því að fá að vera með mér þessi jól þá fékk ég tár í augun,“ segir hún og játar að jólin séu alltaf að verða betri og betri.

„Í ár eru fimm ár síðan Daði dó og ég er komin í nýtt samband og er mjög ástfangin aftur. Ég held að það hafi verið í fyrsta skipti í fyrra sem ég naut jólanna án þess að vera yfirspennt og allt í vitleysu. Þetta er allt að koma. Ég verð samt að játa að allar hátíðir og tímamót eru og verða alltaf erfið, bara öðruvísi erfið. Magnús, sambýlismaður minn, hefur reynst mér vel og skilur mig stundum betur en ég sjálf. Hann er ótrúlega magnaður og með breitt bak. Ég held stundum að hann hafi verið sendur hingað til að leiða okkur áfram. Stundum fæ ég samviskubit yfir því að vera hamingjusöm, að fólk haldi hreinlega við séum búin að gleyma Daða eða stroka hann út. En það er ekki þannig. Hann er alltaf hluti af okkur og okkar daglega lífi og krökkunum. Þarna kemur núverandi maki sterklega inn en Maggi er duglegur að hjálpa mér að halda nafni Daða á lífi, minnast hans og tala um hann. Ég reyni líka reglulega að að minna mig á að Daði hefði viljað að við værum hamingjusöm og okkur liði vel,“ segir Karólína.

Hér eru Karólína og Magnús Björn Bragason ásamt öllum börnunum …
Hér eru Karólína og Magnús Björn Bragason ásamt öllum börnunum sínum. Þau heita Alexander Máni Daðason, Svanhvít Magnúsdóttir, Dagur Máni Daðason, Fjóla Huld Daðadóttir, Aníta Mjöll Magnúsdóttir og Bríet Ýr Daðadóttir. Ljósmynd/Kristmann
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál