„Ég veit ekki hvort við sváfum saman“

Hún var búin að vera skotin í honum lengi þegar …
Hún var búin að vera skotin í honum lengi þegar þau hittust á vinnudjammi sem fór úr böndunum. Logan Weaver/Unsplash

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu 

Góðan daginn,

Nú er ég í sjálfskapaðri klípu. Þannig er mál með vexti að á vinnudjammi fyrr í mánuðinum fór ég heim með einum samstarfsmanni mínum. Ég var búin að vera skotin í honum svolítið lengi, en ég er ekki viss um að hann vissi hvað ég héti fyrr en á þessu djammi. Vandamálið er að ég veit ekki hvort við sváfum saman því ég var svo rosalega drukkin þetta kvöld. Þegar ég vaknaði heima hjá honum um morguninn gat ég ekki hugsað um annað en að drífa mig heim. Þorði ekki að vakna með honum og laumaði mér þar af leiðandi út. Hann er ekki búinn að senda mér neitt eftir þetta. Við höfum þó heilsast á kaffistofunni. Hvernig á ég að nálgast hann og ræða við hann um hvað gerðist, eða gerðist ekki? Enn fremur langar mig líka að reyna að koma þessu sambandi okkar áfram. Hvernig kemst ég að því hvort hann hafi áhuga á að hitta mig utan vinnu?

bestu kveðjur,

ein ráðalaus

Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Fljótt á litið lítur út fyrir að verkefnin eða svörin sem þú gæti hugsanlega þurft að líta á hafi ekkert með mögulegt samband að gera. Ef maður endar svo drukkinn að maður man ekki hvað gerðist og veit ekki hvar maður er þegar maður vaknar, þá er ágætt að skoða það áður en farið er í nýtt ástarsamband.

Það getur öllum orðið á í drykkjunni og margir þekkja það vel að hafa fengið sér einum of mikið. Það er samt talsverður munur á því og að muna ekkert hvað gerist þegar maður drekkur. Ég mæli með að þú skoðir það og hvort það sé mögulegt að þú sért að nota í stað þess að njóta áfengisins. Margir eiga við þann vanda að stríða að líða ekki vel með sjálfan sig og nota áfengi til þess að deyfa þessar tilfinningar.

Að sama skapi eru margir að leita í sambönd til þess að fylla á eitthvað tómarúm, sem ætti að fylla á með öðrum hætti - eru að nota sambönd í stað þess að njóta. Þú ert í raun búin að svara spurningunni sjálf hvort hann hafi áhuga á að hitta þig utan vinnunnar. Hann hefur ekki haft samband og ekki talað við þig, hvorki um þessa nótt né framhald á ykkar sambandi. Er það ekki svarið við þessari spurningu?

Kær kveðja, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda