Er hægt að lækna Narsissista með ADHD?

Er hægt að lækna menn með ADHD?
Er hægt að lækna menn með ADHD? Christina Victoria/Unsplash

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem er veltir fyrir sér hvort það sé framtíð í ástarsambandi hennar eða ekki.  

Sæll Valdimar. 

Jæja, èg ætla að reyna að gera langlokuna í styttri kantinum.

Èg er öryrki í dag vegna andlegrar og líkamlegrar heilsu.

Við eigum 4 börn en yngsta barnið eigum við saman. Málið er að við höfum alltaf verið svo svakalega ósammála varðandi uppeldið að okkur lendir alltaf saman og endar á því að mömmuhjartað brestur og hugurinn fer á fullt hvort èg sé bara of „góð“. Þess vegna sé valtað yfir mig úr öllum áttum? Eða er búið að brjóta mig það mikið niður að ég veit ekkert lengur og get ekki staðið á mínu? Hann vill meina það að þar sem ég er ekki í vinnu þá eigi ég að geta sinnt heimilinu 110%. Allt ætti að vera eins og í glamúrmynd frá Hollywood. En því „litla“ sem ég geri á heimilinu tekur hann ekkert eftir og glætan að maður fái klapp á bakið. Nei nei. Þetta er sjálfsagður hlutur þar sem „ég geri ekki neitt hvort er“.

Ég hef reyndar alltaf átt erfitt með að skipuleggja mig og halda utan um tímasetningar en mér finnst ég ekki hafa neinn tíma fyrir eitt eða neitt. Ég hef/fæ engan tíma fyrir mig, en þegar ég fæ pössun fyrir yngsta. Ég segi pössun því maðurinn minn er með sína rútínu og ég er því miður smeyk við að hann sé einn með yngsta okkar. Hann bæði stressast upp og verður pirraður út í mig ef barnið grætur mikið. Hann nær ekki að róa hann niður strax. Hann leikur með barnið sem fer voðalega í taugarnar á mér og hræðir mig. 

Jæja nú er þetta orðið að langlokunni sem ég ætlaði mér ekki að gera en bara að koma þessu frá mér gaf mér smá púst.

Að lokum. Maðurinn minn var búinn að samþykkja hjónabandsráðgjöf en það er bara búið að ganga svo svakalega mikið á í okkar sambúð. Er það þess virði þar sem við erum aðeins fertug að aldri? Ég sé enga neista á milli okkar lengur en ég vil heldur ekki slíta sambandi okkar þar sem ég held alltaf í vonina um að eitthvað breytist.

Er hægt að „lækna“ narsissista sem er með ADHD og hafnar lyfjum því hann er með allt sitt upp á 110%?

Kær kveðja, 

BV

Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Þegar talað er um vandamál í hjónaböndum eða parsamböndum, þá er mjög algengt að vandinn snúist um það sem kallast mörk og markaleysi. Mörkin hjá hverjum og einum samanstanda af hugsunum, tilfinningum og líkama. Með þessu er átt við að þú mátt hafa þínar hugsanir, þínar tilfinningar og þinn líkama í friði, svo framarlega sem þú ert ekki að valda öðrum skaða.

Þetta á þá líka við um þá sem eru í kringum þig. Þeir mega eiga sínar hugsanir, sínar tilfinningar og sinn líkama svo lengi sem þeir eru ekki að valda öðrum skaða. Vandamálin verða til þegar einstaklingar bera ekki virðingu fyrir þessari reglu. Þegar okkur finnst eins og aðrir séu að skaða okkur með því sem þeir gera eða segja, þá er líklegt að þeir séu að ryðjast yfir mörkin okkar, fara inn fyrir þau.

Því miður er það þannig að við höfum litla sem enga stjórn á því hvað aðrir gera og hvort þeir eru „markalausir“. Það sem við höfum hins vegar stjórn á eru okkar eigin mörk. Það er heilbrigt að setja öðrum mörk og við þurfum að gera það, annars verðum við fyrir skaða fólks sem ber ekki virðingu fyrir mörkum annarra. Að setja skýr mörk getur verið hægara sagt en gert og margir eru hræddir við að setja mörk, af því þeir óttast viðbrögðin. Það er ein birtingarmynd meðvirkni.

Það kostar yfirleitt átök að setja skýr mörk gagnvart manneskju sem vill ekki láta setja sér mörk. Enginn getur sett sig almennilega í spor annarra og ástæðurnar fyrir því að fólk setur ekki skýr mörk og stendur við þau geta auðvitað verið margar. Það getur til dæmis verið beinlínis hættulegt að setja ofbeldisfólki skýr mörk og þess vegna mikilvægt að fá eins mikinn stuðning og hægt er þegar það er gert.

Í rauninni er erfitt að finna spurningu í fyrirspurninni frá þér en það er frekar augljóst að þú ert að velta fyrir þér hvort það er skynsamlegt að fjárfesta áfram í þessu sambandi. Því getur enginn svarað nema þú. Með því að setja skýr mörk, hvað þú vilt og hvað þú vilt ekki, segja það upphátt og halda þig við þessi mörk, þá kemur í ljós hvort maki þinn beri virðingu fyrir því sem þú ert að segja.

Ef svo er alls ekki, þá kemstu hugsanlega nær svarinu um hvað þú vilt gera. Almennt talað ættum við ekki að sætta okkur við virðingarleysi, sérstaklega ekki af hálfu maka. Varðandi spurninguna þína hvort hægt sé „að lækna narsissista sem er með ADHD og hafnar lyfjum því hann er með allt sitt upp á 110%“ þá er svarið einfaldlega: Ég veit það ekki. Það veltur fyrst og fremst á því hvort viðkomandi einstaklingur telji sjálfur að hann þurfi á „lækningu“ að halda og sé tilbúinn að skuldbinda sig til að vinna að bata.

Þó manneskja sé sjálfhverf þarf ekki að vera að hún flokkist undir að vera narsissisti en það er mjög sjúklegt ástand þar sem sjálfhverfan er algjör og skortur á samkennd einkennandi. Narsissískir einstaklingar vilja til dæmis helst ekki fara í hjónabandsráðgjöf og mjög ólíklegt að slík ráðgjöf hjálpi ef um raunverulegan narsissista er að ræða. Spurningin ætti miklu frekar að vera hversu lengi ætlar þú að sætta þig við óbreytt ástand í sambandi með einstakling sem hegðar sér eins og þú lýsir því? Í staðinn fyrir að fara í hjónabandsráðgjöf þá myndi ég hiklaust mæla með því að þú færir fyrst í einstaklingsráðgjöf og fáir aðstoð við að styrkja þig og finna hvað er rétt fyrir þig að gera.

Kær kveðja, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda