Reiður úti á plani

Valgeir Magnússon er einn af þeim sem hefur lagt illa.
Valgeir Magnússon er einn af þeim sem hefur lagt illa. Ljósmynd/Samsett

„Stoltið og rétt­sýn­in geta verið skrít­in systkin, sér­stak­lega þegar við upp­lif­um að eitt­hvað hafi verið gert á okk­ar hlut. Við eig­um erfitt með að kyngja stolt­inu þó að það sé aug­ljós­lega okk­ur í hag. Við mæt­um hörðu með hörðu af því að við lít­um hlut­ina með okk­ar aug­um og eig­um rétt á því,“ seg­ir Val­geir Magnús­son aug­lýs­inga- og markaðsmaður í nýj­um pistli á Smartlandi: 

Hver kann­ast ekki við mann­inn sem mæt­ir reiður inn í versl­un með bilaðan hlut og raus­ar um hvað þetta sé mikið drasl. Hann sé ný­bú­inn að kaupa hlut­inn og hann virki ekki. Eft­ir augna­blik kem­ur í ljós að hann hafði bara gleymt að kveikja á hlut­um eða setja hann í sam­band eða gert ein­hver ein­föld mis­tök. Svo­kölluð BÍN-villa, það er „bil­un í not­anda.“ Þegar viðkom­andi er svo bent á þessi ein­földu litlu mis­tök sín þá kem­ur rús­ín­an: „Já, en þetta er samt drasl!“ Því viðkom­andi get­ur ekki viður­kennt að hafa haft rangt fyr­ir sér og í raun haft gert að fífli með rausi um hvað hlut­ur­inn sé lé­leg­ur þegar það var í raun bara hann sem var vit­laus. Svo struns­ar viðkom­andi út.

En þessi hegðun ein­skorðast ekki við nokkra skap­stygga eldri karla. Þetta er í okk­ur öll­um, í ein­hverj­um mæli. Við æðum kannski ekki brjáluð inn í versl­un, en þegar brotið er á rétti okk­ar eða við telj­um að svo sé, þá leyf­um við reiðinni stund­um að taka stjórn­ina. Flaut­um á fá­vit­ana í um­ferðinni, til dæm­is. Við mæt­um til­bú­in með svör ef við höld­um að ein­hver muni setja út á okk­ur. Við þurf­um að halda and­liti.

Ég man eft­ir einni sögu af mér sjálf­um sem lýs­ir þessu vel. Fyr­ir nokkr­um árum var ég að leita að stæði við Höfðabakka og þar var bara eitt stæði laust. Vanda­málið var að bíll­inn í stæðinu við hliðina var svo illa lagður að hann var hálf­ur inn í stæðinu sem var laust. En þar sem ekk­ert annað stæði var í aug­sýn þá ákvað ég að reyna að troða mér inn í þetta stæði og kom­ast út úr bíln­um. Þessi aðgerð heppnaðist og ég náði að koma mér inn. Ég hugsaði með mér að sá sem lagði svona illa gæti bara farið inn farþega­meg­in og troðið sér yfir í bíl­stjóra­sætið til að kom­ast burtu, því nóg var plássið þeim meg­in við bíl­inn. Að svo búnu fór ég inn í húsið og upp á 6. hæð, þangað sem ég átti er­indi. Þegar ég sat þar í fund­ar­her­bergi hringdi hjá mér sím­inn. Þar kynnti sig maður frá bíla­leig­unni sem sem átti bíl­inn. „Sæll, get­ur verið að þú sért stadd­ur á Höfðabakka?“ spurði maður­inn og ég fann hvernig pirr­ing­ur­inn fór af stað inn í mér. „Já, ég er það,” svaraði ég. „Það hringdi í mig maður í vand­ræðum með að kom­ast inn í bíl­inn sinn og spyr hvort það sé mögu­leiki að þú fær­ir þig svo hann kom­ist inn í bíl­inn.”

Ég svaraði með þjósti: „Hann hefði þá kannski átt að leggja bet­ur en ekki vera hálf­ur inn á stæðinu við liðina,” sagði ég og ætlaði bara að sitja kyrr og láta hann finna fyr­ir því úti á stæðinu.

„Ég veit nú ekk­ert um það en hann hringdi bara hér í vand­ræðum,“ svaraði maður­inn frá bíla­leig­unni.

Ég ákvað að sitja kyrr og klára það sem ég var að gera og fara svo niður, hann það skilið fyr­ir að leggja svona eins og ansi og taka tvö stæði. Á leiðinni niður und­ir­bjó ég mig und­ir það sem koma skyldi þegar maður­inn myndi láta mig heyra það fyr­ir að loka sig úti úr bíln­um. Ég myndi segja.

„Þú lagðir svona illa og þá get­urðu bara farið inn farþega­meg­in og klifrað yfir. Af hverju er það mitt vanda­mál að þú kunn­ir ekki að leggja?”

Þegar ég gekk að bíln­um fann ég hvernig hjart­slátt­ur­inn jókst og ég varð bet­ur og bet­ur til­bú­inn í rifr­ildið sem var að koma. Ég sá mann­in standa fyr­ir fram­an bíl­inn sinn og horfa í átt­ina að mér. Þetta var mjög breiður maður og þegar ég nálgaðsiðst spurði ég hvort hann væri sá sem kæm­ist ekki inn í bíl­inn sinn. „Já, ég er maður­inn. Fyr­ir­gefðu hvað ég lagði eins og asni. Þetta er allt mér að kenna. Ég er líka svo feit­ur að ég næ ekki að fara inn farþega­meg­in og klifra yfir. Ann­ars hefði ég bara gert það. En því miður gat ég það ekki. Ég vona að ég hafi ekki truflað þig of mikið. Ef þú gæt­ir bakkað út, þá gæti ég farið.“

Ég stóð og hofði á hann í smá stund og allt sem ég hafði und­ir­búið í hug­an­um varð að engu. Ég fékk ekki að ríf­ast, eins til­bú­inn og ég var. Rifr­ildið var tekið af mér. „Já, ekk­ert mál,“ svaraði ég og færði bíl­inn. Ég náði að setja smá pirr­ing og lít­ilsvirðingu í mál­róm­inn svo ég fengi eitt­hvað út úr þessu.

En þegar ég var að bakka bíln­um mín­um úr stæðinu hugsaði ég með mér: „Hvaða fá­viti er ég að byggja upp alla þessa spennu og eyða orku í eitt­hvað sem ekk­ert varð. Af hverju varð ég núna allt í einu pirraður yfir því að fá ekki rifr­ildið sem ég hafði samt eng­an áhuga á?“

Ég vinn við sam­skipti og er stöðugt að hjálpa fólki hvernig best er að haga sam­skipt­um á alla vegu. Oft þegar stjórn­end­ur eru í krísu þá hjálpa ég við að hafa sam­skipt­in yf­ir­veguð og skipu­leg til að risaeðluheil­inn yf­ir­taki ekki aðstæður og eyðileggi, í stað þess að laga. Því þegar risaeðluheil­inn okk­ar tek­ur við stjórn­inni þá búum við til spíral vondra sam­skipta sem aldrei enda vel. Samt féll ég í þessa gildru, sem eng­inn lagði fyr­ir mig nema ég sjálf­ur. En sá sem lagði bíln­um sín­um svona illa af­vopnaði mig með besta vopn­inu í vopna­búri sam­skipt­anna. Hann tók sök­ina á sig og baðst af­sök­un­ar. Hann kyngdi stolti sínu til að ná sín­um mark­miðum. Hann þurfti bara að kom­ast inn í bíl­inn sinn.

Til að ná sam­komu­lagi um hvað sem er, þá er það alltaf kost­ur að setja egóið til hliðar. Ef það er ekki hægt þá er alltaf hætta á því að það þvæl­ist fyr­ir og sam­komu­lag ná­ist ekki þó svo að báðir aðilar kunni að hafa veru­leg­an hag af því. Ein­göngu vegna þess að þver­ir ein­stak­ling­ar þurfa að halda and­liti. Eft­ir að hafa fylgst með nú­ver­andi kjara­deilu eins og boxkeppni í beinni, þá fór ég að velta þessu fyr­ir mér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda