Kynlíf er ekki bara kynlíf. Það eru margar leiðir til að stunda kynlíf og kynlíf er ekki alltaf fullkomið. Það er þó ýmislegt hægt að gera til þess að gera upplifunina enn betri. Smartland tók saman nokkur ráð sem geta bætt upplifunina
Byrjaðu á kossi
Í stað þess að stökkva beint út í djúpu laugina er gott að byrja í grunna enda hennar og fikra sig svo áfram þaðan. Fyrsti kossinn getur sagt ykkur mikið um hversu vel þið eigið saman. Með hægum djúpum kossum losnar um boðefni í heilanum og þú slakar meira á. Þannig náið þið líka betri tengingu sem mun hjálpa ykkur.
Æfðu þig daglega
Þetta byrjar allt innra með okkur sjálfum. Kynlífsráðgjafar mæla með því að fólk hugsi um kynlíf og hvað veitir þeim unað á hverjum degi. Þannig ert þú meðvitaðri um hvað þú vilt og hvað þú vilt ekki þegar á hólminn er komið. Þá finnur þú líka fyrir meira öryggi þegar þú stundar kynlíf með annarri manneskju.
Sjálfsfróun er líka góð hugmynd áður en þú stundar kynlíf með annarri manneskju. Þá kemstu enn betur að því hvað þér finnst gott.
Ekki vanmeta augnsamband
Það er ekki nauðsynlegt að horfa í augun á þeim sem þú stundar kynlíf með, en það bætir upplifunina og ýkir nándina. Þannig skapið þið líka öryggi og finnið betur að þið treystið hvort öðru.
Æfðu þig í núvitund
Með því að hugleiða og æfa þig að vera í núinu, undirbýrðu þig betur fyrir að vera á staðnum í kynlífi. Þannig nærðu betur að njóta þess sem er að gerast, í stað þess að hugsa um hvað þú ætlar að hafa í kvöldmatinn annað kvöld eða hvað vantar í ísskápinn.
Þá verður þú líka meðvitaðri um eigin líkama og hvernig þér líður á meðan kynlífinu stendur.
Samskipti eru lykilatriði
Flest lesum við ekki hugsanir. Þess vegna er mjög mikilvægt að tjá hugsanir sínar og tilfinningar þegar við stundum kynlíf með annarri manneskju. Allavega ef markmiðið er að njóta stundarinnar saman.
Það þarf þó ekki alltaf að nota orð til að koma því til skila hvað er gott og hvað ekki. Þannig mæla kynlífsráðgjafar með því að fólk sýni maka sínum hvað því finnst gott.
Elskaðu líkamann þinn
Það hjálpar alltaf að eiga í heilbrigðu sambandi við líkamann sinn. Þá nýtur maður kynlífs betur, bæði með öðrum og líka í sjálfsfróun.
Ef við erum upptekin af því hvernig við lítum út getur það spillt ansi mikið fyrir. Ef þú elskar líkamann þinn þá ertu líka færari um að elska líkama annarra og sýna það í verki.
Gefðu hinu ófullkomna rými
Kynlíf þarf ekki að vera fullkomið. Hinar vandræðalegustu uppákomur henda og það er allt í lagi. Ekki stefna á fullkomnun, heldur frekar á að líða vel og njóta þín.
Það sem er vandræðalegt getur svo orðið að einhverju fallegu augnabliki sem þið talið um seinna.