„Stjórnendur sem beita öðrum en jákvæðum stjórnunarháttum eiga það á hættu að starfsfólk fari að benda á vankanta á stjórnunarháttum þeirra. Margir hverjir taka ábendingum fagnandi um hvað betur megi fara, og nýta ábendingar starfsfólks til þess að efla sjálfa sig í starfi,“ segir Sunna Arnardóttir sérfræðingur í mannauðsmálum starfar hjá Vinnuhjálp í nýjum pistli:
Enginn stjórnandi er fullkominn með algjöra þekkingu á góða stjórnunarhætti, og er því eðlilegt að fá stöku ábendingu um hegðun eða atvik sem betur hefði mátt fara. Eru þá ekki neikvæðir stjórnunarhættir stjórnanda ekki endilega að kalla fram neikvæða vinnustaðamenningu, eða niðurrífandi starfsaðstæður fyrir starfsfólk, heldur er hluti af uppbyggjandi starfsaðstæðum þar sem allt starfsfólk er hvatt til þess að efla og styðja hvert annað, þvert yfir alla starfstitla.
Að sama skapi eru einnig til stjórnendur sem taka illa í mögulegar ábendingar um neikvæða stjórnunarhætti sína, og keyra þannig starfsaðstæður á niðurrífandi andrúmslofti, og neikvæða vinnustaðarmenningu. Til þess að fyrirbyggja hvers kyns umtal um neikvæða stjórnunarhætti, nýta þessir stjórnendur ýmsa þöggunartilburði bæði innan veggja vinnustaðarins sem og utan, gegn starfsfólki á meðan það er í starfi, sem og til þess að koma einstaklingum úr starfi. Er hér gerður greinarmunur á þöggunartilburðum á starfsfólki (aðilar í starfi) og einstaklingum (aðilum sem keyrðir eru úr starfi).
Þöggunartilburðir eru í eðli sínu ofbeldishegðun, og skynjar starfsfólk þá oft sem ekki bara neikvæða stjórnunarhætti heldur oft sem hreina eineltishegðun gagnvart sér. Þöggunartilburðir eru misjafnir eftir aðstæðum og einstaklingi, bæði þolandanum og gerandanum, og er því til mikil flóra af mögulegum þöggunartilburðum sem nýttir eru á starfsfólki sem er enn í starfi. Dæmi um aðstæður þar sem stjórnandi er að nýta þöggunartilburði á starfsfólki er t.d.:
Þöggunartilburðir á starfsfólki eru til þess gerðir að berja starfsfólkið niður til algjörar hlýðni gagnvart stjórnandanum. Niðurbrotið starfsfólk er ekki óhult gegn þöggunartilburðum stjórnandans, heldur halda þöggunartilburðir ítrekað áfram til þess að viðhalda niðurbrotinni og þögulli vinnustaðarmenningu. Því fleira starfsfólk sem þöggunartilburðir virka á, sem halda sig til hlés og vonast til að vera ekki tekið eins illa fyrir og það starfsfólk sem dirfist að benda á ólíðandi aðstæður, því djarfari verður stjórnandinn í þessu niðurrífandi hegðunarmynstri sínu. Heldur stjórnandinn því ekki eingöngu óbreyttum hætti, heldur versna aðstæður stigbundið því lengur sem aðstæður fá að haldast óbreyttar.
Þöggunartilburðir eru ekki bara til þess að viðhalda neikvæðum stjórnunarháttum innan fyrirtækis, heldur einnig stigbundið notaðir með það í fyrirrúmi að losa stjórnandann við starfsfólk sem metið er „hættulegt“ gagnvart stjórnandanum og ógnarstjórnun viðkomandi. Eru þetta einstaklingar sem óhikað benda á það sem miður fer, eða „rugga bátnum“ á einhvern máta.
Einstaklingar sem þora að benda á það sem er í gangi á vinnustaðnum eru teknir fyrir og stigbundið brotnir niður. Á meðan einstaklingurinn er í þessum aðstæðum fær viðkomandi ítrekað að heyra að best sé fyrir viðkomandi að hætta, þar sem einstaklingurinn er ófær um að sinna sínu starfi. Einstaklingar í þessum aðstæðum eru stigbundið keyrðir út svo að viðkomandi hætti sjálfur, eða endi í langtíma veikindum vegna gífurlegs álags sem síðar er hægt að nota sem átyllu til að segja viðkomandi upp.
Einstaklingar sem rugga bátnum of mikið að mati stjórnandans eru teknir fyrir sérstaklega. Ekki aðeins eru fyrr nefndir þöggunartilburðir notaðir ítrekað gegn þeim aðilum, heldur er einnig vegið ítrekað og stigbundið að starfsheiði þeirra, og störf þeirra rökkuð niður meðal annars starfsfólks til að draga úr trúverðugleika einstaklingsins. Er þetta gert til þess að brjóta viðkomandi niður sem hraðast með það fyrir huga að eingöngu þurfi að hóta frekari aðförum gegn starfsheiðri og orðspori viðkomandi einstaklings til þess að segja viðkomandi upp að óskekkju. Ef einstaklingurinn hótar að fara með málið í stéttarfélag sitt, er viðkomandi boðið val um starfslokasamning eða algjöra undirgefni við kröfum stjórnandans vilji viðkomandi halda starfi. Fær þannig einstaklingurinn val um það að halda starfinu en vitandi það að stjórnandinn muni einnig nota hvert tækifæri til að aftur reyna að bola einstaklingnum úr starfi, eða að skrifa undir starfslokasamning sem þá allavegana losar viðkomandi frá frekari ofbeldishegðun gagnvart sér.
Þó svo einstaklingur komist úr aðstæðunum, er ávallt sú hætta að stjórnandinn taki viðkomandi áfram fyrir og nýti sér ýmsar aðferðir til að vega enn frekar að starfsheiðri og orðspori viðkomandi. Í einhverjum tilvikum verða aðstæður það slæmar að einstaklingar eiga það á hættu að stjórnandinn hreinlega hefji persónulegar árásir gegn einstaklingnum þrátt fyrir að viðkomandi hafi hætt störfum, og þrátt fyrir að einstaklingnum hafi mögulega verið sagt upp störfum.
Starfsstöð sem hefur stjórnanda sem ítrekað notar þöggunartilburði gegn starfsfólki sínu er aldrei heilbrigður vinnustaður. Starfsfólk lýsir oft mikilli vanlíðan á vinnustaðnum, mikið er um veikindi og fjarveru fá vinnustaðnum vegna kvíða eða líkamlegra einkenna sem virðast bundin vinnustaðnum.
Vanlíðan starfsfólks er ekki eingöngu bundin við starfsstöðina eða þennan tiltekna stjórnanda, og á starfsfólk oft erfitt með að finna sig í nýju starfi eftir slíkar aðstæður vegna ótta við að aðstæður muni endurtaka sig á nýjum stað. Getur starfsfólk því átt það á hættu að lenda í kulnun og hrökklast af vinnumarkaði, vegna ofbeldishegðunar eins stjórnanda gagnvart sér.
Er því mikilvægt að starfsfólk standi saman í erfiðum aðstæðum. Í aðstæðum þar sem einstaklingar eru óhikað teknir fyrir og keyrðir í kaf, geta hópar staðið sterkir gegn ofurefli stjórnanda.
Mikilvægt er fyrir okkur öll að muna að það er enginn hlutlaus er kemur að ofbeldishegðun. Kjósi starfsfólk að stinga höfðinu í sandinn er kemur að ofbeldishegðun stjórnanda gegn starfsfólki, er verið að samþykkja hegðunina, hegðun sem mun eflast við það að vera samþykkt og því beinast í meira mæli gegn þeim sem reyndu að vera hlutlausir.
Ofbeldi þrífst í þögninni, og til að vinna á ofbeldishegðun og uppræta hana af vinnumarkaði þarf að draga hegðunina upp á yfirborðið og krefjast breyttra aðstæðna.
Við eigum það skilið.
Við eigum það öll skilið.