Kynlíf á brúðkaupsnótt ekki forgangur

Indíana Rós Ægisdóttir kynfræðingur segir að kynlíf sé stór partur …
Indíana Rós Ægisdóttir kynfræðingur segir að kynlíf sé stór partur í lífi fólks. Ljósmynd/Sunna Ben

Indíana Rós Ægisdóttir kynfræðingur hvetur verðandi hjón til þess að eiga samtal um væntingar um kynlíf fyrir brúðkaupsnóttina. Hún segir gott að ræða við maka sinn um kynlífið reglulega enda hafa margir þættir áhrif á það og kynlíf para getur breyst með tíð og tíma.

Skiptir máli að stunda kynlíf um brúðkaupsnóttina?

„Auðvitað hefur margt áhrif á hvort fólk telur það skipta máli eða ekki, en ég held að það mikilvægasta sem þarf að hafa í huga sé væntingastjórnun. Það er mjög algengt á Íslandi að giftingar séu stórar veislur og oftar en ekki langur dagur, þá er líklegt þegar kemur að nóttinni sjálfri að báðir aðilar séu mjög þreyttir og kannski bara ekkert mesta löngun í kynlíf þá. Ég hvet öll verðandi hjón til að eiga samtal um þetta. Ef kynlíf þegar þið eruð nýorðin hjón er mikilvægt fyrir ykkur viljið þið jafnvel bara taka snöggan leik eftir athöfn og áður en þið farið í veisluna. En jafnvel er kannski raunhæfara og skemmtilegra fyrir alla að bíða þar til daginn eftir. Á Íslandi er það líka algengt að fólk er búið að vera lengi saman áður en það giftir sig og þá er kynlíf um brúðkaupsnóttina eða strax eftir athöfn alls enginn forgangur en það er gott að eiga samtal um hvernig þið sjáið fyrir ykkur fyrsta kynlífið eftir að þið eruð orðin hjón,“ segir Indíana.

Breytist kynlíf fólks eitthvað þegar það gengur í hjónaband?

„Ég held að hjónaband í sjálfu sér sé ekki endilega mikilvægasta breytan heldur frekar þættir eins og aldur, álag, barneignir, misjöfn kynlöngun eða tímalengd sambands. Sum gætu þó upplifað meira traust með þeirri skuldbindingu sem hjónaband er og treyst makanum fyrir einhverju sem þau hafa ekki viljað tala um eða prófa áður.“

Indíana segir að það sé gott að eiga reglulegt samtal við maka um kynlíf. Hún segir að hjónaband geti verið jafngóður tímapunktur og hver annar til að eiga þetta samtal.

„Við erum stöðugt að breytast sem manneskjur og kynlífið okkar er svo stór partur af lífi okkar flestra og það getur breyst mikið í gegnum lífið. Það er gott að ræða við makann hvernig þið viljið að ykkar kynlíf sé og þá kannski skoða hver væri draumasýnin okkar og hvað er raunhæft og finna gott jafnvægi þar á milli. Þá er líka mikilvægt að muna að hafa gaman, að kynlífið geti verið skemmtilegt og fyndið og vandræðalegt og það megi leika sér í að prófa sig áfram.“

Þjálfar fólk í klúru samtali

Gæsanir og steggjanir hafa fest sig í sessi á Íslandi. Indíana tekur að sér að heimsækja gæsa- og steggjahópa en leggur áherslu á að það henti ekki hvað sem er öllum einstaklingum.

„Gæsanir og steggjanir eru svo mismunandi og mismunandi hvernig gæsir og steggir eru og hvað þau fíla svo ég býð upp á tvennskonar prógrömm, annars vegar rólegheit þar sem við sitjum saman og spjöllum og fræðumst um kynlíf og sambönd, og hinsvegar meiri skemmtun þar sem allir fá þjálfun og æfingu í svokölluðu dirty talk, sem mætti jafnvel þýða á íslensku sem klúrt tal,“ segir Indíana og segir lítið mál að hafa samband við sig og fá ráðleggingar um hvor dagskráin henti betur.

Er fólk feimið að tala um kynlíf?

„Já ég held að það sé almennt þannig, ég er þó kannski í ákveðinni búbblu þar sem ég starfa við kynfræðslu að fólk talar oft óhikað við mig um það. Þetta er þó oft bara æfing sem þarf, og skiljanlega, þar sem þetta er oft tabú og fólk fékk litla kynfræðslu á skólastigi og þá finnst fólki þetta vera eitthvað sem þau „eiga“ ekki að tala um og vita ekki hvað þau eigi að segja. Jafnvel fagfólk, t.d sálfræðingar, kennarar og heilbrigðisstarfsfólk veigrar sér við það hreinlega af því að þau vantar tólin og þekkinguna í samtalið.“

Fólk er oft mjög þreytt eftir brúðkaupið og því sé …
Fólk er oft mjög þreytt eftir brúðkaupið og því sé kynlíf á brúðkaupsnóttinni lítið forgangsmál.

Keyrðu á Hvolsvöll

Hvernig var þitt brúðkaup?

„Við vorum búin að plana að halda stóra veislu úti í sveit en eftir frestanir út af covid ákváðum við maðurinn minn hreinlega að skella okkur til sýslumanns án þess að segja neinum. Einu sem fengu að vita af planinu okkar voru vinafólk okkar sem býr hliðina á okkur því okkur vantaði undirskrift votta.

Ég var kasólétt að okkar öðru barni en við vissum að okkur langaði að fara út að borða og svo á uppistand. Við völdum því dagsetningu á brúðkaupinu út frá því hvenær uppistand væri á dagskrá. Covid setti þó smá strik í reikninginn á brúðkaupsdaginn, bæði þurftum við að keyra á Hvolsvöll til sýslumanns þar því sýslumaðurinn á Selfossi þurfti að loka út af smiti og svo þegar við vorum út að borða, rétt um klukkutíma fyrir uppistandið, fengum við tölvupóst um að einn í uppistandinu hefði fengið covid og þurftu þau því að fresta. Við fórum því bara snemma heim og sofnuðum snemma, en það var bara mjög kósí, enda var ég kasólétt og strákurinn var í pössun og eins og flestir foreldrar ungra barna þekkja þá er það oft það helsta sem mann vantar. Planið er þó alltaf að halda stærri veislu þó við séum ekki komin það langt að við séum farin að skipuleggja það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda